Nýlega voru stofnuð samtökin Vinir Vatnajökuls og var opnuð vefsíða í því tilefni, www.vinirvatnajokuls.is
Af vef þeirra:
Vinir Vatnajökuls eru hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðar. Hlutverk samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf sem stuðla að því að sem flestir geti notið þeirra náttúrufyrirbæra og þeirrar sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma. Með sameiginlegu framlagi innlendra og erlendra einstaklinga, fyrirtækja, félaga og stofnana geta Vinir Vatnajökuls styrkt góð og mikilvæg verkefni.

Við ákváðum í flýti þrír félagar að skella okkur í Kverkfjöll vegna einstaklega góðrar veðurspár. Við lögðum því af stað á fimmtudagskvöldi eftir vinnu um kl. 21.30 úr bænum og brenndum mjög óbeina leið uppí Sigurðarskála. Sprengisandur, ásamt nær öllu hálendinu var enn lokaður og því þurftum við að keyra gegnum Mývatn og Möðrudal og þar niður í Krepputungur og þaðan í Kverkfjöll þar sem við mættum hressir kl. 6 um morguninn.
Eftir góðan morgunlúr héldum við að Kverkjökli og skoðuðum íshellinn þar í góða stund, þar fengu myndavélarnar aldeilis að finna fyrir því og var skotið grimmt í honum. Einnig gengum við aðeins uppí Kverkjökulinn og miðað út hvar við skyldum fara upp daginn eftir.

Á Laugardeginum vorum við enn hálf þreytulegir, en náðum þó að drattast af stað og héldum upp í Kverkfjöllin. Eftir að hafa legið svoldið yfir kortunum kvöldið áður var spurning um hvort við myndum fara bara á vestari kverkina eða fara yfir á eystri kverkina líka eða jafnvel á hæsta tind svæðisins, Jörfa sem er 1929m hár og gengur einnig undir nafninu Skarphéðinstindur og er talsvert innarlega í eystri Kverkfjallahryggnum.

Þegar við lögðum af stað ákváðum við þó að taka ekki skíðin með þar sem þetta leit ekki mjög snjóalega út, en ég tók þó snjóþrúgurnar með og sá alls ekki eftir því, enda æðisleg verkfæri í svona ferðum, vigta andskotann ekki neitt og gera heldur betur gæfumuninn þegar á reynir.
Við gengum upp Kverkjökulinn í átt að vestara Kverkfjalli og fylgdum kverkinni uppá hæsta tind þar sem er 1799m hár. Ég var auðvitað stoppandi á öllum stöllum þar sem ég gat tekið myndir en ég tók líka með mér þrífót, auka linsu og panorama haus á þrífótinn til að ná örugglega öllu sem mér datt í hug og sé alls ekki eftir því. Þegar á hæsta tind vestra Kverkfjalls var komið tók við löng slétt snjóbreiða í átt að Hveradal og skála Jöklarannsóknarfélagsins. Strákunum leist nú vart á þetta, en ég óð auðvitað bara af stað eins og vitlaus maður vitandi að við tæki ótrúlegt ævintýraland þar sem jarðhiti mætir jökulís með öllum tilheyrandi tilþrifum. Ekki sáu þeir eftir þessari ferð þegar yfir var komið, svo stórkostlegt var útsýnið. Við gengum í skálann og settumst niður, hvíldum okkur og fengum okkur að borða.
Aðeins nokkrum dögum á undan okkur var kvikmyndateymi á svæðinu að taka upp myndir í íshellum og voru för eftir það útum allt þarna, jeppaför, fótspor, vélsleðaför og snjóbílsför ásamt því að við höfðum heyrt af nokkrum þyrlum í þokkabót. Þau voru þó haldin á brott og eftir stóð fjallið autt í þessu líka blíðskaparveðri.

Útsýnið á leiðinni upp var ótrúlegt. Í Vestur sáum við Bárðabungu, Kistufell, Urðarháls og Trölladyngju. Í norður sáust Askja, Herðubreiðartögl, Herðubreið, Upptyppingar, Vaðalda, Kverkfjallarani, Kverkhnjúkar, Virkisfell. Og í Austur sáum við að Hálslóni óskýrt, en við blasti Snæfell hinumegin við eystri Kverkfjall.

Þessi staður er alveg magnaður og munum við pottþétt koma hingað aftur í ævintýraleit, þá með skíði og jafnvel eitthvað meira til að fara um allt svæðið þarna uppi. Aldrei að vita nema maður láti sklija sig eftir þarna og sækja sig svo eitthvað annað.

Myndir

Varð að bæta þessari við, enda bara hin ágætasta mynd. Þarna er Addi að horfa uppí svelginn og magnaður snjórinn þarna sem hangir uppí í þakinu.
Íshellirinn í Kverkjökli er flottur og vinsæll staður til að skoða. Hann hrynur þó í júlí ár hvert þannig að að fara inní hann getur verið stórhættulegt.
Inni í Íshellinum, þarna er smá gat út.
Inngangurinn á íshellinum.
Hér er gat í loftinu og snjórinn sem hefur komið inn í vetur er að bráðna.
Mikið er um íshrun inni í hellinum en ekki bara við innganginn.
Þetta vatn útskýrir blámann í loftinu inni. Nokkuð djúpt og ekki líður á löngu þar til þetta fer í gegn. Addi býður mér þarna þúsund kall fyrir dýfingu. Engar sögur fara af því hvort ég hafi tekið tilboðinu.
Kverkjökull.
Hér erum við á leið uppá fjallið. Hérna fórum við af jöklinum til að fara eftir hryggnum vestan við kverkina. Við kölluðum þetta bara vestari kirtilinn.
Það er eitthvað verið að tékka á þessu. Ætli þetta séu ekki dýptarmælingar.
Hér erum við búnir að hækka okkur talsvert upp hrygginn, hægra megin sést hvar Kverkjökull rennur niður á milli "kirtlanna" eins og ég vill kalla þá. Í baksýn sést Dyngjujökull, Askja ,Herðubreið og Upptyppingar.
Hveradalir í Kverkfjöllum er ótrúlegur staður.
Þarna eru tvenn lón, austan og vestan við skála Jöklarannsóknarfélagsins. Annað þeirra var nú ísilagt, en hitt ekki. Fjalllendið þarna vestan við lónið heitir Vesturfjöll.
Addi skoðar Hveradalina með mér. Magnaður staður. Dyngjujökull í baksýn. Og í fjarska sést í sandrok norðan Gæsavatnaleiðar.
Heitt mætir köldu. Hér er hverasvæðið í Hveradal og þarna rennur meiraaðsegja heitt úr hvernum og ofaní íslagt lónið.
Einnig sést vel núna í sandfokið sunnan Öskju.
Glæsilegt skarð í Hveradal, þarna eru heitir hverir og magnaðir litir í berginu, mjög dökkt þarna vinstra megin (skuggi sólarinnar ýkir það kannski aðeins) en svo eru ljósrauðir klettar hægra megin.
Þetta er skáli Jöklarannsóknarfélagsins í Kverkfjöllum. Reistur 1977 og hefur þjónað vel síðan. Þarna sést í hitt lónið og alveg magnaðir ísjakar á stærð við einbýlishús alveg við það að falla ofaní.
Gummi gengur með mér framhjá Hveradal.
Við fórum niður Löngufönn alveg vestast við Hveradal, magnað svæði alveg!
Heitt mætir köldu enn á ný. Fallegt, en ekki hættulaust.
Á leið niður. Þarna erum við að komast úr Hveradal og í baksýn sést í Dyngjujökul, Askja er undir skýjunum, Herðubreið leynir sér ekki og Upptyppingar þarna rétt vinstra megin við miðja mynd ber við himinn. Tindaröðin sem liggur frá Kverkfjöllum heitir Kverkfjallarani og Kverkhnjúkar litlu austar. Áberandi dökki tindurinn þarna heitir Virkisfell og er rétt við Sigurðarskála. Áin á myndinni heitir Volga og rennur í Jökulsáraura við Flæðurnar.
Gummi að ganga niður Löngufönn. Í baksýn sést rönd í Dyngjujökli, ásamt ónefndu lóni undir jöklinum.
Hér erum við svo komnir á brúna yfir Volgu rétt fyrir neðan íshellinn. Brúin kemur skemmtilega á óvart.
Þetta skilti er ekki þarna að ástæðulausu. en þarna sést í hellismunan, einnig sést þarna hvar við gengum upp á kverkina þarna vinstra megin, og fórum svo niður hægra megin í Löngufönn.