Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlega með vetrarklifurferð upp norðurhlíð Heiðarhorns í Skarðsheiði. Þar voru á ferð Addi og Gummi en með þeim í för slóst Ingvar sem hafði einnig mikin áhuga á að klifra leiðina, sérstaklega eftir að við höfðum heyrt af för nokkrum dögum áður þar sem félagar úr Ísalp höfðu farið Jónsgil í Heiðarhorni og sögðu aðstæður góðar.

Okkur til mikillar hamingju gátum við keyrt línuveginn alla leið undir Heiðarhorn. Það voru nokkrir snjóskaflar á leiðinni, en þeir voru svo harðir að ekkert mál var að keyra yfir þá á venjulegum jeppa. Eftir að hafa tekið okkur til, tekið gott timelapse og velt fyrir okkur hvaða leið við ættum að fara ákváðum við að skella okkur í rennuna vinstra megin við Jónsgil eins og merkt er í leiðarvísi um Skarðsheiði í gömlu ársriti Ísalp. Við höfum ekki hugmynd um hvort leiðin hafi verið farin áður en það verður bara að koma í ljós.

Í gilinu sem við fórum upp voru þrír ísfossar neðarlega en frekar auðveldir, WI-3+ erfiðast sá hæsti og var kannski 15m hár en á milli þeirra var bratt og frosið snjóhjarn sem auðvelt var að þruma upp og var mikið gert grín af því að við værum eins og Ueli Steck að fara upp final icefield á Eiger north face þegar við vorum að djöflast í snjóbrekkunum sveittir og þreyttir. Þegar við vorum búnir með þessi megin íshöft klifruðum við þetta dáldið á hlaupandi tryggingum og á sumum köflum voru tveir að leiða í einu.
Á góðri syllu ca. 100m undir toppnum tókum við svo pásu og fengum okkur nesti. Þar blasti við allur Borgarfjörðurinn, Snæfellsjökull í vestri og Eiríksjökull í austri. Þarna væri snilld að prufa að bívakka yfir nótt og sjá hvort maður myndi nokkuð velta sér of mikið (frammaf) í svefni. Allavega væri útsýnið ekki slæmt úr gististaðnum. Eftir gott útsýnis- og nestisstopp héldum við svo í að klára leiðina. Addi tók þar hlauparaspönn uppí ísbunka sem var þar og tók Gumma og Ingvar upp. Þaðan kláruðu Gummi og Ingvar uppá brún sem var dáldið skemmtileg hengja. Engin ís var í brúninni utanverðri svo eina tryggingin sem við náðum þar var lélegur snjóhæll við neðsta hluta hengjunnar.

Á toppnum vorum við ekki einir þar sem við hittum göngufólk sem átti ekki beint von á okkur þarna upp. Alltaf gaman að hitta gott fólk á fjöllum.
Við trítluðum uppá topp sem var ca. 100m frá þeim stað þar sem við komum upp, tókum nokkrar myndir, brutum ísinn af sólarsellu endurvarpans og héldum svo niður vestan megin við tindinn. Á leið niður fundum við þetta fína snjógil og mátti sjá för í snjónum sem trúlegast voru eftir félagana helgina áður.

Ótrúlega flott leið og ekki svo erfið fyrir klifrara. Skemmtilega löng, 5-600m hækkun og hægt að fara nokkrar leiðir. Einnig var hægt að hliðra til vinstri úr leiðinni sem við fórum útá öxl sem leiddi uppá topp eftir minni halla, en þá hefði verið nokkuð stöðug snjóbrekka alla leið upp og ekki mikið að tryggja í þegar fá snjóakkeri eru með.

Við vorum með 8 ísskrúfur, snjóhæl, snjóakkeri (ekkert notað), hnetusett (ekkert notað), 2 vini (notuðum aðeins einn til öryggis á nestisbrúninni), 2x 60x halfrope, 3kg af ljósmyndabúnaði sem var alltof lítið notaður. Helsta klúðrið var að það var svo heitt í veðri að vatnið var klárað, en það kom þó ekki að sök og dugði rétt svo.

Myndir

Að græja sig af stað.
Lagðir af stað og gaman að sjá þetta líparítinnskot í fjallinu hinumegin.
Svona leit fésið út.
Ingvar og Addi fyrir neðan.
Addi í snjóbrekku á milli ísþila.
Upp þokast hann.
Ingvar og Addi.
Ingvar kominn í næsta stans.
Addi heldur áfram.
Ingvar setur inn skrúfu í ís.
Addi eltir.
Ingvar og Gummi í stansinum.
Ingvar kominn á brún Heiðarhorns sáttur með leiðina.
Addi í síðasta stansinum að leggja af stað upp restina.
Addi kemur uppá brún með Skessuhorn í baksýn.
Gummi
Gummi virðir leiðina fyrir sér.
Endurvarpinn á toppnum.
Svona leit svo hornið út þegar við komum niður.
Frá hlið, þarna sést aðeins í aðrar leiðir sem snúa dáldið í austur.