Eftir að hafa farið nokkrar ferðir um Snæfellsnes og séð þessa tignarlegu kletta gnæfa uppúr fjöruborðinu við Malarrifsvita hugsaði maður oft með sér hvort ekki sé hægt að klifra þá. Aldrei náði sú hugsun langt þar sem oft var maður í vinnuferðum og hafði ekki tíma til að fara og skoða þá nánar og einnig hugsandi að þetta sé íslenskt eldfjallaberg að þá hafði maður ekki mikla trú á því.

Svo kom að því að við sáum það í dagskrá Ríkissjónvarpsins að menn voru þarna við æfingar Björgunarskólans og þá var það staðfest að þetta er klifranlegt og var strax sett á verkefnalistann með góðum forgangi. Þessa helgina áttum við að vera fararstjórar hjá FÍ á Miðfellstind en höfðum frestað því vegna veðurs. Á laugardeginum var bara snjókoma í Reykjavík og fórum við út að hlaupa með þrekæfingum í stað fjallaferðar. Sunnudagskvöldið sáum við hinsvegar að veðurgat myndi vera yst á Snæfellsnesi á sunnudag svo það var nelgt niður að bruna þangað og klifra þessa blessuðu dranga.


Aðkoman
Við lögðum þrír af stað í bullandi kulda, snjó og votviðri frá Reykjavík (vetraraðstæður) og héldum gegnum Borgarnes inná Mýrar þar sem var bara grenjandi rigning (haustveður). Svo þegar við vorum komnir vestur í Staðarsveit á Snæfellsnesi opnaðist veðurkerfið algjörlega og þegar við komum útá Malarrif var algjört logn, heiðskýrt og glampandi sól. Við fórum bara út á stuttermabolnum og sóluðum okkur við að taka saman búnaðinn og héldum svo í átt að dröngunum.

Aðkoman er ekki nema ca. 10-20 mínútna gangur eftir stíg gegnum hraunið og er gengið austur fyrir tindinn þar sem prílið byrjar. Fylgt er upp greinilegri sprungu nánast alla leiðina upp. Bergið er rammsíslenskt, oft laflaust með góðum höldum inná milli ásamt nægu af fuglaskít og fýlaælu til að toppa alltsaman. Óðinn hélt rakleiðis niður í fjöru til að komast í myndafæri meðan Addi og Gummi byrjuðu á leiðinni. Gummi bauðst til að ríða á vaðið og taka fyrstu spönnina og fór uppí leiðina og byrjaði nú á að fara vitlausa leið, en breytti fljótt fá þeirri vitleysu og hélt upp sprunguna réttu. Klifrið tók dáldinn tíma enda er maður frekar rólegur þegar maður treystir berginu illa. Settir voru inn vinir og var deilt um hvort þeir myndu halda falli eða ekki. Allavega var niðurstaðan sú að þegar maður kemur honum fyrir og togar svoldið í hann og bæði finnur og heyrir að hann spennist út og ýtir berginu eða sargar bergið í sundur eins og mold að þá er þetta hálf vafasamt alltsaman. Ákvörðun var fljótt tekin við þessa prófun að hætta að hugsa um þetta bull og hugsa frekar um að detta bara ekkert í þetta. Sérstaklega eftir að hafa séð þá skrítnu sjón að þarna virtust menn bara berja fleygunum beint í bergið, alveg óþarfi að leita að einhverjum sprungum og þess háttar þegar hægt er að reka þetta eins og nagla í spýtu.

Spönnin var ekki erfið og innihélt fullt af góðum gripum, drullusleipum klettum og fuglaskít en þegar komið var uppá brún blasti við þetta flotta boltaða akkeri í stein með tveimur augum. Stallurinn eftir fyrstu spönn var risastór og greinilega margir búnir að koma þarna, dáldið af rusli, prússík og slingum hér og þar. Addi og Óðinn fylgdu á eftir og við blasti breið sprunga áfram upp í klettinn. Addi vildi frekar að Óðinn tæki þetta sem hann og gerði.

Þessi önnur spönn var ágæt, byrjaði í sprungu þar sem maður fór inní og spennti fæturnar í sitthvorn klettinn. Ekki var mikið að tryggja í en í ca. 4m hæð var gamall ryðgaður risanagli sem Óðin beitti óbragði með lengjanlegum tvist og hélt áfram. Eftir þessa sprungu vissi Óðinn ekkert hvað ætti að gera næst og hélt hann áfram upp til vinstri í stað þess að fara á milli steina áfram inní sprunguna, en eftir smá brölt og blótsyrði gerði hann sér grein fyrir því að hann væri kominn í einhverja vitleysu og hliðraði sig eftir grænum sleipum klettunum yfir á réttari stað og tók Gumma og Adda upp.


Sjávarklettaklifur.
Þarna vorum við í einhverskonar hvelfingu og höfðum ekki hugmynd um hvað við ættum að gera næst, spurningin var að fara áfram inn sprunguna á milli tinda og reyna að komast þar upp, fara til vinstri upp brattann stromp eða til hægri sem virtist ekki svo erfitt en sáum ekki alla leiðina. Allavega að þá var komið að Adda að leiða og eftir miklar vangaveltur og umræður ákvað hann að velja strompinn.
Smá spól var þangað upp þar sem við vorum komnir aðeins uppí sprunguna en Óðinn sveiflaði línunni yfir einn stein sem myndaði svona "hliðartoprope" á meðan Addi kom sér í reykháfinn. Smá stund tók það að átta sig á þessu öllusaman, að koma fyrir treystandi tryggingum, safna í sig kjarki og hlusta á hvatningarorð frá þeim sem niðri voru áður en helvítið var klárað. Þetta var greinilega rétta leiðin og var þetta lykilkafli leiðarinnar þar sem þetta var dáldið bratt á stuttum kafla og ekkert alltof góð grip efst þar sem mest var af fuglaskít og neðarlega þar sem græna sleipa sjávarslykjan var hvað mest yfir berginu.

Addi kláraði þetta með stæl og tók Gumma og Óðinn upp. Toppurinn var ótrúlega stór og rúmgóður, hálfgerður söðull á milli tveggja tinda. Eystri tindurinn var aðeins hærri og þurfti að brölta aðeins uppá hann og tryggðum við þann hluta líka, enda uþb. 80m af frjálsu falli niður í sjó ef útí það er farið. Útsýnið af toppnum var magnað, gaman að sjá svona hrikalega langt beint niður í sjóinn eftir að hafa klifrað svona leið. Lofthræðslan var ekki langt undan hjá einum okkar sem virtist vel meðvitaður um aðstæður sínar en það kom ekki að sök, við fórum allir uppá blátoppinn og nutum vel.

Sigið var niður í tveimur spönnum og þurftum við virkilega að taka á því til að ná línunum niður aftur þar sem ropedrag var töluvert, sérstaklega á efri hlutanum, bæði frá slingnum sem við sigum niður á og einnig af klettunum sjálfum.
Þegar niður var komið tókum við nokkrar myndir og fengum okkur að drekka og éta. Komum einnig við austan við Lóndrangana til að ná myndum af þeim í kvöldsólinni. Verðskuldaður kaldur drykkur var keyptur á hótel Búðum og síðan var haldið í bæinn. Á leiðinni til baka keyrðum við aftur í gegnum árstíðirnar allar og komum við í bæinn um kl. 23.30 og það eina sem við gátum fengið okkur að éta var Subway á Ártúnshöfða sem var algjörlega hakkað í sig þar sem við vorum bara búnir að éta morgunmat og eitt rúnstykki á mann yfir daginn.

Myndir

Að græja dótið við Malarrifsvita.
Þetta er ekki löng aðkoma.
Komnir að dranganum.
Þarna er Gummi að græja sig af stað.
Þetta er andskoti flottur staður.
Gummi lagður í hann og Addi tryggir.
Formfagur klettur í fallegu umhverfi.
Addi að elta Gumma upp.
Á stallinum eftir fyrstu.
Óðinn kominn uppúr sprungunni og er að villast of langt til vinstri.
Útsýnið niður af öðrum stansi.
Addi að koma upp í annan stans.
Addi í síðustu metrunum.
Fínar festur þarna, en svo tekur smá fuglaskíts-slabb við á brúninni.
Óðinn að koma upp síðusta spölinn.
Gummi á tindinum.
Óðinn á austari toppnum.
Addi á tindinum.
Sigið niður.
Á pallinum fyrir ofan fyrstu spönn og jökullinn búinn að hreinsa sig.
Gummi að leggja af stað í lokasigið.
Pakkað saman eftir góðan klifurdag.
Myndir þú treysta þessum? Ég veit ekki betur en að fleygar eigi að fara í sprungur en ekki beint í bergið.
Hann lítur út eins og sitjandi hundur vestan frá.
Addi og Óðinn virða fyrir sér afrakstur dagsins.
Camadíski klikkhausinn.
Addi með Snæfellsjökul í bak.
Lóndrangar séðir austanfrá.
Addi.
Óðinn.
Gummi.
Svona var svo veðrið í Reykjavík allan daginn.