Við Þórhallur og Örlygur fórum fyrir fögrum og fjölmennum hópi félaga í Ferðafélagi Íslands á Þverártindsegg þessa helgi ásamt aðstoðarfarar- og línustjórunum Einari Þórhallssyni og Jóni Helga Guðmundssyni.

Farið var upp frá Eggjardal undir botni Kálfafellsdal í suðursveit og tók gangan samtals rétt tæpa 10 tíma.
Veðrið var með besta móti, sjóðheitt í dalnum í glampandi sól og tilheyrandi útsýni, greinilegt að veðurguðirnir hafi vitað af okkur og þessum merkilega áfanga sem ferðin markaði og sýnt rausn sína í því tilefni.

Leiðin er frekar stutt, en brött. Mig minnir að göngulengdin sé milli 4 og 5km en gönguhækkunin sé um 1400m. Endilega skrifið athugasemd og leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál.

Hér má lesa frétt Ferðafélagsins um ferðina

ATH!, ég bætti við myndum frá Jóni Helga við að neðan.

Myndir

JHG photo, Örlygur á leið upp.
JHG mynd, Gummi skoðar eggina.
JHG mynd, Svo er haldið upp á axlarbrún af Skrekks-sléttunni.
JHG mynd, Geggjað útsýni og frábærir ferðafélagar er það sem gerir svona ferð ógleymanlega.
JHG mynd, Styttist í toppinn.
JHG mynd, Hér er svo tindurinn vestan megin í Egginni, ekki var farið á beittu eggina þar sem hún er stórhættuleg í vetraraðstæðum! Annars er gaman að segja frá því að þegar við fórum á hina að sumarlagi var ekki hægt að fara á þennan tind vegna lauss grjóts.
JHG mynd, Hér sést svo glitta í Öræfajökul og Esjufjöll til hægri. Þarna sést aðeins í skítviðrið sem reyndist vera þar.
Gengið upp bratta brekku uppúr Eggjardal.
Þetta var frekar bratt og sumsstaðar svoldið af lausu grjóti.
Fikrað upp fyrstu brekku.
Svo var komið upp í snjó eftir góða brekku og skemmtilegar sigæfingar til upphitunar fyrir daginn.
Svo blasir þessi fagra sjón við, en þarna er Þverártindsegg í öllu sínu veldi og skriðjökullinn Skrekkur undir henni, en hann hefur rýrnað mikið síðustu ár.
Smá kaffipása, flestir notuðu tækifærið og léttu á klæðnaðinum enda sjóðheitt, afar létt gola og glampandi sól.
Svona lítur eggin svo út af sléttunni fyrir ofan Skrekk.
Næsta pása var tekin þegar farið var inná Skrekk, en þar bundum við okkur einnig í línur.
Hér hefur brotnað stykki úr skriðjöklinum af öxlinni með tilheyrandi látum en þessi ísmoli fékk nafnið "Kamarinn".
Hér erum við komnir upp fyrstu bröttu snjóbrekkuna, í bak sést niður í Eggjardal og Kálfafellsdal.
Rétt eftir næstu bröttu snjóbrekkuna, ég asnaðist í aðeins meiri bratta þar sem ég sá ekki nógu vel aðstæðurnar, en benti svo auðvitað næstu línum á betri leið.
Leiðin er mjög töfrandi, útsýnið með besta móti og flott "alpaáhrif".
Þetta er allt að koma, en þarna er ekki langt eftir.
Gengið er eftir flottum hrygg þar sem sést vel í jökulinn sem kamarinn kom úr.
Hér er svo síðasta pása fyrir toppinn, smá hressing og klæða sig betur, enda farið að kólna og blása svoldið.
Setið á toppnum, en tindurinn er frekar mjór og rúmaði ekki marga í einu, enda var farið í nokkrum hollum uppá hann. Útsýnið af tindinum var magnað og sást
vel í óveðrið sem var á Öræfajöklinum og varð til þess að ekki var toppað á Hnjúkinn þennan dag skilst okkur. Í baksýn sést Svöludalur og Esjufjöll.
Næsti hópur á tindinn. í baksýn sést Snæfell (þetta snjólausa).