Haraldur Örn hálfnaður upp
Ýmsir hellar í Reykjanesinu hafa verið heimsóttir af okkur á síðustu misserum meðan við bíðum eftir ísnum og snjónum.

Topp hellaferðinni var svo náð sunnudaginn 13. desember þegar við fórum fimm saman í Þríhnjúkagíg sem er gamall gosgígur sem hefur tæmst og hægt er að fara niður í næst stærsta helli sinnar tegundar í heiminum. Ekki er nema 120metra sig niður og eina leiðin út er að júmma sig upp línuna til baka. Þó svo að aðeins ein mynd sé úr honum er það eina sagan sem er frásagnarverð. Því miður var of vont veður til að taka myndir af gígopinu og aðstæðum fyrir ofan, því tók ég eingöngu myndir úr salnum niðri.

Fimm manna leiðangur sunnudaginn 13. desember. Leiðangursmenn: Arnar Jónsson (Addi), Guðmundur E., Guðmundur Freyr Jónsson (Gummi St.), Haraldur Örn og Sveinn Ægir

Fyrst stóð til að halda í hellinn á laugardeginum, en vegna veðurspár var því frest um einn dag. Reyndar var alveg hrikalegt veður á sunnudeginum líka og var þoka og rigning á okkur allan tíman. Við vorum með eina 200m línu sem nær alla leið niður, eina 100m línu sem náði ekki niður, auka 25m línu og svo 30m línu til að strekkja siglínuna frá hellismunanum til að forðast nudd. Til að halda þeim sem bíða á meðan heitum og í þokkalegu ástandi í þessu skítviðri tókum við tjald meðferðis sem við skelltum upp í snjóskafli rétt við gatið og gerði það aldeilis gæfumuninn.

Við festum línurnar, 200m línuna sem nær botninum og 100m backupið settum við bara til hliðar ekki festa til klifurs og græjuðum okkur til niðurferðar.

Kerfið virkaði þannig að við settum karabínu á siglínuna tengda við festu hinu megin við gíginn sem var auðvelt að losa og herða þannig að línan væri yfir miðjum gígnum þannig að þegar menn fóru framhjá þurftu þeir að klippa karabínunni yfir/undir sig. (notuðum GriGri hinumegin til að strekkja/slaka)

Fyrstur niður var Haraldur og á miðri leið tók hann skyndilega eftir því að hann horfði upp á 3 línur en ekki tvær. Hann stoppaði sig af og togaði í línurnar. Skyndilega blasti við honum góð flækja sem tók smá stund að losa og voru þá allar línurnar beinar niður. Eftir langt og gott sig fengum við kall um að hann væri kominn niður og næsti mætti leggja af stað.

Þá setti ég mig í línuna, þræddi línuna yfir alla hólka "rack" tólsins sem við notuðum við sigið og lét mig vaða niður. Sigið var mjöööög langt, fyrst er farið um hálfgerðan stút með allskonar þrengingum, myndunum, hraunrásum oþh. Þegar ég kom svo í stóru hvelfinguna sjálfa (kominn niður ca. 50m) sá ég smá ljósablett niður á botni. Þar stóð Haraldur og prufaði ég að kalla á hann en ég fékk ekkert svar og hélt því bara áfram niður. Ég seig og seig og hélt ég ætlaði aldrei að komast niður á botn, en svo loksins náði ég botninum eftir alveg nokkrar mínútur í stanslausu sigi, enda fer maður ekki hratt í svona löngu sigi.

Haraldur tók á móti mér og við stóðum þarna og horfðum á hvorn annan og grjótið í gólfinu til skiptis þangað til að mér datt í hug að taka af mér pokann og ná í stóra ljósið sem við fengum með okkur. Þegar ég kveikti á því vorum við svo gáttaðir og hissa að ég var næstum dottinn afturfyrir mig við að horfa uppí loftið! Þetta var einhver magnaðasta sjón sem nokkur getur fengið neðanjarðar! Þvílík hvelfing, við vorum eins og litlir maurar þarna niðri.

Næst komu Gummi E. og Sveinn. Þeir komu niður og ég tók nokkrar myndir af þeim á leiðinni. Við skoðuðum lauslega hliðargöngin í sitthvora áttina en héldum fljótlega upp aftur þar sem við þurftum að halda áfram. Haraldur byrjaði þá á því að júmma sig upp. Við sátum og horfðum á og mynduðum hann við að vinna sig upp línuna og þegar hann var að komast uppí stútinn var rétt hægt að greina hann með því að lýsa beint á hann. Hann var eins og lítill blettur þarna í loftinu og virtist ekkert hreyfast þó hann væri í raun að færast ofar.

Þetta tók dáldinn tíma og þegar hann var kominn upp seig Addi niður. Addi fór frekar hratt niður og var því fljótt kominn niður á botn. Mjög fljótlega eftir að hann kom niður hóf ég að júmma mig upp. Þetta virtist vera bara nokkuð eðlilegt. Ótrúleg teygja í línunni þó þetta sé static. Held að ég hafi strekkt hana um svona 4-6 metra niður. Þetta var bara botnlaus vinna, upp, niður, upp, niður, upp, niður. Júmmari er festur í beltið og við brjótið mjög þröngt of hert þannig að hann sé helst til alveg fastur. Svo er efri handjúmmari, tengdur við fótstiga til að hækka sig upp. Þannig að lyfta þarf honum upp með höndunum og stíga svo og toga í hann. Því fastari sem neðri júmmarinn er því minna tap var í hverju hjakki. Ég held að ég hafi verið að færa júmmarann svona 40-50 cm upp í hverju taki og missti svo 5-15 cm hæð við neðri júmmarann, fór svoldið eftir hvernig ég bar mig að.

Eftir um klukkutíma af þessu fjöri var ég kominn dáldið uppí stútinn, kominn framhjá einum kletti sem var ca. 20cm frá línunni með nöglum í sem ég var ekki alveg viss um hvað voru að gera þarna, sennilegast kominn í ca ~100m og var farinn að geta talað við Harald sem var uppi fór ég að horfa svoldið upp og sá að línan sem ég var í var að nuddast í hraunkletta sem stóð þarna svoldið út og var búinn að strippa kápuna af þannig að kjarnaþræðirnir sjálfir voru að nuddast í klettinn. Ég stoppaði mig af og hugsaði um eitthvað fallegt í smá stund þar sem ég var búinn að vera með lag af nýja disk Sverris Stormskers á heilanum alla andsk. leiðina. En í raun vissi ég ekkert um ástand línunnar, hvort kjarnaþráðirnir væru farnir að tapa tölunni eða hvað.

Ég kallaði á Harald og bað hann vinsamlegast um að festa backup línuna tryggilega, hann var fljótur að skynja að eitthvað væri ekki alveg eins og það ætti að vera og var því mjög fljótur að því. Nú mátti ég andskotast yfir á backup línuna og klára í henni. Ég notaði 2 prússík við færsluna, byrjaði að festa mig við backup línuna með öðru þeirra, því næst efri júmmarann og tók fljótt eftir því að backup línan var töluvert slakari en sú sem ég hékk í. Þessvegna var dáldið mál að koma neðri júmmaranum yfir líka því ekki er hægt að losa hann með einu stykki Gumma hangandi í honum.

Því notaði ég hitt prússíkið, hafði það örstutt til að nota það sem "neðri" júmmara á backup línuna og þurfti að strekkja svona 4x á henni til að ná að losa helvítis neðri júmmarann. Til að ná að færa prússíkið eftir að hafa hangið í því þurfti ég að halda með vinstri hendi í efri júmmarann, halda með neðri hendinni í línuna því prússíkhnútur bremsar í báðar áttir á línunni og losa/færa hnútinn með kjaftinum. Á endanum náði ég að koma mér yfir á backupið og bað þá Harald um að færa strekkilínunna til þannig að við myndum losna við að línan sargist svona í klettinn. Það gekk eftir nokkrar tilraunir og ég kláraði að júmma mig upp.

Þeir niðri höfðu fengið fréttirnar og grunar mig að þeim hafi trúlegast einhverntíman liðið betur. Við dróum sárið inn og enn náði línan niður. Þvínæst hóf Gummi E. sína uppferð og lentum þá í sama rugli og með mig. Línan hafði þar skorðast af í hrauninu þegar við slökuðum henni niður og strekktum hliðarlínuna. Gummi tók eftir þessu á svipuðum stað og ég og kallaði á okkur. Hann hækkaði sig örlítið og eftir það voru kjarnaþræðirnir búnir að tvístrast á klettinn sem fór algjörlega með allt línutraust hjá honum. Við sögðum honum hvernig ég fór að því að færa mig yfir og hóf hann að gera það sama. Eftir smá stund var hann kominn með efri júmmarann og prússík yfir líkt og ég en var í vandræðum með að losa þann neðri svipað og ég þannig að við Haraldur ákváðum að setja okkar júmmara á backup línuna og toga duglega í hana. Þetta dugði til þess að Gummi náði að færa þann neðri og kláraði upp.

Nú var vandamál í stöðunni. Í upphafi settum við ekki löngu línuna nógu langt því við vorum með nokkra tugi metra uppi og þegar við vorum búnir að taka inn nýja sárið voru ca. 8 metrar niður á botn. Því gripum við til þess ráðs að skera í sundur línuna og binda saman aftur þannig að nú var hnútur ofarlega í leiðinni. Það kom ekki að sök þar sem bæði Sveinn og Addi flugu yfir hnútinn auðveldlega, þó það hafi kannski ekki verið þægileg tilfinning. En þá er farið alveg uppað hnútnum, efri júmmarinn færður uppfyrir hnút, hækkaður neðri uppað hnút aftur, þá teygt sig með efri hátt og stigið upp og smellt karabínu milli beltis og efri júmmara meðan sá neðri er færður uppfyrir hnút.

Lífið á botninum eftir 2 slæmar uppferðir:

Eftir að hafa verið kræfir við að segja hryllingssögurnar, sem maður hafði heyrt um fyrri ferðir í hellinn, þá var einkar hressandi fyrir sálina að heyra af því að kápan hefði farið í sundur og það hefði gerst strax með mann númer 2 upp línuna. Og til að auka á gleðina fór línan næstum í sundur með mann númer 3. Allt er þegar þrennt er var máltæki sem varð á stuttum tíma afar óvinsælt í huga þeirra sem áttu enn eftir að koma upp.

Línan styttist og styttist og það endaði með að 200m línan dugði ekki niður og þurfti að binda saman, sem þýddi aftur á móti að fara þurfti yfir hnút. Allt saman gleðifréttir fyrir Svein og Arnar sem horfðu bara á hvor annan og þögðu í langan tíma.

En sem betur fer hafði bitur reynsla Gummanna tveggja tilskilin áhrif svo að línan hitti nú á réttan stað og uppferðin gekk eins og í sögu fyrir tvo seinustu upp línuna. Þó hafði Arnar lent í töluverðu basli með að koma sér af stað þar sem "brjóstjúmarinn" hafi eitthvað stíflast og var alveg pikkfastur í góðan tíma rétt hálfan metra frá jörð. En eftir mikið bölv og mörg fúkyrði náði Arnar að greiða úr því og kom svífandi upp línuna.

Þetta tók allt sinn tíma og var mörgum klukkutímum varið í tjaldinu meðan beðið var eftir þeim sem var að júmma sig.

Þá var öllu pakkað saman gegnblautu, tjaldinu, línunum, fötunum, dótinu og haldið niður í bíla. Komið var við og fengið sér langþráðan Subway á N1 á Ártúnshöfða um kl. 2 um kvöldið áður en haldið var svo heim.

Eftirá vorum við farnir að trúa ýmsum "tröllasögum" sem maður hafði heyrt um þennan stað áður, en einhverjir hafa t.d. sagt að aldrei komi heil lína uppúr þessum helli.

Myndir

Bjarki kemur upp úr svelgnum í Búra.
Horft upp svelginn innst í Búra.
Magnað mynstur í veggjum svelgins í Búra.
Leiðin í Búra.
Göng í Leiðarenda. Aðeins lýst með einum ljósgjafa.
Rósótt mynstur í góli Rósahellis.
Litað hraun í Rósahelli.
Þverskurður af Þríhnjúkagíg.
Haraldur Örn júmmar sig upp línuna uppúr Þríhnjúkagíg. Hann er þarna neðarlega í bláu dagsbirtunni, uþb hálfnaður upp 120m leiðina.
Addi í TRI hellakerfinu.
Beðið eftir ljósmyndaranum í TRI-hellakerfinu.
Hellismunar kannaðir í Þríhnjúkahrauni að kvöldi.
Í Djúpahelli Bláfjöllum.
Gísli í Djúpahelli.
Í Langahelli, Bláfjöllum.
Gísli skoðar ræturnar í Rótarhelli.
Gummi virðir fyrir sér ræturnar í Rótahelli.
Myndanir í Ferli.
Leiðangursmenn í Ferli.
Hrauntunga í Ferli.
Úr Ferli.
Addi í kjaftinum á Ferli.
Kjafturinn í Ferli.
Ferlir.