Þetta vorið stóð til að fara tvær ferðir á Miðfellstind sem virðist vera orðið nýjasta æðið í vorferðum íslensks fjallafólks. Svo illa vildi til að veður var hundfúlt með lægðagangi og vitleysu tvær fyrri helgar sem kostaði fyrri hópinn ferðina þar sem mánaðarmótahelgin var plönuð með þá á milli til vara. Þetta vor hefur verið dáldið erfitt og ólíkt maí í fyrra sem var óvenju gott ár í Öræfunum.

Í þetta skiptið tókum við tvöfaldan hóp, samtals 29manns með okkur fjórum fararstjórum þar sem við hlupum í skarðið fyrir annan hóp sem lenti í því að fararstjórinn forfallaðist. Til að bregðast við þessu fórum við þrír ásamt Jóni Helga sem hefur þvælst með okkur víða.

Eins og frásögnin segir að þá er þetta nýja tískan í fjallaferðum að skella sér á þennan flotta tind. Sama dag fór 27 manna hópur frá Fjallaleiðsögumönnum á tindin og voru ca. 2 tímum á eftir okkur og fóru því rúmlega 50 manns á toppinn þennan dag sem hlýtur að vera met!

Gangan hjá okkur hófst vestast í Skaftafelli þar sem vegurinn er lokaður inn að þjóðgarðinum kl. 02.15. Þar er kominn fínn stígur og nýleg brú yfir Morsá eftir að Skeiðará hætti að renna í þennan farveg fyrir nokkru. Þaðan er haldið með slóða inn í Bæjarstaðaskóg sem var mjög blautur í þetta skiptið, enda mikill snjór að bráðna í fjöllunum. Leiðin liggur rúma 10km inn Morsárdal innað vestra-Meingili þar sem uppgangan hefst og voum við tæpa þrjá tíma þangað og var tekin nestispása fyrir átökin við brekkuna.

Eftir góða brekku upp meðfram Meingili komum við í Hnútudalinn og komumst þar strax í snjó, mun fyrr en árið á undan og var færi bara mjög gott, enda ennþá nótt og sólin ekki farin að bræða snjóinn mikið. Skarðið við Þumal var einnig í mjög þægilegum aðstæðum, nú var hægt að ganga eftir hálfgerðum svölum uppvið klettana og þar tók við smá hliðrun yfir í brekkuna hinumegin og settum við upp línu þar á milli til öryggis ásamt því að búa til spor. Þetta gekk bara vel fyrir sig og vorum við snögg að koma okkur í línur þegar yfir var komið þar sem við stóðum í smá roki í skarðinu og héldum inná jökulsléttuna, en skárum þó aðeins í hliðarhallann til að halda hæðinni.

Undir tindinum stoppuðum við aðeins og komum línunum saman og þar skildu nokkrir pokana eftir til að létta á sér síðasta spölinn. Nokkru seinna komum við uppá topp í mögnuðu útsýni yfir sunnanverðan Vatnajökul. Aðeins í norðri voru lágský svo við sáum ekki Snæfell og Kverkfjöll en Grímsfjall sást undir brún skýjabakkans. Öræfajökull blasti við í austri og sáum við alla Hrútfjallstindana, Hnúkinn, Dyrhamar og helstu staði Öræfajökuls.

Aðstæður á tindinum sjálfum voru með besta móti, tengihryggurinn var mjög þægilegur í þetta skiptið og veðrið lék við okkur. Eftir gott klukkutíma stopp á toppnum héldum við rólega niður. Hugmynd kom upp að stökkva á Ragnarstind en það var þó ekkert úr því.
Á bakaleiðinni þegar við vorum að koma að Þumli mættum við hinum hópnum sem var að koma upp. Þau voru eldhress og spjölluðu aðeins við okkur. Þvínæst héldum við í skarðið sem var orðið enn betur troðið eftir helmingi fleiri yfirferðir og gengum við beint yfir það og fórum úr línum og broddum áður en haldið var niður í Hnútudal.

Þegar við héldum niður í Hnútudalinn aftur var sólbráðin orðin þvílík að okkur leið eins og þegar við vorum ungir og fengum að fara í boltaland í ikea forðum daga. Þá var maður að vaða gegnum boltana vel uppfyrir hné og var sama saga hér, nema í snjó.
Vel gekk að komast niður og þegar komið var niður í Kjós var tekin góð matarpása þar sem við hituðum okkur mat og hvíldumst góða stund í síðdegissólbaði þar sem sumir brunnu aðeins meira en aðrir.

Nokkrir urðu eftir í Kjós og gistu þar um kvöldið, sem og kvöldið áður en hinir gengu til baka út Morsárdal og í Skaftafell og tók ferðin í heild um 18 klst.
Addi, Gummi og Óðinn héldu að það yrði hægt að treysta á hótel Skaftafell með mat fyrir fjallafólk þar sem þar er opið allan sólarhringinn, en þegar við komum þar kl. 22.40 var okkur tjáð að aðeins er afgreiddur matur fyrir hótelgesti eftir kl. 22.30
Þarna hefðum við orðið ansi illir en það bjargaðist vel þar sem við áttum mjög góða vini á tjaldstæðinu sem grilluðu fyrir okkur afgangana sína þó þreytt væru eftir átök dagsins.
Greinilega er ekki hægt að treysta algjörlega á hótel Skaftafell með mat eftir ferðir, og sjoppan/bensínstöðin lokar kl. 22 sem þýðir það að maður verður að hafa með sér eigin mat ef maður skyldi koma niður eftir venjulegan matmálstíma.

Myndir

Að græja sig upp áður en við lögðum okkur. Pokarnir voru tilbúnir þegar við vöknuðum.
Brúin yfir Morsá
Í Bæjarstaðaskógi var blautt.
Vaðið yfir einn álinn.
Þurrkstopp eftir vaðið.
Berti klár að leggja aftur af stað.
Haldið inn dalinn.
Komin uppí Hnútudal.
Gengið inn Hnútudal.
Hvíldum okkur aðeins á þessum steini áður en ráðist var á brekkuna.
Genguð upp brekkuna í Hnútudal.
Þarna fórum við upp og krossuðum þar.
Við skarðið.
Horft til baka yfir Hnútudal.
Þarna var haldið yfir að Þumli.
Farið yfir hliðrunina.
Haldið af stað yfir.
Að koma frá Þumli.
Gengið í suðurhlíðum Vatnajökulsléttunar.
Ragnarstindur og Skarðatindur / Öræfajökull í bak.
Lokabrekkan.
Allir að verða komnir upp.
Skarðið var í kjöraðstæðum þennan dag.
Óðinn kemur yfir skarðið.
Menn voru ánægðir á þessari stundu, enda allar aðstæður frábærar.
Smá panorama af toppnum.
Hópurinn á Miðfellstind.
Það var þemalitur í ferðinni.
Flott ský yfir Öræfajökli.
Skarðatindar í forgrunni, Hrútfjallstindar, Hvannadalshnúkur og Dyrhamar í bak.
Að komast aftur að Þumli.
Þumall í prófíl.
Komin aftur yfir í Hnútudal.
Í skarðinu yfir í Hnútudal.
Hnútudalur til vinstri og Morsárdalur og Skaftafellsheiði í bak.
Að komast niður í Kjós. Ath, þetta er samt ekki U-beygja.
Það verður seint farið slysalaust á Miðfellstind.
Á leið heim.
Smá boulder í Skaftafelli.
Aukamynd, hér má sjá hrun úr Lómagnúp.