Við frestuðum árlegu Skessuhornsferðinni á öðrum í jólum vegna illviðris og þá var ekki seinna vænna en að rumpa þessu af á þrettándanum ef maður ætlar ekki að missa út hefðina. Því hringdi ég í alla sem mér datt í hug að vildu koma með og reyndi að draga af stað. Ekki var veðurspáin of góð, en hún var nú ekki neitt hræðileg um miðjan dagin áður.

Ég náði þó að fá með mér Gumma og Einar sem vinna báðir með mér á línunni, þeir höfðu aldrei farið á fjallið áður og voru auðvitað búnir að langa lengi svo ekki þurfti mikið til að draga þá með.
Um morguninn þegar við vorum að keyra uppeftir var mjög kalt í bænum og svoldið hvasst líka. Þegar við vorum svo að leggja af stað úr bílnum heyrðum við stormviðvörun frá Almannavörnum. Fyrst við vorum komnir þarna uppeftir ákváðum við að það væri of seint að snúa við og datt einnig í hug hvort við ættum ekki bara að hringja í vini okkar hjá almannavörnum og kasta á þá kveðju á toppnum.

Við gengum bara rólega upp heiðina í átt að Skessuhorninu, það var algjörlega snjólaust á leiðinni og meiraaðsegja var nánast snjólaust á horninu sjálfu en það var duglega hrímað, smá ís á milli steina sem maður gat pikkað í til að koma sér upp og var ég dauðfeginn að ég var ekki með nýju blöðin á ísöxunum þar sem þau fengu það óspart í klettinn!

En upp fórum við þó tíma tæki og vorum við komnir uppá topp um kl. 15 í þvílíkum kulda, hitamælirinn hjá Gumma sýndi -24°c og ég giska á að það hafi verið svona uþb. 15 m/s þarna þannig að það var ekki tekin nestispása. Þegar við vorum að taka myndir af hvor öðrum tókum við líka eftir því að við Einar vorum farnir að kala á kinnum og nefi svo það var tekið á það ráð að byrja strax að lækka sig niður og sleppa símtalinu til almannavarna í þetta skiptið.

Niðurgangurinn var seinfarinn þar sem lítill snjór var á svæðinu og svoldið af ís vegna hlákunnar ógurlegu um jólin og þurfti því að fara varlega og hægt yfir. Allt gekk þetta þó og tókum við langþráða kaffipásu þegar myrkrið var að skella á og settum einnig upp höfuðljós í leiðinni. Maturinn var ótrúlega góður eftir svelt dagsins jafnvel þó svo að ég hafi þurft að láta flatkökurnar og hangikjötið þiðna í munninum um stund áður en hægt var að éta það var það stórgott þó ég hafi ekki nennt að éta mikið þar sem þetta var svo tímafrekt að þíða allt svona í leiðinni!

Svo voru það þreyttir og svangir menn sem komu niður í bíl eftir 9 tíma ferðalag og þá voru 16 missed calls á mínum síma og eitthvað svipað hjá hinum þar sem margir voru farnir að óttast um okkur, reyndar heyrðum við alveg í símunum en vildum ekki lenda í kali á fingrunum líka við að reyna að svara símanum heldur vildum við bara komast sem fyrst niður.

Myndir

Í skarðinu áður en komið er uppá hrygginn.
Einar kemur uppá hrygginn.
Ein af fáum í lit, en þetta er Gummi I. að koma uppá hrygginn.
Að komast uppá hrygginn sjálfan
Farnir að hækka okkur og erum að þræða upp þægilegu skörðin í klettunum.
Gummi að koma uppá brún milli kletta.
Gummi kuldalegur.
Gummi að taka Gumma upp.
Gummarnir komnir í stans.
Gummi með örstutta útsýnið sem við fengum í baksýn.
Einar að brölta upp.
Einar.
Gummi I.
Einar að taka spottann frá löppunum á Gumma I.
Tilbúnir í næsta haft.
Gummi kemur upp.
Einar Valur, duglega hrímaður eftir geggjaða ferð. Sést aðeins í kal á kinnum og nefi.
Gummi I kominn upp og vel ánægður.
Gummi St. með dáldið áberandi kal á kinnum, tókum eftir því þarna og náði að koma í veg fyrir frekara kal.