Flottur hópur útivistarfólks Valitor ætlaði að ganga Fimmvörðuháls laugardaginn 4. september en vegna óvæntrar heimsóknar fellibyls frá Ameríku sem var að setja vindstyrk á hálsinum um og yfir 30 metrana var ákveðið að halda ekki á hálsinn en leggja á Rjúpnafell í staðinn.

Við hittum hópinn á leið útúr bænum þar sem tvær rútur tóku mannskapinn og keyrðu með í Þórsmörk. Við fórum á eigin bíl þar sem við ætluðum að fara heim um kvöldið eftir ferðina þar sem Gummi var að fara til Grikklands strax á mánudaginn og var auðvitað ekki einusinni byrjaður að hugsa um að pakka.

Á leið í Mörkina ákvað ein rútan að setjast á bossann í einni kvíslinni en því var fljótt reddað þar sem traktorinn úr Langadal fann ekki svo mikið fyrir henni í eftirdragi.
Fljótlega var lagt af stað úr Langadal og gengið Tindfjallahringinn með útúrdúr á Rjúpnafell fyrir þá sem vildu.

Mikil aska var í Þórsmörkinni og fauk hún duglega upp í vindhviðunum þegar vindarnir létu til sín heyra.
Uppferðin á Rjúpnafell var mögnuð, skemmtilega brött brekka og margir tala um að þetta sé ekki fyrir lofthrædda. Mjög mikill vindbelgur var á toppnum sem kom ofanaf Mýrdalsjöklinum og fóru því ekki allir alveg uppá topp þar sem við þurftum að ganga dáldið á fjórum fótum.

Allt gekk vel og á leiðinni til baka kláruðum við svo Tindfjallahringinn og komum svöng og sæl niður í skála, fallega drullug í framan eftir öskufokið.
Um kvöldið var svo veisla en við strákarnir yfirgáfum partýið þar sem undirbúningur fyrir næstu ferð beið heima.

Viljum þakka samferðafólki okkar í ferðinni fyrir góða og ánægjulega ferð, það er greinilega margt hörku útivistarfólk að vinna þarna.

Myndir

Gamli góði Gígjökull, lónið sem var 80m djúpt er nú horfið og eftir stendur aurbrekka.
Rútan settist aðeins á bossann á leiðinni inní Mörk.
Gengið af stað inn Langadal að Slyppugili.
Komnir inn í Slyppugil og hér sést í Rjúpnafellið.
Rjúpnafell.
Öskufok í klettum á leiðinni.
Rjúpnafell.
Gengið inn með Tindfjallagili.
Hópurinn undir Tröllakirkju.
Afleggjarinn að Rjúpnafelli.
Öskufallegt umhverfi.
Gengið upp í hlíðar Rjúpnafells.
Á miðri leið up Rjúpnafell.
Leiðin upp er ansi skemmtileg. Það þarf að þræða nokkra hryggi.
3ju búðir Rjúpnafells.
Nokkrir ánægðir ferðalangar á toppnum í duglegu öskuroki.
Gengið til baka niður af fjallinu.
Tindfjallasvæðið séð frá Rjúpnafelli. Öskufallið umhverfi.
Skuggamynd.
Gengið á Stangarhálsi á leið að Stangarnefi.
Krossá.
Krossá rennur hér framhjá Valahnúk.
Annað sjónarhorn á Valahnúk.
Eftir góðan dag á fjöllum var svo grillað í Langadal.