„Stutt ferðasaga“

Gummi fór í Alpana í sumar með 3 öðrum ísölpurum og fórum við svokallaða „spaghetti traverse“ á Monte Rosa og kemur hér smá frásögn. Þessi traversa inniheldur nokkra 4000m+ háa tinda og tekur fimm daga. Gist er í fjallaskálum á leiðinni í góðu yfirlæti og stemmingu. Hópurinn samanstóð af Ágústi Kr. Steinarrssyni (aka. the Professional), Jóni Heiðari Rúnarssyni (aka. Old Steel), Magnúsi Smára Smárasyni (aka. Dopermann) ásamt mér (aka. Sleepwalker).

Við flugum frá Íslandi laugardaginn 17. júlí til Basel og tókum lest þaðan til Zermatt eftir góða viðkomu í óþægilega úrvalsmikilli útivistarverslun. Komum til Zermatt um kvöldið, og eftir erfiða máltíð komum við okkur niður til að hvílast undir átökin.

Á sunnudeginum eftir talsvert undirbúningsstreð fórum við svo loksins upp í fjöllin að Klein Matterhorn og gengum þaðan á Breithorn (4164m) sem er talinn einn auðveldasti 4000m tindur Alpanna. Það kom okkur ekki á óvart, en ekki var útsýnið amalegt þar sem Matterhornið og Mt. Blanc blöstu við í aðra áttina og svo Mt. Rosa kerfið sem við vorum að ganga eftir í hina. Við héldum því áfram í austur eftir hryggnum og niður í skála sem heitir Val d‘Ayas.

Við sváfum dáldið lengur en flestir í skálanum, bæði til að hvílast þar sem við komum frekar seint kvöldið áður og ég var líka hálf druslulegur fyrsta daginn. Fann mikið fyrir orkuleysi en sem betur fer ekkert verra en það.

Við héldum af stað uppúr 8, langt á eftir hinum sem voru búnir að búa til þessa fínu braut fyrir okkur og við héldum uppá Castor (4228m), auk þeirra kosta að vera ekki í troðningi uppá topp þrátt fyrir eitthvað fólk. Castor var mjög flottur, skemmtileg leið upp og nóg myndefni. Við Jón Heiðar vorum tveir saman á flestum tímum, en á nokkrum stöðum vorum við allir 4 saman í línu. Eftir skemmtilegt streð vorum við komnir uppá topp þar sem ein kona stóð eins og illa gerður hlutur að bíða eftir einhverjum félögum sínum sem fóru að kanna austurhrygginn.

Við tókum nokkrar myndir og eltum svo fljótt Ágúst og Magga sem voru komnir austur eftir hryggnum sem er alpalegur og nokkuð flottur. Fljótt lækkar maður sig niður í skál þar sem leiðin uppá Lyskamm west blasir við manni. Hinsvegar fékk Lyskamm að biða næsta dags og snerum við niður í næsta skála (Q-Sella hut) sem var talsvert neðar (um 3500m).

Það er góð og notaleg tilfinning að koma niður í skála í Ölpunum, fá sér heitt að drekka, leggjast í sólbað og bíða eftir matnum. Þetta kvöld leið mér bara vel þartil nóttin kom, en ég svaf nánast ekki neitt og fékk þar viðurnefnið Sleepwalker þar sem ég hélt ósofinn út í næsta dag sem var sá allra flottasti og erfiðasti í ferðinni. Við skálann var verið að prufa prótótýpur af útivistartjöldum og var merking í skálanum um „high mountain test area“ hjá nokkrum framleiðendum.

Svefnleysið háði mér nánast ekki neitt þar sem ég lét spenninginn algjörlega ráða ferðinni og hlustaði ekki á væl þreytunnar. Við rifum okkur snemma á fætur og eftir morgunmat með nóg af hunangi og Nutella súkkulaði héldum við í átt að skálinni milli Castor og Lyskamm west. Eftir góða stund vorum við komnir upp í skálina og horfðum angistaraugum á brekkuna upp Lyskamm. Hún virtist vera helvíti brött og var ég tilbúinn að fara að nota 3 punkta brölt upp ísbrekkuna. Svo reyndist hún ekki eins brött og okkur sýndist auk þess sem algjör eðal-spor höfðu verið höggin í brekkuna. Að troða í 4300m hæð er ekki óskaverkefni allra og vorum við því mjög fengir að geta notað spor. Þetta var ekki langt þó bratt væri og fljótlega stóðum við á brún Lyskamm west og biðum spenntir eftir framhaldinu, enda vissum við að við værum að fara útí eitthvað svaðalega flott þennan dag.

Þegar við vorum komnir yfir toppinn á Lyskamm west (4479m) kom hryggurinn eða traversan í ljós, þetta var smá helvítis hryggjarspíra sem tengdi tindanna saman, frá 40cm uppí 2m breiðan og rúmlega 1000m niður. Nú fékk myndavélin að njóta sín þegar maður stóð vel og horfði yfir þessi ósköp. Við hinkruðum aðeins eftir fólki sem var að koma yfir hrygginn þar sem ekki var fýsilegt að mætast mikið þarna, aðallega ef það er hægt að komast hjá því. Þetta sér maður ekki á Íslandi, Þverártindseggin sjálf kemst kannski næst þessu en hún er nú samt bara tvíbreiður þjóðvegur miðað við þetta. Kannski ef suðurhryggurinn sem tengist egginni væri úr graníti en ekki líparítmöl væri þetta sambærilegt. Eftir að hafa dást að þessu og grínast í smá stund var látið vaða. Ágúst og Maggi fóru á undan og við héldum á eftir.

Við vorum komnir dáldið út á hrygginn þegar við sáum fólk koma á móti, við fundum þá flottan stað til að setjast niður og éta smá nesti meðan þau komu framhjá, þennan stað kölluðum við flottustu kaffistofu í heimi, eða allavega það sem við höfum séð.

Við enda klettahryggjarins er örstutt sig sem er reyndar alveg hægt að niðurklifra, en því ekki að njóta augnabliksins með að nota þetta vafasama akkeri sem búið var að koma fyrir sem samanstóð af gömlum klifurlínum, sling, prússík og einni stálkarabínu? Eftir þetta tekur við mjór snjóhryggur sem leiðir svo að toppahrygg Liskamm east (4527m).

Á leið okkar yfir mjóa hrygginn var mikið djókað til að halda hausnum í lagi og var t.d. velt fyrir sér hvernig menn hefðu hægðir á svona hryggjum. Ein hugmyndin var að losa niður um sig, skella svo ísöxunum á hryggbrúnina og halla sér aftur, þannig væri jafnvel hægt að fara í keppni hversu mörghundruð metra frjálsu falli menn nái.

Liskamm east var magnaður, kross er þar uppi til minningar um þá sem hafa farist á fjallinu og útsýni er frábært til allra átta. Leiðin niður af tindinum austanmegin var hinsvegar mun brattari hryggur en við bjuggumst við, enda kannski ekki furða þar sem hann hefur sömu gráðu og Lions hryggurinn á Matterhorn. Niðurgangurinn gekk hinsvegar vel þar sem stranglega bannað var að detta og var gott að komast niður á þokkalega sléttan jökul við hryggjarsporðinn.

Eftir góða pásu þar sem við fengum okkur smá nesti og sæluvíman byrjaði að renna af okkur héldum við niður í næstsíðasta skálann, Gnifetti hut (3650m) sem var talsverð lækkun eftir tind dagsins.

Þessa nóttina svaf ég duglega, enda var ég orðinn ansi þreyttur eftir að hafa öðlast nafngiftina Sleepwalker, um kvöldið þegar við vorum að sóla okkur og bíða eftir matnum skalf ég úr kulda og drakk heitt te, Yndislegt líf.

Næsta dag vorum við enn vel sæludrukknir eftir Lyskamm traversuna og byrjuðum að ganga upp að Margherita hut, sem stendur uppá p. Gnifetti/Signalkuppe (4554m). Á leiðinni komum við við á Parrotspitze (4432m) sem var skemmtilegur útúrdúr. Þaðan fengum við mjög flotta sýn á Liskamm og prufuðum aðeins að klettabrölta sem tekur lúmskt mikið á í 4400m hæð! Tókum góða en dýrkeypta pásu við austurenda Parrotspitze þar sem sólin hafði brætt snjóinn svo mikið að við þurftum að vaða djúpan blautan snjó hátt uppað hnjám dáldin spöl til að komast aftur í slóðina úr Parrotspitze útúrdúrnum. Við komum þreyttir og sælir uppí Margherita sem er alveg magnaður kofi sem stendur ofaná Signalkuppe í 4554m hæð. Þarna uppi var aðeins öðruvísi að hvíla sig, maður fann alveg fyrir hæðinni, enda höfðum við sofið nánast allar nætur undir 3700m framað þessu. Allir gátum við þó sofið.

Morguninn eftir var kominn duglegur skafrenningur og mjög þungt yfir og skýjað. Við blésum fljótt af áformum um að taka Dufourspitze sem er hæsti tindurinn þarna, en til að komast á hann þyrftum við að klöngrast eftir enn einum klettahryggnum og okkur leist ekki á það í þessu veðri og aðstæðum þegar allt var orðið hvítt. Við héldum því beint niður Gorner glacier sem liggur niður á milli Liskamm og Dufourspitze eins og allir aðrir sem vöknuðu í skálanum. Þá hafði byrjað að skafa kvöldið áður og var bara komin púðurskel yfir snjóbráðina þannig að það þurfti að vaða uppað hnjám langleiðina niðurfyrir 3500m eða þartil við vorum komnir langt niður í brotinn jökulinn.

Þessi leið var fjandi löng, en við byrjuðum frekar snemma og gengum hratt niður. Gott var að komast niður í sólina við Monte Rosa hut og fá sér ískalda og góða kók! En við vorum að taka Diamox lyf til að sporna við hæðarveiki fyrstu 3 dagana uppi og aukaverkanir þess er t.d. að allir gosdrykkir verða gallsúrir, sem er með því hrikalegra sem ég get ýmindað mér, samhliða því að fá náladofa í hælana og kinnarnar.

Leiðin frá Monte Rosa hut að lestarstoppistöðinni(2500 - 3000m ) var einnig drjúg og tók vel í með allt draslið á bakinu. Þar var stokkið uppí næstu lest og haldið niður til Zermatt. Ein dama fékk þann heiður að fá okkur í sætisbásinn sinn og af svipnum á henni að dæma var hún ekki ánægð með lyktina af okkur strákunum eftir 5 daga háfjallaferð með tilheyrandi glæsibrag.

Þegar komið var niður til Zermatt var farið beint á næsta veitingastað og étin dýrindis pizza sem skolað var niður með köldum svalandi bjór. Þvínæst komum við dótinu uppá hótel og svo skelltum við okkur í spa sem var frábært að komast í nokkrar mismunandi gufur, sturtur, fótabað og slökunarherbergi eftir það sem á undan var gengið.

Margt lærðum við á þessari för. Ég notaði ekki öll fötin sem ég hafði meðferðis, ég var með rúm 3kg af ljósmyndabúnaði sem Jón var svo góður að létta stundum frá mér ofl. atriði. Það er númer eitt að vera léttur í svona ferðum til að geta farið hratt yfir. Við vorum ekki með svefnpoka heldur bara silki-liner því teppi eru í skálunum. Ekki heldur nniskó/sandala því það er til staðar í skálunum líka. Nesti fær maður í skálunum, vatn og allt sem til þarf.

Við vorum allir með snjóflóðaþrenningu, skóflu, stöng og ýli, ég var með eina ísexi (klifurexi), sumir voru með eina klifur og eina göngu. Þarna skiptir vigt öllu og því myndi ég næst taka með létta gönguexi, sleppa 3laga buxunum og kannski taka það til skoðunar að taka bara eina linsu... hehe

Myndir

Góð brekka og prufuðum við bæði brodda-rennsli og gore-tex-rennsli.
Parrotspitze í morgunsólinni.
Það leit út fyrir að vera skárra veður neðar.
Komnir á flugvöllinn í Basel.
Ágúst í lestinni til Zermatt.
Gummi St. í lestinni til Zermatt.
Komnir til Zermatt og á leið uppí fjöllin. Matterhorn í baksýn.
Maggi í Kláfnum upp að Klein Matterhorn.
Ágúst á Klein Matterhorn.
Gummi St. á leið á Breithorn.
Á leið á Breithorn.
Gummi á Breithorn, Mt. Rosa í baksýn.
Hópurinn á Breithorn(4164m). Maggi, Gummi, Ágúst og Jón Heiðar.
Maggi og Ágúst halda austur eftir Breithorn hryggnum.
Jón Heiðar kemur niður af topp Breithorn.
Hryggurinn liggur í átt að Mt. Rosa, Breithorn Twin næst.
Lent eftir gott sprungustökk.
Haldið niður af Breithorn til að komast í Ayas skálann þar sem við eyddum nóttinni.
Að lækka okkur í dalinn að Ayas hut.
Maggi tekur sprungustökkið.
Sprungurnar þræddar.
Algjör snilld þessi leið, nóg af sprungum, flottar snjóbrýr og för útum allt.
Kvöldútsýnið af verönd hut de Ayas.
Sama view morguninn eftir.
Allir í stuði eftir fyrstu nótt í hæð.
Jaðarsprungur í brekkum Castor(4228m) sem er næsti tindur.
Á leið á Castor, Ég og Jón Heiðar að hleypa fólki fram úr þar sem við fórum hægar yfir. Ljósmyndunin hægir virkilega á manni.
Jón Heiðar kominn hátt upp í leiðina á Castor.
Gummi svalar þorstanum á tindi Castor(4228m).
Umferðarteppa á Castor hryggnum.
Næsti tindur var Liskamm West, hér erum við svo að bíða eftir nokkrum að fara yfir Liskamm ridge áður en við héldum á austari tindinn.
Ágúst og Maggi að klöngrast útá hrygginn.
Svo var komið að okkur Jóni.
Jón Heiðar á stað sem við kölluðum flottustu kaffistofu Evrópu, en þarna fengum við okkur smá að éta meðan við mættum tveimur klifrurum. Þeirra lína fer þarna yfir Jón.
Jón klöngrast á eftir Gumma niður eftir hryggnum. Þetta er graníthrúga, þarna er hryggurinn ekki svo mjór.
Kunningi okkar í smá sigi þarna á leiðinni. Í bak sjást Ágúst og Maggi hinumegin við snjóhrygginn.
Þarna var vafasamt akkeri til að síga niður einhverja 2-4 metra á syllu fyrir neðan. Hægt var að niðurklifra en ekki hefði verið gaman að taka flugið þarna niður brekkuna.
Komnir yfir Liskamm ridge.
Ágúst að leggja í hann á topp Liskamm east.
Smá svarthvítt stuð. Hér eru Ágúst og Maggi í lokahrygg Liskamm east.
Hryggur með hengiflugi öðru megin.
Liskamm east (4527m)
Gummi á toppi Liskamm east. Takið eftir krossinum þarna hægra megin.
Jón Heiðar á toppnum, ekkert smá sáttur með þessa geggjuðu traversu.
Svo er bara að vinda sér í niðurganginn.
Þessi hryggur niður af Liskamm east er helvíti brattur og er gráðaður AD sem er svipað og Matterhorn. Hér er bannað að detta.
Kletturinn til vinstri er Dufourspitze (næsti hæsti tindur alpanna 4634m), næst Zumsteinspitze, Signalkuppe, Parrotspitze, Ludwigshöhe og Schwarzhorn.
Jón kemur niður af Liskamm east.
Geggjuð leið á geggjuðum degi!
Smá víðara sjónarhorn.
Önnur af Jóni, maður fríkar alveg út með vélina í svona svakalegu umhverfi.
Daginn eftir, þetta er útsýnið útum klósettgluggan áður en við héldum af stað.
Græjunartími, farið í brodda á veröndinni og í línu því svo er haldið beint útá jökul.
Smá þoka yfir okkur til að byrja með, svo birti til.
Þegar snjóbrýr falla finnur maður aðra leið.
Smá pása, á leið uppað Margherita skálanum.
Göngumenn á leið í Margherita á Mt. Rosa.
Snjófyllt sprunga.
Ákváðum að stökkva á Parrotspitze í leiðinni (4436m).
Maggi að tryggja meðan Gummi kemur uppá brún, Liskamm í baksýn.
Maggi og Gummi að ganga eftir Parrotspitze hryggnum sem kom okkur á óvart hve langur hann er.
Hér lækkuðum við okkur svo að þessum kletti þar sem við tókum góða pásu áður en við héldum uppað Margherita hut.
Gummi og Maggi að klettabrölta uppá einhverja grjóthrúgu, fyndið hversu móður maður verður við smá svona brölt í þessari hæð.
Maggi, Gummi, Jón Heiðar og Ágúst í pásu við Parrotspitze.
Hér eru göngumenn að ganga slóðann framhjá Parrotspitze til að komast beint að Gnifetti.
Gummi kominn í Margherita skálann, blóðgaður eftir nefhreinsun.
Ágúst og Maggi skoða framhaldið.
Gummi og Jón í Margherita hut.
Spænski leiðsögumaðurinn sem við kynntumst á leiðinni skoðar tindalýsingar með Magga.
Gummi kominn í koju, þreyttur eftir góðan dag.
Svalirnar við inngang Margherita hut. Hér eru þónokkrir metrar beint niður til Ítalíu.
Útsýnið niður. Takið eftir radíólinknum, þetta er meira að segja sama tegund og er oft notuð á Íslenska fjallasenda.
Fengum augnabliks útsýni á síðasta degi okkar, smá skafrenningur og svo birti til í smá stund þegar þessi mynd er tekin. Vegna veðursins héldum við beint niður í stað Dufourspitze.
Haldið niður Grenzgletscher að Monte Rosa hut og þaðan niður til Zermatt.
Jón Heiðar þrammar niður Grenzgletscher.
Komnir niður í sprungusvæði og veðrið að batna.
Mikil stemming í hópnum að fara eftir svona flottum jökli.
Mikil traffík var niður fjallið þennan dag eftir að veðrið versnaði.
Rákumst á þennan vinalega bjór rétt við Monte Rosa hut.
Monte Rosa hut, þessi skáli er nýr en sá gamli er aðeins neðar.
Að nálgast gamla skálann.
Gamli skálinn er öllu huggulegri en sá nýji sem er all svakalega tískulegur.
Þegar við komum niður í Zermatt var farið beint á næsta veitingastað þar sem við vorum ekki lengi að torga bæði pizzu og bjór.
Alpine style, gangandi á sokkunum í bænum. Eftir 5 daga í háfjallaferð verða bæði skór og sokkar ekki mjög aðlaðandi.