Á ferðum mínum undanfarin ár hafa hlaðist upp fullt af myndum. Margar þessara mynda hafa birst hér áður, en einhverjar ekki einnig sem langflestar hafa aldrei birst. Undanfarnar vikur hef ég unnið að þessari seríu sem mér fannst vera skemmtilegt viðfangsefni.

Þegar mér var boðið á opnunardag heimasíðu vina Vatnajökuls ( www.vinirvatnajokuls.is ) datt mér í hug að sniðugt væri nú að eiga einhverja sérstaka og einstaka seríu um þennan merka jökul. En þar sem þessi sería er bara úr nokkrum ferðum sem ég hef farið um svæðið gæti ég þurft að bæta heldur betur í þessa seríu og taka til, þ.a.s. henda út fyrir flottari myndum.

Ég skrifaði dáldinn texta með myndunum til að útskýra hverja sérstaklega, og ef áhugi er fyrir að nota/birta einhverjar myndir óska ég vinsamlega eftir að haft verði samband við mig fyrst.

Myndir

Á toppi Binudalstinds í frábæru veðri. Í bak sést í Þverártindsegg og Snæfell vinstra megin, fyrir miðju sést í Esjufjöll og hægra megin sést tindaröðin í vesturjaðri Skálafellsjökuls.
Leiðin á Birnudalstind liggur upp Birnudal, hægt er að fara nokkrar leiðir uppúr dalnum og alpaáhrifin heilla þegar ofarlega er komið því margir flottir tindar eru á vegi manns.
Þórhallur gengur á skíðum niður Breiðamerkurjökul. Í baksýn sést í Öræfajökul.
Hrútfjallstindar, fólk á leið á Norðurtind sem er hæsti tindurinn. Einnig sést í Miðtind.
Suðurtindur Hrútfjallstinda er einn aðal alpatindur landsins. Hann hefur margoft verið klifinn af helstu fjallamönnum landsins, en svokallaða Klassíska leið á Hrútfjallstinda liggur upp suð-vestur faceið á Hrútfjallinu, yfir Suðurtind og svo niður gönguleiðina.
Hvannadalsnhjúkur séður af Norðurtind Hrútfjallstinda, en fólk sést þar á toppnum í stærstu útgáfu. Á milli er Tindaborg og fyrir neðan Hnjúkinn eftir Hvannadalshrygg er Dyrhamar. Sprungurnar neðst eru upptök Svínafellsjökuls.
Þverártindsegg er ~1550m há egg sem stendur virðulega uppúr botni Kálfafellsdal sunnan Vatnajökuls. Austurveggurinn sjálfur sem sést vel á myndinni er 400m hár og hefur verið klifinn einu sinni, sjá http://www.hofsnes.com/
Skýjamynd tekin af Birnudalstind. Greinilega orðið alskýjað yfir Kálfafellsdal, en Þverártindseggin ásamt Snæfelli standa þarna uppúr og í fjarska sést Öræfajökull vinstra megin og Esjufjöll hægra megin.
Kverkfjallajökull rennur milli Kverkfjallanna í Kverkfjöllum. Ég vill persónulega kalla þetta eystri og vestari kyrtla, og svo rennur jökullinn niður kverkina, en það er nú bara ég... Í bak sést í Herðubreið, Upptyppinga og Krepputungur.
Gummi St. virðir fyrir sér Öræfajökulinn.
Guðmundur S. Ingimarsson beislar varmann á Kristínartindum í vetrarferð snemma 2008. Hnjúkurinn sést í baksýn ásamt Suðurtind- og Miðtind- Hrútfjallstinda.
Mauraþúfan Hvannadalsnhjúkur, einnig þekkt sem hæsti hóll landsins :) á góðum degi. Þegar mesta traffíkin er fara nokkur hundruð manns á toppin sama dag og er því með sönnu hægt að kalla fjallið mauraþúfu í þeim tilvikum.
Hnútudalur í Skaftafelli heitir þessi staður og er leiðin sem klifrarar fara til að fara á Þumal (vinstra megin) eða Miðfellstind(hægra megin). Bak við tindanna er svo Vatnajökulsbreiðan.
Hveradalir í Kverkfjöllum. Hér er mjög fallegt háhitasvæði alveg við jökulinn. Mikil Heitt mætir köldu áhrif eins og ég kalla það. Dyngjujökull í baksýn ásamt Öskju. Sandrok á Gæsavatnaleið.
Í botni Kálfafellsdal er dalverpi sem nefnist Vatnsdalur, við himinn blasir svo Snæfellið.
Gummi á leið á Kristínartinda að vetri. Flottir hryggir eru á þessari leið og nokkrir brattir kaflar. Leiðin endar svo á einum af flottari útsýnisstað landsins.
Skáli Jöklarannsóknarfélagsins er staðsettur fyrir ofan Hveradalina í Kverkfjöllum. Þaðan er hægt að ganga frá Sigurðarskála eða koma af Vantajökulssléttunni. Tvö lón eru sitthvoru megin við hann og við annað lónið er stórt hverasvæði. Skálinn var reistur árið 1977 af Jöklarannsóknarfélaginu.
Íshellirinn í Kverkfjöllum. Þessi staður er sígildur en ekki hættulaus þar sem hann tekur sífelldum breytingum, í formi hruns, árfarvegar eða framhlaupi jökulsins. Fara ber með mestu gát þegar hann er skoðaður og helst skal ekki fara inn í hann.
Ísinn frífellur nokkra metra úr Vatnajökulsbreiðunni áður en hann bætir á Morsárjökul í Morsárdal í Skaftafelli. Þegar gist er á sléttunni fyrir neðan jökulinn vaknar fólk oft upp við miklar drunur og titring, þá er sennilegast bara verið að bæta á Morsárjökul.
Árið 2007 rann svo mikil aurskriða á jökulin eins og sést á myndinni.
Ísklumpur á Skrekk. Á leiðangri með hóp á Þverártindsegg á dögunum var þessi vel staðsetti ísmoli notaður sem kamar og reyndist vel.
Snæfell séð frá vestara Kverkfjalli. í forgrunni er auðvitað austari Kverkfjall.
Svartifoss á Skaftafellsheiði. Varð nú að hafa einhverja svona venjulega mynd með fyrst þetta er nú sería...
Jón H. mundar Tetra-stöðina á Birnudalstind. Í baksýn sést í tindaröðina suðvestan Skálafellsjökuls.
Þórhallur á leið á Snæfell syðra, en merkt er gönguleið upp svokallaðan Miðfellshrygg sem er með öllu ófær í sumaraðstæðum venga stórhættulegs lausagrjóts. Hugsanlega væri hægt að klöngrast þetta í pikk-frosnu harðfenni, er ekki viss.
Eggjardalsleið á Þverártindsegg, gengið er frá Eggjardal langt inní Kálfafellsdal upp yfir skriðjökulinn Skrekk og þaðan áfram upp á eggina sjálfa. Gangan er mjög stutt og einnig mjög brött.
Á leið á Þverártindsegg. Brött jökulbrekka liggur uppað egginni sjálfri, þar er skemmtileg jaðarsprunga og við tekur stór Corn-flakes hrúga...
Frá Reynivallaleið á Þverártindsegg, síðla sumars sést hversu vel sprunginn þessi jökull er. Jökullinn er ekki merktur með nafni á kortum, en ég vill kalla hann Veðurárjökul sem er kennt við dal þarna sem ég hef ekki enn skoðað. Í baksýn sést í Öræfajökul, Sveinstind ásamt klettinum Mikill og Þuríðartind.
Frá Reynivallaleið á Þverártindsegg, síðla sumars sést hversu vel sprunginn þessi jökull er. Jökullinn er ekki merktur með nafni á kortum, en ég vill kalla hann Veðurárjökul sem er kennt við dal þarna sem ég hef ekki enn skoðað. Í baksýn sést í Öræfajökul ásamt klettinum Mikill og Þuríðartind. Til hægri eru Mávabyggðir.
Þverártindsegg gnæfir yfir botni Kálfafellsdal í Suðursveit. Skriðjökullinn Skrekkur liggur svo úfinn þarna ofanaf brúninni neðan við hana.