Snæfellsnesið var heimsótt af okkur félögum á dögunum þar sem við klifum bæði Snæfellsjökul og Kirkjufell v. Grundarfjörð. Þetta mun nú vera í 3. skipti sem ég fer á bæði fjöllin, en veðrið var bara einfaldlega of gott til að vera heima og gera ekki neitt. Einar Valur, Addi og Gummi St. skipuðu liðið þennan daginn.

Allavega að þá er jökullinn orðinn ansi smár og á ekki mjög mikið eftir. Það sér svoldið á honum síðan ég fór á hann fyrst í ágúst 2005 og er hann orðin mun sprungnari og þær sprungur sem voru fyrir eru orðnar mun stærri. En fram kom einmitt í fjölmiðlum nokkrum dögum á eftir að það væri verið að ráðleggja fólki á að vera ekki mikið á ferðinni þarna án jöklakunnáttu og búnaðar.

Allstaðar var blússandi hiti og varla gola í lofti, en eftir jökulinn héldum við áfram yfir fjallahálsveginn niður í Ólafsvík þar sem við fengum okkur pizzu. Þar var svo heitt að það var hvorki hægt að sitja inni eða í sólinni. Þegar við vorum búnir að pína matinn í okkur og við vorum búnir að nöldra í hvorum öðrum afhverju við gátum ekki fengið þær bakaðar kaldar héldum við áfram í átt til Grundarfjarðar.

Við héldum ansi léttir á Kirkjufellið, enda ekki mikið búið að kólna, og notuðum við Einar bolina okkar sem svona "sólhatt" og svitaband. Enda vorum við alveg gjörsamlega að grillast þarna. Þetta gekk nú ágætlega hratt fyrir sig, en það voru sko aldeilis þyrstir menn sem komu niður af Kirkjufellinu þennan daginn þegar við vorum búnir af því að við tókum ekki með mikið af vatni.

Myndir