Þetta haust er nú búið að vera hálf tæpt í veðrinu, en þó einhverjir ágætis veðurdagar inná milli. Við höfum ekki mikið verið á ferðinni undanfarið, en þó aðeins skellt okkur þegar veður og aðstæður hafa leyft. Tvær ferðir standa þó uppúr og eru það ferð á Hlöðufell 18. okt og svo Einhyrning 9. nóv.

18 okt ætluðum við Addi og Óli að fara inn Kaldadalinn og etv. skoða Birkitréð v. Þórisjökul en komumst ekki þar sem við vorum á frekar lágum bíl og ákváðum þá að fara línuveginn og skoða okkur um þar. Algjörlega heiðskýrt var yfir fjöllunum við línuvegin sunnan við Þórisjökul og þar er Hlöðufell hið al glæsilegasta og ákváðum við fljótt að fara þangað ef við kæmumst þangað. Svo vildi til að hópur frá 4x4 var á ferðinni og þurftum við því að taka frammúr svona 20 bílum þar sem þeir voru að gera við einn bílinn.

En við komumst að skálanum við Hlöðufell þar sem uppgönguleiðin er og græjuðum okkur af stað. Í brekkunni sáum við 3 ferðalanga sem voru langt komnir upp. Það kom allavega ekki að sök að það var búið að troða tröppuspor upp alla hlíðina og sparaði það auðvitað orku og tíma. Þegar á toppinn var komið voru þetta reyndar ekki 3 saman heldur tvö á leið á toppinn og einn frá 4x4 að gera við brotið loftnet á endurvarpanum þeirra.

___

Þann 9. nóv skellti ég mér með Þórhalli í ferð tindáta á Einhyrning í Emstrum. Færið þangað var ótrúlega gott, enginn snjór á veginum og ekki mikið í ánum og veðrið alveg ótrúlega gott. Þennan dag hélt stór og góður hópur tindáta á fjallið sem tók vel á móti okkur.

Gangan þarna upp er ekki löng eða erfið, falleg leið frá fjallaskála upp gróna mosabrekku uppá breiðan hrygg sem leiðir á toppinn. Útsýnið af toppnum er líka ótrúlega flott, vel sést yfir Þórsmörkina, Mýrdalsjökull, Eyjafjallajökull, Tindfjöll, Rjúpnafell og uppá fjallabak sést í Háusúlu ofl.

Þegar komið er svona nær jólum er ekki mikið ljós þarna þar sem sólin rétt skríður yfir jökulbrúnina hvern dag í örlítin tíma og ýtir það upp skerpuna í umhverfinu og gefur skemmtilega lýsingu.

Eftir gönguna á Einhyrning gengum við niður að og meðfram gilinu þar sem Markarfljótið rennur niður að mörkinni. Veðrið hélst ótrúlega gott allan tíman og var þess auðvitað notið í botn.

Myndir

Á leið í Kaldadalinn, sunnarlega þar sem snjórinn var í lágmarki.
Hér er svo skálinn við Hlöðufell.
Lagðir af stað upp.
Best myndrænu staðirnir eru hér neðst og svo upp hrygginn í efri brekkunni.
Og hér erum við ss. á hryggnum uppað sléttunni.
Alveg að komast..
Þórisjökull hægra megin, Björnsfellin vinstramegin.
Hér erum við svo við vörðuna á toppnum.
Svo er auðvitað farið niður sömu leið.
Hér erum við svo á leið uppá Einhyrning. Sólin ekki enn komin.
Gengið upp hlíðarnar, flottur slétti kollurinn á hólnum þarna fyrir neðan.
Að nálgast toppinn, Tindfjöll í baksýn.
Tindfjöllin.
Hér erum við sem vorum að ganga á þennan tind í 1. skipti.
Flottir klettarnir í hlíðum Einhyrnings, hér er ég að módela fyrir Gerði á flottum kletti, verst að ég naði ekki að taka mynd þegar hún var að mynda.
Eyjafjallajökull undir flottum himni.
Hér tókum við góða kaffi og matarpásu í hlíðum Einhyrnings, Tindfjöll í baksýn.
Hér er leiðin um fjallið, einnig er hægt að fara aðeins legra norður fyrir það.
Hér er myndin af fjallinu sjálfu. Aðeins sést glampa í einn snjótind Tindfjalla þarna hægra megin við Einhyrningin, fossinn er bara í læknum sem rennur þarna.
Horft inn gilið upp emsturnar í átt að fjallabaki. Flott að hafa eitt svona props á staðnum.