Ferðafélag Íslands stóð fyrir ótrúlegri ferð á Miðfellstind í Skaftafelli mánaðarmótahelgina apríl-maí. Við hjá climbing.is, Gummi St, Addi og Óðinn fengum þann heiður að sjá um fararstjórn og umsjón með ferðinni.
Hópurinn hittist við bílastæðið við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli þar sem raðað var í bakpoka og skipt yfir í göngugallann. Þá var keyrt uppí Skaftafellsheiðina að bílastæðinu fyrir ofan Bölta (neðan við Svartafoss), duglega íþyngjandi bakpokarnir spenntir á bakið og lagt af stað yfir heiðina. Gengið var framhjá Sjónarskeri, niður í mynni Morsárdals og þar strax yfir brú á Morsá. Þaðan var stefnan tekin beint í Bæjarstaðaskóg sem er orðinn býsna gróinn, mikil sina var kringum trjágróður og vorum við fljót að koma okkur aftur á malarruðninginn þar sem skárra var að ganga á honum.

Við komum lokst inn að Kjósarmynni við vestra-Meingil þar sem við slógum upp tjaldbúðum eftir tæplega 3klst gang og var meðalgönguhraðinn á þessari leið um 5,3 km/klst sem telst býsna hratt miðað við göngulandslag og öll þyngslin á bakinu. Eftir að hafa fengið smá hressingu var stefnan tekin á að ræsa kl. 7, fá sér vel að borða og leggja svo af stað upp í fjöllin.

Morguninn eftir var fallegt veður, léttskýjað og passlega hlýtt. Eftir að hafa mokað í sig Real turmat og sambærilegt fóður voru allir tilbúnir í átök dagsins. Við lögðum af stað upp brekkuna og fljótlega voru teknar nokkrar pásur til að fækka fötum. Algjört logn var og þegar maður gengur upp svona bratta brekku hitnar manni svo svakalega að ef maður fer ekki úr yfirhöfnunum svitnar maður alveg eins og göltur eins og einhverjir komust að orði.

Fljótlega vorum við komin uppí Hnútudal þar sem fyrst fór að votta fyrir snjó. Fljótlega var nokkuð skörp snjólína með svo miklu harðfenni að við þurftum að fara strax í brodda þegar steinarnir voru hættir að standa uppúr. Fönnin í brekkunni var frekar hörð og stöðug svo við gengum beint upp brekkuna í átt að skarðinu að Þumli. Þegar uppá brún var komið þurfti að finna leið yfir stórt og bratt snjógil yfir á Vatnajökulssléttuna. Styðsta leiðin og augljósasta er að hliðra bratta snjófönn efst í gilinu en eftir stutta athugun var ljóst að sú leið var ekki fær þar sem hún var algjörlega pikkfrosin og þetta var ekki auglýst sem ísklifurferð.
Öruggari en bæði lengri og seinfarnari leið varð fyrir valinu að við settum niður gott "T"-akkeri við grjótharða snjóbrún gilsins og slökuðum öllum niður einum í einu. Þegar neðar í gilið var komið var það ekki nærri eins bratt og auðveldlega hægt að ganga uppá brúnina við Þumal. Þegar að Þumli var komið var tekin smá pása meðan við gerðum línurnar tilbúnar til göngu inná Vatnajökul.

Við gengum aðeins norður inná jökul, en mjög fljótlega beygðum við uppá hrygginn sem Miðfellstindur stendur á. Þangað var snörp og flott snjó-/ísbrekka sem leiddi inná hrygginn. Á leið austur eftir hryggnum fórum við að sjá tindinn sjálfan ansi tignarlegan. Frá þessu sjónarhorni lítur Miðfellstindur nánast alveg eins út og Hraundrangi í Öxnadal/Hörgárdal og hafði ég orð á því hvort einhver hafi efast um orð mín um að ég væri að fara með þau á svakalega flottann tind. Enginn mótmælti svo förinni var haldið áfram.

Seinni partur leiðarinnar á hryggnum vestan við tindinn liggur í dálitlum hliðarhalla þangað til undir tindinn er komið en þá sér maður veikleika hans sem er nokkuð aflíðandi brekka alla leið upp. Halda þarf þá dálítið austur fyrir hann þar sem brekkan sem hallar á Vatnajökulssléttuna verður árennileg. Ein opin jaðarsprunga var á leiðinni sem við fórum yfir og var það eina sprungan sem við urðum vör við. Þegar þangað var komið var stefnan svo tekin beint á toppinn. Þegar upp er komið eru tveir "pallar" tengdir saman með frekar mjóum hrygg sem þarf að fara varlega yfir en á eftir þeim eru tveir litlir hnúkar sem voru ekki klifnir í þetta skipti, enda bæði frekar litlir og með ennþá mjórri hrygg sem tengir þá við seinni pallinn.

Eftir dágott myndastopp á toppnum var haldið til baka og í brekkunni niður á Vatnajökulssléttuna varð það óhapp að nokkrir göngumenn duttu. Ekki var rennslið langt þar sem línumenn stoppuðu það fljótt en nóg til þess að meðlimur hópsins stakst illa í fremra lærið með ísöxinni sinni. Eftir skoðun á sárinu var ljóst að þyrfti að sækja þá slösuðu á staðinn, því fór ég í að kalla á hjálp meðan Addi og góðir menn úr hópnum pökkuðu inn og gengu frá sárinu. Þá hófst hópurinn við að klæða sig upp til að kólna ekki um of, færa viðkomandi niður á slétt svæði þar sem þyrla gæti lent og betra væri að athafna sig við biðina. Þegar fólk var búið að nærast og klæða sig hófumst við öll handa við að búa til smá snjóskýli, bæði til að halda hópnum heitum og til að geta beðið í skyldi biðin verða löng eða veður versna.

Allt var sett í gang, bæði hjá Björgunarsveitum og Landhelgisgæslunni og tók það aðeins 2klst fyrir þyrlu Landhelgisgæslunnar að koma á staðinn og átti þá sleðasveit frá Hornafirði aðeins um 20km eftir til okkar. En eftir góða stund saman í snjóskýlinu, skemmtilegt spjall og góðar kveðjur var þyrlan komin og sú slasaða fékk langþráða þyrluferð þó ekki væri kannski við réttar aðstæður.
Eftir þetta vorum við fljót að binda okkur aftur saman í línurnar og byrjuðum að ganga af stað í átt að Þumli. Stemmingin í hópnum var ótrúlega góð þrátt fyrir uppákomuna og héldum við þétt niður.

Skarðið við Þumal var nú orðið mun mýkra en þegar við fórum fyrst yfir það og var því minnsta mál að klifra upp snjóbrekkuna aftur á brúnina og þurfti ekki að setja upp sérstaka línu fyrir það heldur var nóg að vera í venjulegu göngulínunum og höggva góð fótspor.
Þetta tók stuttan tíma og vorum við komin niður í tjald aftur um kl. 21. Þá var haldinn stuttur fundur um atburði dagsins og lítill hluti hópsins fór til baka í bílanna ásamt Óðni sem þurfti að komast í bæinn meðan flestir gistu aðra nótt.

Daginn eftir (á þriðja degi) var svo gengið af stað til baka með viðkomu við Morsárlón sem er afar fallegt þrátt fyrir mjög dökkan lit. Brúin þar er eins og mig grunaði, enn í rústum eins og þegar ég fór þessa leið árið 2007 svo við óðum yfir ána. Sumir fóru í vaðskó en nokkrir settu bara á sig legghlífar og dugði það í flestum tilvikum. Eftir góða göngu vorum við svo komin aftur að bílunum og heldur betur sátt með ferðina, enda glæsileg og mikilfengleg leið, magnað útsýni og frábært veður.

frétt á fi.is

myndir frá wildboys

Myndir

Komnir innað mynni Morsárdals og brúin blasir við.
Apakettirnir (fararstjórarnir) komnir í Morsárdal.
Eilífur ræðir við fararstjóranna.
Gengið upp með vestra-Meingili.
Kjósin séð úr hlíðum Vestri-Hnútu við Meingil.
Og svo út Morsárdal, Skaftafellsheiði blasir við og líparítmölin úr kjósinni lítur út eins og jökulfljót.
Þessi fíni vatnsbrunnur var kærkominn heimsóknarstaður í brekkunni.
Hópurinn að komast uppí Hnútudal.
Páll Ásgeir og Gummi St.
Þurftum að slaka öllum niður þessa snjóbrekku til að komast uppá jökulsléttuna.
Á leið uppað Þumli úr snjógilinu.
Þumall sjálfur í öllu sínu veldi séður úr skarðinu.
Þumall.
Snjóbrekka uppá hrygginn.
Ég lofaði ykkur að fara með ykkur á flottann tind! Var nokkuð einhver sem efaðist um það? spurði Gummi þegar tindurinn blasti svona vel við.
Farið upp brekkuna sem leiðir á Miðfellstindinn sjálfan.
Lokabrekkan, Ragnarstindur í baksýn.
Komin dáldið ofar í brekkuna.
Kominn á toppinn, aðeins einn í einu með strekkta línu fer yfir lokahrygginn.
Þröng tenging tengir saman tinda Miðfellstinds, mjög spennandi var að fara yfir.
Útsýnið niður í Morsárdal.
Hópmyndin, hér eru allir ferðafélagarnir á toppnum.
Það er nú lágmark þegar maður er búinn að paufast uppá þetta að fá svona eins og eina mynd af sér.
Lagt af stað til baka.
Addi leiðir sína línu yfir.
Hér fengum við svo mynd af okkur saman með Öræfajökul sjálfan í baksýn.
Gengið niður í átt að Ragnarstindi.
Svona var útsýnið, Hrútfjallstindar, Hvannadalshnúkur, Dyrhamar omfl.
Óhapp varð á leiðinni þegar ísöxi stakkst í læri ferðalangs með okkur, þegar búið var að huga að sárum, kalla á hjálp og allir orðnir rólegir var hafist handa við að búa til snjóskýli ef veður skyldi versna.
Við færðum okkur niður á sléttu þar sem þyrlan gat lent um leið og búið var að hlúa að sárum og kalla á hjálp. Hér er svo hjálpin komin.
Þumall í öllu sínu veldi. Takið eftir göngufólkinu fyrir neðan hann.
Gengið niður í skarðið milli Þumals og Hnútudals.
Addi fer fyrstur upp, sólin búin að gera snjóinn mýkri svo hann gat hoggið mjög góð fótspor upp brekkuna.
Óðinn alveg að komast uppá brún.
Morsárlón og Morsárjökull. Skarðatindur er þarna efst til hægri.
Annað skot af Morsárjökli og -lóni.
Á leiðinni heim fengum við svo að keyra gegnum þetta öskuský á MÝrdalssandi.