Gummi og Óðinn tóku skyndiákvörðun seinnipart föstudags um hvað átti að gera um helgina. Fyrir austan var hnappavallamaraþon og var það ein hugmyndin. Hinsvegar var veðurspáin ekki eins geggjuð og um síðustu helgar og það átti kannski aðallega við um sunnudaginn.

En við erum búnir að stefna lengi á Þumal og var það því fyrir valinu. Eftir þá ákvörðun rétt náðist að rúlla niður í Everest að kaupa þurrmat og gaskút til að geta étið eitthvað almennilegt á leiðinni.

Þetta endaði þannig að við kláruðum vinnudaginn, lögðum af stað úr bænum kl. 21 og vorum komnir á bivy reitinn í Kjós kl. 04. Eftir góðan svefn kl. 10:30 vöknuðum við og elduðum morgunmat. Lögðum svo loksins af stað rétt fyrir kl. 12 þegar allt var ready. Það er dáldið annað að koma inní kjós og tala nú ekki um Hnútudal þegar snjórinn er farinn. Miklir litir og skemmtilegra umhverfi til að njóta en svo heppilega vildi til að snjólæna var uppúr hnútudalnum að skraðinu sem við gátum farið eftir en þetta er bara grjótskriða sem mjög leiðinlegt er að klöngrast upp. Á leið uppúr Hnútudal mættum við göngufólki sem hafði gengið framhjá okkur áður en við vöknuðum og hélt uppí skarð við Þumalinn en fóru ekki yfir. Þegar við komum að skarðinu skildum við það vel þar sem það er frekar risky að fara yfir skarðið þegar nánast enginn snjór er til að gera ferðina þægilegri.

Gummi fór aðeins á undan Óðni og ruddi brautina á meðan Óðinn tók timelapse skot á meðan. Svo var vaðið beint í Þumalinn þar sem hann beið eftir okkur. Undir fyrstu spönn græjuðum við okkur í bröltið og við vissum ekkert hvað við vorum að fara úti, hversu erfitt og hversu laust þetta væri.

Óðinn fékk heiðuruinn á fyrstu spönn sem var auðveld en alveg laflaust berg einkennir þá spönn. Þetta er nánast eins og að krafsa sig upp grjótskriðu og sá sem er fyrir neðan þarf að passa sig að vera í skjóli þar sem hnullungarnir koma hver á fætur öðrum á fullri ferð.

Eftir þessa fyrstu skiptum við yfir í klifurtútturnar og skildum gönguskóna eftir á syllu í stansinum. Næst var komið að Gumma og lagði hann af stað í næstu spönn sem byrjar skemmtilga upp lóðréttan en stuttann stromp. Dáldið gaman af því hvað það er skrítin tilfinning að vera kominn í 1000m hæð á Vatnajökli í klettaklifur. Þessi spönn lá í gegnum tvær þröngar skorur og upp á milli Þumals og einkennilegs berggangs sem einkennir leiðina vel. Eftir þónokkra metra af duglegu ropedragi var þetta fína akkeri sem Bjöggi hjá ÍFLM setti upp nokkrum dögum áður með karabínu og allez sem gott var að nýta sér bæði á leið upp og niður.

Næst var komið að Óðni og héldum við að nú tæki við eitthvað erfiðara klifur sem reyndist vera alveg asnalega létt brölt upp öxl sem leiddi í enn einn millistans. Þar tók Gummi við aftur og þar var skemmtileg og aflíðandi sprunguspönn sem tók við. Þegar þessi 4. spönn er búin er allt brölt búið og við tekur ganga uppá topp sem þarf þó að fara með gát þar sem það er langt niður. Það telst etv. til 5. spannar sem er nánast heil 60m línulengd ef farið er alla leið á toppinn.

Við tókum okkur góðan tíma, reyndum að hringja í Adda sem var í sumarfríi í Danmörku til að svekkja hann svoldið en hann hafði vit á að svara okkur ekki. Þess í stað tókum við myndir, timelapse, video og smökkuðum á 18 ára viskýi sem gerði þetta alltsaman vel þess virði.

Næst var að síga niður sem tók smá stund þar sem línurnar vildu festast einstaklega mikið í berginu og þurfti Gummi að endurklifra 4. spönn með tibloc sem tryggingu þar sem hnúturinn festist á brúninni þegar toga átti hana niður. Vegna þess mælum við með því til þeirra sem ætla að fara að endilega að þegar síðasti fer niður að toga hnútinn framfyrir brúnina áður en farið er niður.

Hin sigin gengu betur en mikið ropedrag var í 2. spönn þar sem við sigum gegnum skorurnar en ekki beint niður úr stóra skarðinu. Einnig þegar við komum niður í snjóinn var Gummi að draga línuna niður þegar hún kom stein á stað sem endaði í hnénu á honum. Þá var hnéð vafið með teygjubindi, skellt í sig 2 íbúfen töflum í flýti og vaðið niður í Kjós.

Við vorum komnir niður í Kjós um kl. 1 um nóttina þar sem við elduðum okkur dýrindis þurrmáltíð og steinsofnuðum svo. Sváfum til 10 morguninn eftir, átum morgunmat og héldum í bílinn í Skaftafelli. Þaðan lá leiðin á Klaustur í mat og sund sem var afar þægilegt áður en við keyrðum svo alla leið í bæinn.

Myndir

Bivy í Kjós
Kjósin er flott snjólaus.
Gummi að reyna að drullast á lappir.
Óðinn að hella heitu í þurrmatinn.
Mikill gróður og sumarlitir á Morsárdal.
Horft inn Kjós úr Brekkunni við vestra Meingil.
Þetta er vanalega vatnspásustansinn sem er alveg þurr núna.
Flott umhverfi.
Neðst í Hnútudal.
Flottur drangur í Hnútudal, en hann er vel tengdur hinumeign.
Nánast alveg autt en þó smá snór uppí skarðið, sem betur fer.
Gummi í snjónum.
Gummi ryður veginn yfir snóskaflanna en skarðið er ekki spennand yfirferðar svona autt.
Þumall í öllu sínu veldi.
Skemmtilegt mynstur í jökulleirnum á leiðinni.
Til viðmiðunar, Gummi er ekki svo stór í þessu umhverfi en hann gengur þarna á brúninni hægra megin.
Gummi að leggja af stað í fyrstu spönn, Óðinn tryggir/myndar.
Gummi í krúxi leiðarinnar ef krúx má kalla, smá lóðréttur kafli en ekkert mál að tryggja.
Gummi kemur upp í 3. stans.
Skaftafellsfjöll vinstra megin og Vatnajökull hægra megin.
Gummi í 4. spönn, skemmtileg og auðvelt sprunguklifur.
Óðinn kemur uppá brún eftir 4. spönn. Þá er bara ein bröltspönnn eftir.
Óðinn kominn upp.
Gummi að klára síðustu metrana.
Miðfellstindur, alveg snjólaus.
Óðinn á toppnum.
Flott útsýni niður í Morsárdal af Þumli.
Kjósin er víst gömul megineldstöð.
Gummi í símanum að reyna að ná í Adda sem var í Danmörku.
Miðfellstindur og í skýjaskarðinu sést í Hrútfjallstinda og Hvannadalshnúk.
Miðfellstindur og slétta suður-Vatnajökuls.
Gummi á blátoppnum á Þumli.
Gummi
Enn eitt skotið yfir Skaftafellsfjöll.
Óðinn á leið niður.
Panorama frá niðurleiðinni.
Komnir niður í skarð og sólin að setjast.
Litirnir í Kjósinni sjást betur á kvöldin þar sem þeir eru svo ljósir fyrir sólina.
Miðfellstindur og Öræfajökull.
Gummi
Panorama frá skaðinu.