Þessi helgi átti að fara algjörlega fram austur í Skaftafelli, en vegna einstaklega lélegrar veðurspár var hætt við þá ferð og í staðinn vorum við eitthvað að gæla við hvað við ættum að gera af okkur.

Við sváfum nú bara vel lengi frameftir á laugardeginum en ákváðum að fara þó bara útí óveðrið og láta okkur hafa það að þvælast í lægðunum. Við Óðinn fórum sumsé á Skessuhornið en Addi ákvað að verða eftir í bænum því hann var að fara í einhverja grillveislu um kvöldið.

Veðrið lék sér skemmtilega að okkur, en við fengum að upplifa sól, rigningu, snjókomu, haglél, skafrenning, rok, logn, þoku, birtu, útsýni, skyggnisleysi og bara allt sem hægt er að upplifa nema eldingar held ég.

Ferðin var þó góð, en allur ís er farinn úr horninu og því var ekki eins þægilegt að komast uppá topp núna og það var síðast... ekki erfitt þó.

Myndir

Lagt af stað frá bænum Horn, þar var samt búið að setja keðju fyrir heimkeyrsluna.
Hér erum við að koma okkur uppá hrygginn, frekar brött leið þar sem við fórum til að hliðra framhjá snjóhengju.
Óðinn prílar upp á eftir mér, þetta eru stuttir klettar á milli stalla alla leiðina.
Næsti pallur.
Þokan kemur yfir okkur. Í bak hægra megin sést Skorradalsvatn.
Það var þó snjór þarna.
Þetta er hið ágætasta brölt þarna upp, en þó algjör vetrarleið.
Svona líta stallarnir út, þarna er aðeins að rofa til, entist þó ekki lengi.
Mjög ofarlega.
Hér erum við svo komnir upp í frábært veður !
Svo er bara að koma sér niður, en þá gengum við niður í skálina í vestur þar sem slysið var um daginn.
Komnir niður í mýri á leið í bílinn.