Við strákarnir erum á hringferð um landið þessa daganna. Byrjuðum á að keyra norður á Akureyri og stefndum á að klifra vel á Tröllaskaganum um helgina og fara svo austur á firði í framhald. Smá klúður hjá einum okkar var að gleyma klifurskónum heima og fékk þá senda norður með flugi á laugardeginum.

Við keyrðum inní Skíðadal og þar voru þokkalegar ísaðstæður, okkur sýndist þó efri kertin í super dupoint vera í fínum aðstæðum en vissum ekki að venjulega er farið framhjá fyrsta kertinu.

Þegar við vorum búnir að sækja skóna á flugvöllinn var haldið í Munkaþverárgil þar sem við ætluðum að skoða möguleika á mixklifri þar sem leiðinlega háar hitatölur voru við völd. Þegar við komum þangað brá okkur hve mikill ís var í gilinu fyrir ofan brúnna en þar kláruðum við daginn.

Klifruðum tvær leiðir í gilinu í ofanvað þar sem við gleymdum að taka augun til að bolta leiðina. Leiðirnar voru samt úr sama akkerinu þar sem þær fóru báðar í sama kertið. Stuttar leiðir, brattar og skemmtilegar. Ísinn var á hröðu hlákustigi og því mjög mjúkur til festinga.

Laugardagskvöldið var tekið hátíðlega með tónleikaför á Hvanndalsbræður sem spiluðu á Græna Hattinum. Eftir nokkrar tilraunir til að komast inn á staðinn komumst við loks að og fengum bás við barinn. Þar hittum við Berglindi og Björk sem voru hressar að hita upp fyrir klifur daginn eftir eins og við ætluðum að gera líka.

Sunnudeginum var ætlað í Hraundrangann, veðrið á Akureyri á sunnudagsmorgun gaf í skyn að hugsanlega væri hægt að fara þar upp og lögðum við af stað í Öxnadal. Þegar við vorum komnir í minni Öxnadals sáum við þokuna og skýin sem blöstu við bæði í Öxnadal og Hörgárdal í svona 200m hæð. Við snerum fljótt við, bæði vildum við helst hafa þokkalegt veður til að klifra hann og tala nú ekki um að finna hann hreinlega í þokunni.
Þessi í stað keyrðum við austur í Köldukinn og skoðuðum aðstæður þar. Við vorum gráti næst þegar við komum þangað, Stekkjastaur náði niður, fullt af ís í flestum leiðum.. en vegna mikils hita var ísinn orðinn morkinn og var að missa líminguna við klettana.
Eftir þetta keyrðum við aftur inná Akureyri, pökkuðum saman og keyrðum alla leið austur á Seyðisfjörð í þvílíku viðbjóðs-lægðar-snarvitlausu-vatnsveðri með tilheyrandi snjóbil, þó yfir frostmarki á Möðrudalsslóðum. Við komumst á leiðarenda eftir að hafa keyrt langa leið frekar hægt þar sem oft sást ekki milli stika og stundum var betra að hafa slökkt ljósin á bílnum en að hafa þau kveikt. Hraundrangi verður því að bíða betri tíma, aldrei að vita nema við gerum skyndiárás frá Rvk einhverja helgina.

Á Seyðisfirði var nú svipaða sögu að segja og úr Kinninni, þó var ísinn heldur heillegri hér og klifruðum við aðeins á mánudeginum þrátt fyrir svakalegt vatnsveður. Fundum eitt 4gr. kerti sem við þorðum alls ekki að leiða þar sem límingin var algjörlega farin og hljóðin við hvert axarhögg var eins og þegar Valur Hvanndal trommari lét vaða í stóru keilunna á laugardagskvöldinu. Semsagt þung bassahögg. Hentum því upp ofanvaði og skelltum okkur eina ferð hvor. Bara við þetta stutta skrepp blotnuðum við gjörsamlega í gegn og þegar við komumst aftur niður í hús var allt hengt upp strax til að einhver möguleiki væri á að komast í sæmilegann galla daginn eftir. Engar myndir voru teknar þennan dag þar sem við vorum ekki með neðansjávarmyndavél með okkur..

Á þriðjudag gekk blauta veðrið yfir, við sváfum aðeins lengur og keyrðum svo á Egilsstaði að sækja augun ofl. til að geta boltað leiðir. Um hádegisbilið gekk vatnsveðrið yfir og skipti í rólega snjókomu og eftir að hafa troðið í okkur saltkjöt á shellskálanum skelltum við okkur í flott gil sem blasir við þegar maður keyrir upp frá Seyðisfirði.
Gufufoss heitir fossinn sem dynur niður gilið. Við byrjuðum á að koma fyrir akkeri fyrir ofan leiðina sem var við hlið fossins, en þar er kerti sem nær bara niður hálfan klettinn sem er um 20m hár. Vorum búnir að kíkja á þetta daginn áður og fundum út að þetta gæti orðið mjög flott verkefni. Við ákváðum þó að bíða með að bolta leiðina og athuga hvort við ættum nú ekki eitthvað í hana áður en við spreðuðum boltum og tíma í kauða.

Leiðin tók duglega á. Mikið af lausu grjóti var þarna sem við hreinsuðum burt, aðallega með því að prufa að hanga í því en eftir daginn var Addi næstum kominn á litla syllu sem er við hliðiná botni kertisins. Við vorum allir búnir að spóla þarna eins og við gátum í svakalegri sturtu sem var úr kertinu, sérstaklega þegar við duttum þar sem leiðin er aðeins yfirhangandi. Það lá við að við þyrftum sundgleraugu til að geta klifrað þarna en eftir ófáar tilraunir viðurkenndum við okkur sigraða í bili. Góðir fætur eru í neðri part leiðarinnar, en svo þegar maður er að komast upp í seinni helming klettahlutans verða axafesturnar svakalega tæpar svo ekkert má hreyfast. Engar sprungur til að torka í eða vasar til að húkka, aðeins smáar flatar nibbur og hallandi brúnir fyrir lay-back.

Þó veðrið hafi ekki beint leikið við okkur í ferðinni látum við okkur nú ekki leiðast. En á morgun (miðvikudag) á að frysta duglega og vera þokkalegt veður og vonumst við til að geta tekið almennilegar lænur sem við höfum spottað út hér á svæðinu.

Á fimmtudag verða svo klifraraskipti þar sem Óðinn flýgur heim frá Egilsstöðum og Davíð kemur í hans stað. Þá munum við líka halda í suðurátt til að mæta á festivalið.

Myndir

Addi bíður eftir fragtinni á Akureyrarflugvelli.
Að græja sig fyrir uppför.
Óðinn klifrar í Munkanum.
Addi sprikklandi hress og getur ekki beðið eftir að fá að klifra aftur.
Ég kann nú ekki að lýsa þessu, en þetta er Addi að setja sig í stellingar.
Svona lítur Munkaþverárgil út austan við brú að vetri. Allskonar möguleikar í boði.
Gummi St. klifrar í Munkaþverárgili.
Gummi kominn úr klettinum í kertið.
Útsýnið á leið frá Akureyri til Seyðisfjarðar.
Addi á leið í ísinn í leið sem við kölluðum Gufuvélina.
Gufufosshamrar
Addi tekur á því undir kertinu.
Óðinn reynir að mixa sér leið í ísinn.
Aðeins víðara sjónarhorn. Þarna sést í Gufufoss sem var ansi blautur.
Þegar ekki klárast sett verkefni geta menn tekið því á ýmsa vegu. Þetta er t.d. ein leiðin.