Þetta var nú svona hálfgerð skyndiákvörðun vegna góðrar spáar, en við skelltum okkur í blíðskaparveðri Laugaveginn, sem er gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Leiðinni er svona gróflega skipt upp í 4 dagleiðir þar sem skálar eru settir upp og með tjaldstæðum fyrir ferðalanga.

Við vorum 3 á ferð, Gummi St; Gummi I. og Palli og við gengum af stað frá Landmannalaugum rétt um kl. 1 um nótt þann 10. júlí. Tókum þetta nú ekkert í neinum sprett heldur bara haldið vel áfram. Aðal pásurnar sem voru teknar voru kannski ljósmyndastopp, þó að ég hafi nú verið sá eini sem var með myndavél sem ég skil nú bara einfaldlega ekki... En allavega að þá var ekki orðin nein birta af viti fyrren við vorum komnir í Hrafntinnusker, milli 4 og 5 en þar stoppuðum við og fengum okkur langþráða máltíð. Við höfðum keypt okkur nokkra pakka af eðal túrmat, lasange, nautakjöt m. kartöflum og kjúkling í karrý allt höfðingjafóður. Í þetta skiptið var það kjúklingurinn sem var étinn.

Ekki var stoppað lengi, því um leið og við höfðum klárað að éta lögðum við af stað aftur, og höfðum við varla orðið varir við lífsmark í eða kringum skálann þar sem allir voru í fastasvefni. Mjög fallegt er á leiðinni milli Hrafntinnuskers og Álftavatns og var það mest ljósmyndaði parturinn af leiðinni hjá mér, enda flott þegar snjór er að bráðna á svona fallegu landslagi.
Þegar við vorum komnir niður brekkuna undir Háskerðing niður að Álftavatni mættum við fyrsta ferðamanninum, en það var einhver útlendingur að ganga öfuga leið.

Þegar við komum í Álftavatn tjölduðum við og reyndum að leggja okkur aðeins. Eftir um 5 tíma af sólar-gufubaði hætti ég að reyna að sofa og fór að einbeita mér að því að koma okkur áfram af stað aftur þar sem það var ekki séns að sofa í þessari steik. Þegar allir voru komnir á fætur og búnir að snæða smá og drekka héldum við svo áfram niður í Emstruskála. Sú leið tók dáldið vel í, enda vantar ekki vegalengdina yfir sandinn og svo áfram eftir fyrri Emstruána. Komum í Emstrur um kvöldið, fengum okkur vel að borða og vorum svo sofnaðir áður en hausinn snerti 'koddana'.

Eftir góðan og langþráðan svefn fengum við okkur svo aftur að borða og héldum svo af stað áfram niður í Þórsmörk. Sú leið var nú bara ansi drjúg m.v. hversu stutt þetta leit út fyrir að vera svona kvöldið áður. Við komum svo niður í Þórsmörk rétt uppúr 14. og þurftum við þá að bíða í ca. klukkustund eftir næstu rútu í bæinn.

Ferðin var frábær í alla staði, en við vorum aðeins að keppast við að klára þar sem veðurspáin var ekki nógu góð fyrir næstu daga og gekk þetta bara mjög vel. Ég myndi vilja fara þetta aftur á lengri tíma til að skoða mig meira um á hverjum stað. Við höfðum t.d. ekki tíma til að skoða íshellanna við Hrafntinnusker, stóru hverasvæðin þar í kring og skreppa á Háskerðing svo dæmi sé nefnt... Svo væri líka hægt að "hlaupa" þetta í einum rykk, en þá myndi maður fara mun léttara búinn. Þannig vildi nú til að Laugavegshlaupið var svo daginn eftir að við kláruðum. Ég hafði nú bara ekki hugmynd um það fyrren ég sá allan undirbúningin niður í Þórsmörk.

Myndir

Lögðum af stað í "ljósmyndamyrkri", svo fór sólin að sjást..
Þetta þótti okkur helvíti magnað að sjá... ætli þetta hafi verið þegar verkfall flugumferðarstjóra var?
Komnir í Hrafntinnusker.
Matarstopp, hér elduðum við okkur dýrindis tumat, kjúkling í karrý.
Svo var haldið áfram, þarna sést í Háskerðing.
Fallegt landslagið í sólarupprásinni.
Dáldið óvanalegt að ganga svona merktar leiðir og í svona mörgum sporum, en þetta er ágætt aftur sem áður.
Gummi að ganga með Hrafntinnusker í baksýn.
Þetta er auðvitað bara endalaust flott þarna, og ekki skemmir snjórinn fyrir myndefninu..
Alveg magnað að sjá græna mosann þarna í klettunum.
Horft um öxl.
Enn einn hóllinn sem var á vegi okkar.
Lág sól gerir dáldið góðann kontrast í landslagið.
Bráðnunin á fullu.
Hreint út sagt magnað landslag.
Smá lækjarspræna.
Palli með syðra-fjallabak í baksýn.
Og þarna sést glitta í Eyjafjallajökul líka, Mýrdalsjökull til vinstri.
Á leið niður að Álftavatni.
Komnir niður á sléttuna og hér mættum við fyrsta manni, enda er klukkan hér að verða 9 um morguninn.
Enn of aftur fallegt svæði.
Gummi að klára brekkuna niður.
Hér erum við svo í Álftavatni, en við lögðum okkur hér í nokkra tíma áður en við héldum svo áfram niður í Emstrur.
Fyrsta jökulsáin, en þessi var reyndar með göngubrú.
Bara svona til að hafa þetta á hreinu..
Góðir á því eftir fyrsta vað.
Svo tekur stór sandeyðimörk við.
Hér erum við svo á lokadegi, frá Emstrum að Þórsmörk. Þetta er önnur Emstruáin.
Djúp og flott gljúfur þarna.
Hér er svo síðasta vaðinu lokið og bara stutt eftir niður í Þórsmörk.