Við fengum bestu daga ferðarinnar á Seyðisfirði eftir nokkra blautviðrisdaga þar sem við klifruðum nokkrar leiðir en náðum þó ekki að klára mixleiðina í Gufufossi sem við reyndum við á bleytutímanum fyrripart vikunnar. Það verkefni bíður bara betri tíma, en við kröfsuðum klettana þar duglega og rifum niður næstum allar axafestur sem voru til staðar í berginu.

En á Miðvikudeginum var komið fínasta veður og ákváðum við þá að fara í flotta íslínu efst í fjöllunum sem við höfðum ekkert séð í votviðrinu dagana á undan eftir að hafa skannað fjörðinn. Leiðin sem við fórum í nefndum við ElGrillo, WI4+ ~90m og er í Goðabotnum í Strandatind.

Þrár hreinar ísspannir, og í fyrsta millistansi vorum við í þessum fína íshelli í skjóli fyrir ísköldu rokinu.
Það hefur verið svona -15°c þegar við klifruðum þetta og fengum við allir að finna duglega fyrir naglakuli og íshruni þar sem ísinn var heldur stökkur sumsstaðar. Gummi fékk góða ísklumpa yfir sig í síðustu spönninni, einn í hjálminn og annan í öxlina en axlarólin á bakpokanum er grunuð um að hafa spillt fyrir góðum slysamöguleika þar.

Leiðin tók góðan tíma og aðkoman tók mun lengri tíma en við ætluðum þar sem við þurftum að synda gegnum nýjan púðursnjó undir leiðinni. Við komum alsælir, kaldir, hressir og sársvangir niður í bæ um 9 leitið búnir að síga og ganga niður í myrkri og sumir ansi reynslumeiri eftir daginn. Á móti okkur tók Árni pabbi Óðins með fullt mót af ofnbökuðum fisk. Þetta var auðvitað eins og að koma með kjöt í karrý til 3. heimsríkis enda vorum við ekkert búnir að éta nema morgunmat og nokkrar kexkökur á mann allan daginn. En eftir þessa ferð erum við allir búnir að "prufa" að detta í leiðslu.

Á Seyðisfirði voru fínustu ísaðstæður og á fimmtudeginum fóru fram klifraraútskipti þar sem Óðinn flaug heim og í hans stað kom Davíð Jón. Við héldum aftur á Seyðisfjörð og fengum með okkur góðan gest frá Egilsstöðum, en það var Eiríkur Dúi, gamall félagi úr bænum sem er fluttur austur. Við klifruðum nýja leið, Ókindina WI4 ~40m sem er í gili rétt ofanvið bæinn, beint fyrir ofan Björgunarsveitarhúsið. Leiðin er í tveim kertum og snjóbrekku á milli þannig að klifrið sjálft summast ekki nema í rétt um 30m.

Það voru svo hálfgerð mistök að fara suður eftir þennan dag þar sem ísaðstæður voru fínar þarna fyrir austan, þó veðrið ætti að vera aðeins skárra sunnanmegin. Við hefðum betur geta farið norður aftur og kíkt í Köldukinn sem var orðin frosin aftur eftir hlákuna helgina áður, ísinn hefur semsagt lifað hitann af og var kominn aftur með límingu og styrk sem hann þarf til klifurs.

Myndir

Hér uppi er leiðin ElGrillo.
Addi á leið upp.
Óklifruð leið til vinstri, ElGrillo til hægri.
Addi undir leiðinni. Byrjum að græjja okkur af stað.
Gummi tók fyrstu spönn sem var sú auðveldasta, hér eru Addi og Óðinn að elta upp. Stundum þarf líka að blása smá hita í fingurna.
Skemmtilega kalt og gott að fá blóð í fingurnar aftur í millistansi.
Addi að koma í millistansinn eftir 1. spönn. Þarna var fínn staður sem við kölluðum kexstofuna.
Óðinn hreinsar upp draslið eftir Gumma.
Skemmtilega kuldalegur á svipinn áður en haldið er upp í 2. spönn.
Óðinn lagður af stað í 2.
Ákvað þó að kíkja aðeins á okkur aftur, enda fékk hann ekki eins margar kexkökur og við í kexstofunni.
Retry, og fékk axirnar hans Gumma í verkið.
Addi fékk svo heiðurinn af síðustu spönninni, farið að rökkva og kominn í flott spindrift.
Ókindin fræga á Seyðisfirði.
Gummi leggur í Ókindina.
Dúi og Dabbi elta upp.
Dabbi að komast uppá brún og kallandi stríðsöskur og hvatningar niður.
Kominn uppá brún, og ég kominn með 14mm.
Dúi eltir upp, en lenti svo í að annar broddinn losnaði undan skónum eftir mikla styrjöld við mjólkursýru í einkavöðvunum. En hann stóð sig vel enda hans fyrsta klifur.
Seyðisfjörður og fjallið Bjólfur í baksýn.
Addi varð svo auðvitað að stökkva þetta upp bæði til að fá nafnið á rútuna og njóta þessarar stórskemmtilegu og þægilegu leiðar.
Svo mikill asi var í honum að komast af stað að þetta var eins og krakki á jólunum, enda gleymdi hann meiraaðsegja hjálminum sem er kannski svipað og að gleyma að lesa á merkimiðanna?
Víðara skot, hér sést út Seyðisfjörðinn.