Eftir tveggja vikna frostakafla vorum við orðnir nokkuð bjartsýnir á góða klifurhelgi en um miðja síðustu viku var hinsvegar ljóst að hlýindi kæmu inn yfir landið rétt fyrir helgi og fórum við að verða frekar stressaðir á að enn ein hlákan mundi skella af fullum þunga og rústa allri þeirri uppbyggingu sem orðið hafi í frostakaflanum. Hálf svartsýnir rýndum við yfir veðurspánna og voru einungis örfáir staðir sem sýndu vott af bláum tölum. En við betri athugun sáum við að Haukadalur myndi sennilega sleppa nokkuð vel. Ekki tók langan tíma að taka ákvörðun um áfangastað og brunað var uppí bústað í Borgarfirði á föstudagskvöldinu.

Daginn eftir brunuðum við í átt að Haukadalnum. Vetrarlegt var á vesturlandi og þegar við vorum að fara niður Bröttubrekku stakk Addi upp á því að við ættum nú bara að spara okkur aksturinn og smella okkur í flotta fossaröð sem hann hafi séð fyrr um veturinn á ferð sinni um svæðið. Þessa fossaröð var fyrst farin nokkurum vikum áður og létu menn vel af en leiðin fékk nafið Single malt og appelsín - WI4-5 leiðin til vinstri og Single malt on the rocks WI4 250m miðjuleiðin.

Tóku menn vel í það og skömmu síðar vorum við búnir að leggja bílnum fyrir neðan leiðina sem leit út eins og stærri gerð af Ýring. Aðkoman er alveg ótrúlega stíf, alveg hreint 5 mínútna gangur á sléttlendi uppað fyrsta fossinum.
Fyrstu höftin voru mjög létt í drauma ís og var mikið af þessu sólóað þó var smellt í 1 eða jafnvel 2 skrúfur á nokkrum stöðum. Um miðbigg fossaraðarinnar er að finna nokkurskonar krossgötur þar sem fossaröðin skiptist í 3 leiðir. Miðjufossinn varð fyrir valinu enda eitthvað svo girnilegur og Gummi heimtaði strax að fá að taka hann.
Eftir það tók við létt 3. gráðu klifur upp á topp, en allt í allt er þetta frábær leið í alla staði. Þegar upp var komið sáum við lokahaftið í vinstri leiðinni sem leit út fyrir að vera mun meira krefjandi en það verður eflaust klórað í það við tækifæri. Svo var það bara að koma sér niður, úti bíl og beint í bæin að kíkja á Íslendinga taka Brasilíu í bakaríið.
Næsta morgun var ansi erfit að vakna þar sem dagurinn á undan var langur og hlýindi á suðvesturlandinu voru ekki beint uppörvandi fyrir vonir okkar um góðan klifurdag. Því var ekki var farið á fætur fyrr en seint og síðar meir. Í morgunsárið tókum við eftir að Dóri og vinir höfu sett inn grein og myndir á ísalp síðuna af ferð þeirra upp Óríon deginum áður þar sem hann hafði verið í snilldar aðstæðum. Það kveikti all verulega í mönnum að kannski gæti eitthvað orðið úr deginum og í allri bjartsýni okkar um að ná þessu fyrir myrkur var brunað upp í Brynjudal í flýti.

Þegar þangað var komið var farið að hlýna aðeins og tímin var allverulega að hlaupa frá okkur. Úr fjarska leit Óríon hinsvegar vel út "ANsk... hefðum átt að vakna fyrr!" kom uppí huga á mönnum en ekki tók að velta sér uppúr því og bara drífa sig af stað. Aðkomuhöftin voru góð upphitun í frábærum blautum og þéttum ís.
Blasti svo kvikindið við í allri sinni dýrð þegar upp var komið. "Shit... þetta er stórt" og hjartað tók smá dífu. Á þessum tímapunkt var vel farið að rökkvað og vissum við að það var ekki mikill tími til stefnu en við hundsuðum það og drifum okkur upp fyrstu spönnina.

Óðinn tók að sér leiðsluna sem var mjög þægileg en brött og leisti það vel. Gummi og Addi fylgdu svo hart á eftir en þegar upp var komið var orðið svartamyrkur og komin slydda. Seinni spönnin er alveg lóðrétt 20-30m slétt kerti og tók skynsemin þá yfir metnaðin. Því ekki er beint hægt að segja að það sé skynsamlegt að klifra svona erfiða spönn í myrkri og ofankomu en það var ekki auðveld ákvörðun að snúa við þegar svona lítið var eftir.
Bitrir yfir að hafa sofið út og ekki dottið í hug fyrr að Óríon væri í aðstæðum sigum við niður og drifum okkur útí bíl þó sáttir eftir fína nýtingu á degi sem við bjuggumst ekki við að gæti farið í svona skemmtilegt klifur.
Óríon bíður því aðeins lengur uppferðar en vonandi þarf hann ekki að bíða of lengi þar sem fyrsta tækifæri verður nýtt til að klára þennan gríðarlega flotta foss.

Myndir

Single malt on the rocks í miðjunni.
Gummi nennir ekki að bíða eftir Adda.
Óðinn neðarlega í leiðinni.
Addi klifrar.
Addi.
Óðinn hreinsar upp skrúfu.
Gummi í leiðslu.
Önnur mynd úr sama kerti.
Addi tryggir Óðinn í lokakaflanum.
Annað sjónarhorn.
Gummi kemur uppá brún.
Í lok dags er einum köldum deilt milli félaga.
Óðinn á leið upp Flugugil að Óríon.
Addi byrjar á aðkomuhaftinu að Óríon.
Gummi tók næsta part.
Óðinn rakkar sig upp fyrir Óríon.
Óðinn kominn af stað.
Næstum kominn uppí hellinn (testofuna) sem er í ca. 50 metrum.
Addi sígur niður úr Óríon í myrkri, mynd tekin á tíma.
Svo var haldið niður.