Daginn eftir Heiðarhornið var einnig brjáluð blíða á landinu og þar sem föstudagurinn var orðin bókaður í frí var lítið annað að gera en að fara í næstu ferð.

Að þessu sinni fóru Jón Helgi og Gummi í fínustu ferð í Tindfjöll. Veðrið var með allra besta móti og gátum við keyrt á harðfenni ansi langt upp eða í skaðrið á milli Saxa og Haka sem var mjög þægilegt.
Við byrjuðum á að skella okkur uppá Saxa(~1300m) sem var bara þægileg snjóbrekka og við tekur hryggur niður í Búraskarð. Þaðan var haldið á Búra (~1220m) og yfir á Hornklofa (~1260m). Þá var færið orðið þyngra og við ákváðum að láta tindinn bíða og fara frekar yfir á Ými og Ýmu og tókum því strikið beint yfir jökulinn yfir á Ými. Þar var harðara færi og þægilegt að komast upp. Frá Ými er ekki nema nokkurra mínútna rölt yfir á Ýmu en saman mynda þau flotta tvennu sem vert er að ganga á í góðu veðri.

Veðrið var með allra besta móti og var mjög heitt og sól allan tíman. Gummi var hálf tuskulegur frá Heiðarhorninu deginum áður og prufaði að nota göngustafi í fyrsta skipti í mörg ár til að auðvelda sér þrammið. Verst hvað hún þvældist fyrir myndavélinni hjá honum en það slapp þó til.

Flott hefði verið að vera með skíðin með sér, hvort sem það hefðu verið gönguskíðin eða fjallaskíðin skipti ekki máli þar sem það var frábært veður fyrir hvoru tveggja.
Að lokum var skoðaður Ísalp skálinn sem er flottur skáli á flottum stað.

Myndir