Fórum fimm saman í Glymsgil á laugardag, Gummi, Arnar, Óðinn og með okkur voru Haraldur Örn og Davíð Jón. Haraldur er í undirbúningi fyrir næsta season hjá Fjallafélaginu, og þurfti því að komast út að viðra sig.
Við fórum beint inn í Glymsgil og vorum staðráðnir í því að klifra eitthvað þar. Auðvelt var að ganga inn allt gilið og gengum við alla leið inn að Glym sjálfum sem er í flottri hvelfingu innst í gilinu. Ís var í Glym og rennunni vinstra megin við hvelfinguna.

Eftir að hafa rölt inn í gilið og sáum að Hvalirnir voru nánast íslausir réðumst við bara í gamla góða Krókinn sem var í fínustu aðstæðum. Gummi fór fyrstur og tók svo hina upp. Fínt að taka svona auðveldari leið til að koma sér af stað fyrir veturinn. Allir eltu upp en Davíð lenti því miður í því að meiða sig í öxlinni í miðju klifri og þurfti því að hætta klifri þennan daginn.
Eftir þessa leið rúlluðum við í bæinn og komum beint við í Gufunesturninum sem hafði verið að safna ís alla vikuna. Þar tókum við eina ferð á mann áður en myrkrið skall á.

Á sunnudeginum fóru Addi, Gummi og Óðinn inní Kjós og klifruðu Áslák sem er prýðilegur ísfoss á svipuðum stað og Spori nema hinumegin í dalnum. Lagt er við sumarhús og gengið meðfram þeim og inn að leiðinni.
Addi fékk að leiða í þetta skiptið og lagði af stað í ca. 25metra leiðina eftir að hafa raðað rakkinu á sig. Gummi hljóp uppí brekkur hinumegin til að fá betra sjónarhorn f. myndir. Addi kláraði þessa leið og tók svo Gumma og Óðinn upp. Því miður skildu þeir báðir myndavélarnar eftir þegar þeir eltu upp svo engar myndir voru teknar þar. Efst uppi var risastór steinn sem var líka frosinn niður og náðum við að þræða línuna sjálfa undir hann og síga niður á honum. Ekkert mál var að taka línuna þar sem steinninn var ísaður og því sleipur.

Eftir Kjósina fórum við í átt til bæjarins og komum við í Búahömrum og klifruðum 55 gráður í duglega blautum aðstæðum. Óðinn fékk að taka þessa leið og var í góðri sturtu, sérstaklega fyrst þar sem litla kertið er. Þá var hettan sett upp og látið vaða í sullið. Sólin var að setjast þegar við komum upp í millistans og þá var rosalega flott birta. Við kláruðum stutta kertið uppá topp aðeins vinstra megin þar sem sólin hafði ekki náð að bræða ísinn. Við treystum alls ekki kertinu stóra þar sem það var orðið svo sólbarið. En þegar við vorum komnir upp var sólin sest og þá brast frostið á og allt ísaðist duglega. slingar og spottar stóðu beint útí loftið þegar maður tók á þeim, vetlingarnir límdust við axirnar þegar við gripum í þær og svo sigum við niður vel ísaða línu. Þegar Gummi gerði svo upp línurnar þurfti hann að "brjóta" þær í vafninganna því þær voru svo frosnar og það var ekki fyrren við vorum komnir niður í bíl sem lykkjurnar á línunni ofaná pokanum voru farnar að stefna aðeins niður á við, annars stóðu þær beinstífar útí loftið.

Frábær helgi, klifruðum 3 leiðir plús Gufunesturninn sem er fínn æfingastaður og er rekinn af ÍTR í samstarfi við ÍsAlp.

Myndir

Addi og Haraldur í Glymsgili.
Gummi að leggja af stað.
Gummi kominn ofarlega.
Séð frá hlið.
Smá artí með.
Haraldur að komast upp.
Annað skot.
Gummi tryggir.
Gummi.
Addi klifrar.
Hraðaklifur?
Á leið til baka úr Glymsgili.
Gufunesturninn.
Gummi í Gufunesturninum.
Óðinn í Turninum.
Óðinn á leið í Áslák.
Addi að klifra Áslák.
Addi.
Addi.
Öðruvísi sjónarhorn.
Óðinn stendur undir sturtunni í 55gráðum.
Addi að elta upp 55gr.
Addi að taka út skrúfu.
Víðara sjónarhorn.
Addi að klifra.
Addi kemur upp frá kertinu í 55gr.
Óðinn að græja sig í að klára.
Óðinn að klára.
Óðinn.
Addi að klára restina.
Addi.
Í lokastans á brún 55gr.