Við héldum á vit ævintýranna norður á strandir þann 12. ágúst. Keyrðum þrír saman, Gummi St. Gummi SI og Palli norður í Árneshrepp og stefnan var tekin á Lambatind ef veður leyfði. Því miður var þoka á svæðinu eins og svo oft en í staðinn gengum við á Reykjaneshyrnu í þoku, kíktum í sund á Krossnesi og skoðuðum þvínæst gömlu síldarverksmiðjuna á Ingólfsfirði.

Eftir að þetta svæði var stimplað afgreitt í bili var haldið inn í Ísafjarðardjúp þar sem við hittum Jón H. og Halla þar sem þeir voru búnir að koma sér vel fyrir í tjaldi þar sem við sváfum áður en við fórum norður í Hlöðuvík.

Daginn eftir vorum við svo sóttir á bryggjuna við Bæji þar sem Jónas í Æðey skutlaði okkur yfir í Hlöðuvík. Sú ferð tók ekki svo langan tíma og gaman var að skoða þetta svæði svona frá sjó.

Við komum í Hlöðuvíkina um hádegi og vorum við fljótir að koma dótinu inn og fara eitthvað á flakk þar sem veðrið var bara mjög gott. Strax fórum við að hugsa hvað við gætum nú gert af okkur og voru ýmsar hugmyndir í gangi en við enduðum á að ætla að fara að skoða ána sem endaði með geggjaðri ferð yfir Álfsfellið.

Næsta dag gengum við yfir í Hornvík í rólegheitunum, hittum þar landvörðinn Jón Björnsson ásamt hjálparmanni þar sem hann var að ganga frá nýju landvarðahúsi. Þar spjölluðum við dáldið við hann og benti hann okkur á skemmtilega leið til baka yfir í Hlöðuvíkina sem liggur við fjallið Darra sem er þar á milli. Auðvitað fórum við þessa leið sem var mjög skemmtileg þrátt fyrir þokuna og gengum við þrír uppá Darra í leiðinni sem var mjög stuttur útúrdúr.

Næsta dag vorum við heldur rólegri, þó vaknaði Jón snemma og stökk uppá Kaldárnúp en við hinir sváfum út og við Gummi fórum svo í ljósmyndaleiðangur um fjöruna og næsta nágrenni.
Síðasta daginn var gengið yfir Hlöðuvíkurskarð í Veiðileysufjörð þar sem við vorum sóttir á leiðinni heim.

Ferðin var mjög vel heppnuð og skemmtileg, fullt af myndum voru teknar og síðasta kvöldið grilluðum við okkur dýrindis hrefnusteik.

Við þökkum staðarhöldurum kærlega fyrir okkur, þessi ferð verður okkur ógleymanleg!

Myndir

Á Reykjaneshyrnu
Gummi St. á blátindinum á Reykjaneshyrnu í Árneshrepp
Alveg magnað útsýni hreint !
Fífur í Reykjaneshyrnu, horft inn að Norðurfirði
Gamalt hús við Síldarverksmiðjuna í Ingólfsfirði.
Gamla síldarverksmiðjan í Ingólfsfirði. Hún var starfandi til ársins 1952 sem slík og svo fyrir rækju til ársins 1971.
Jónas Helgason í Æðey sá um að sigla með okkur norður í Hlöðuvík.
Jón H. og Haraldur alveg að lenda í Hlöðuvíkinni, tilbúnir að kasta akkeri.
Við Gummarnir við brúarsmíði í Hlöðuvík.
Rekaviður í Kjaransvík undir Álfsfelli.
Haldið að Helgudal á leið á Álfsfell.
Greinilegt hvað þessar sækja í.
Jón byrjaður að hækka sig uppí Álfsfellið.
Horft yfir Hlöðuvík frá Álfsfelli.
Kjalárnúpur til vinstri, norðurhluti Álfsfellshryggsins og hægra megin er Hælavíkurbjarg.
Lækkun niður af Álfsfelli, fórum niður hrygginn í suður og beygðum svo niður í Bæjardal rétt við hrygg-eggina.
Jón Helgi stendur á Brúninni á hryggnum milli Bæjardalsfjalls og Álfsfells í leit að leið niður í Bæjardalinn.
Hér fórum við svo niður í Bæjardal, sæmlilega bratt svona en við þurftum af og til að nota hendur við lækkunina.
Alveg að koma niður í Bæjardal.
í Bæjardal, í baksýn sést í Hælavíkurbjarg og Skálina sem gönguleiðin liggur um.
Áin sem rennur niður Hlöðuvíkina. Fór lengri leiðina til baka þar sem ég tók smá photo-session.
Búðabær og Búðasel í Hlöðuvík. Falleg mýri er þarna fyrir ofan húsin.
Búðabær í Hlöðuvík. Fallegt hús á mögnuðum stað.
Gummi St. heggur í eldinn.
Á leið í Hornvík, Gummi vel græjaður og Halli og Palli elta.
Erlendir ferðalangar virða fyrir sér Hornbjarg úr Rekavík.
Hér hefur greinilega verið veisla hjá tófunni.
Palla virðir fyrir sér rekaviðslistaverk í Hornvík.
Þoka var þegar við gengum á Darra, sem er tæplega 700m hátt fjall milli Hlöðuvíkur og Hornvíkur.
Palli bíður eftir Gumma í þokunni.
Ánægðir eftir góðan dag, Gummi St, Jón Helgi og Haraldur.
Fjaran í Hlöðuvík er falleg.
Svarthvít mynd af fjörunni í Hlöðuvík. Álfsfell til vinstri en Kjalárnúpur til hægri.
Það var að flæða rólega inn þegar við Gummi vorum að taka myndir í fjörunni.
Það var tekið svoldið session með svona time-lapse tökur. Var með ND8 filter og Polarizer til brúks á linsunni.
Ólafur Eyþór heggur í eldinn við Búðabæ.
Svo fengum við þennan góða gest um kvöldið. Því miður var farið að dimma svo mikið að myndirnar voru ekki nógu góðar.
Hér erum við í Veiðileysufirði á leiðinni til baka á sunnudeginum.
Snjójakar fram í ágúst eftir snjóþungan vetur.