Við Þórhallur fórum fyrir hóp Ferðafélags Íslands á Hrútfjallstinda um helgina. Við keyrðum austur í Skaftafell eftir vinnu á föstudeginum og hittum hópinn í Freysnesi. Þar beið okkar glæsilegur 11 manna hópur sem við fórum með á fjallið.
Lagt var af stað uppúr miðnætti og við gengum upp Hafrafellið, framhjá Sveltisskarði og áfram upp Hrútfjallið. Fórum upp Vesturtind, og áfram yfir hann á Norðurtind sem er sá hæsti.

Í hlíðum Vesturtinds voru nokkrar flottar sprungur ofl. glaðninar og þótti hópnum það mjög gaman að komast í svona action. Einnig var leiðin hinumegin niður af Vesturtind mjög skemmtileg.

Þetta gekk auðvitað allt vel og hópurinn var kominn niður aftur um kl. 17 eftir 17 tíma göngu, en við fórum mjög rólega og nutum þess í botn að vera þarna. Ég sá ekki eftir að hafa lagt af stað svona snemma því á niðurleiðinni var snjórinn orðinn mikið mýkri og sukkum við alveg uppá miðja leggi. Spurning hvort ég ætti að senda fjallaleiðsögumönnum reikning, en ég tróð auðvitað alla helvítis leiðina.. hehe Allavega var gaman að hitta annan hóp á svona sjaldförnu fjalli, en þetta er þetta eitt af alflottustu fjöllum sem Ísland býður uppá.

Ég vill þakka öllum þeim sem voru með í ferðinni fyrir frábæran dag og vonast til að sjá þau öll á fleiri fjöllum!

Myndir

Komnir uppá brún fyrsta fjallsins í um 800m hæð og tókum nestisstopp.
Hérna sést glitta í Þumal lengst til vinstri, þar Miðfellstind og litli toppurinn heitir Ragnarstindur. Hægra megin sést svo aðeins í Skarðatind.
Vesturtindurinn sjálfur, mikil hreyfing búin að eiga sér stað þarna síðan ég var þar síðast fyrir tveimur árum.
Smá sprunga sem við fórum yfir í Vesturtindabrekkunni.
Þetta var auðvitað skyldumyndataka eins og þið sjáið.
Áfram héldum við upp.
Hart færi gerði okkur kleift að vera broddalaus og sparkaði ég bara dugleg spor sem voru eins og tröppur.
Hér erum við svo komin á Vesturtind og þar var tekin nestispása.
Brauð og gott að drekka er það sem fullkomnar góða fjallaferð.
Fólk var að sjálfsögðu ánægt með að vera komið á toppana, enda útsýnið frábært og leiðin þrælskemmtileg.
Spjallað og nærst.
Svo var fólkið undirbúið fyrir framhaldið, en við héldum áfram yfir Vesturtind og á Norðurtind, sem er hæstur.
Allir að verða reddý aftur.
Þetta er nú reyndar enn á Vesturtind.
Þetta er útsýnið í Noður frá austurbrún Vesturtinds, við vorum nokkuð viss um að þetta væru Esjufjöll sem sést í þarna í hægra fjallinu.
Þetta var leiðin niður.
Auðvitað þarf að fylgja með smá jaðarsprunga til að gera þetta spennandi.
Svo var geggjað á hæsta toppnum og mikið var fagnað.
Hér eru svo verkefni framtíðarinnar, en þetta eru hinir tveir tindarnir, Hátindur og Suðurtindur. Vantar ferðafélaga til að fara á þá! helst klassísku leiðina.
Svo var haldið aftur niður yfir Vesturtind.
Og upp skemmtilegu brekkuna.
Annað sjónarhorn. Þetta eru nú bölvaðar rassamyndir, en þær fylgja svoldið þessu sporti.
Hátindur og Suðurtindur frá Vesturtind.
Að fara yfir fyrstu sprunguna niður Vesturtind.
Hér erum við svo komin niður að Skaftafellsjökli aftur og flestir orðnir frekar lúnir.