Það er nú búið að vera haust allan janúarmánuð og því ekki mikið gerst í klifrinu síðan fyrir jól þegar við náðum um 5 klifurdögum. Nú þegar það bárust fréttir um aðstæður í Villingadal voru fljótar að koma upp hugmyndir um að taka sér frí frá vinnu og skella sér bara í klifur. Þegar veðurspáin gaf eingöngu í skyn rigningu og framhald á hita um helgina var það jú bara slegið að við skyldum skella okkur í sumarfrí í einn dag til að berja ís.

Þrátt fyrir fína spá var þó vel skýjað og það snjóaði bara nokkuð duglega í bænum um morguninn. Við vorum því frekar rólegir og vorum ekki komnir úr bænum fyrren tæplega 10 um morguninn.
Það kom ekki að sök, enda daginn farið að lengja. Við lögðum á hálsinum við Villingadalinn og við tók um klukkustunda gangur inn dalinn í mjúkum snjó og mjúkri sinu.
Þegar við komum inní botn var orðið mjög snjóþungt af lausasnjó þar sem mikið hafði skafið framaf leiðunum og safnast í skálinni þar undir. Þar var fljótlega ákveðið að við skyldum bara klifra með allt dótið upp og ganga annarsstaðar niður.

Þar sem Óðinn var að vígja nýjar ísklifuraxir að þá var ekki um annað að ræða en að hann byrjaði að leiða. Þessar nýju Cassin axir eru dáldið eins og endurbætt útgáfa af gömlu Nomic og meiraaðsegja í lit!
Þetta gekk allt vel og ísinn var skemmtilegur eftir hitatíðina. Dáldið um snjó milli ísþilja sem myndaði skel og snjófylltan ís og snís. Leiðin er þó ekki mjög erfið og gekk þetta vel. Gummi og Addi eltu upp og frá fyrri stansi kláraði Gummi upp þessa brekku sem eftir var. Fyrir ofan leiðina voru lélegar festur fyrir akkeri og þar sem við skyldum snjóakkerið eftir þá varð úr nokkuð sketchy akkeri þar sem ísaxirnar og "life man" komu við sögu.

Þetta var prýðisdagur og þrátt fyrir mikið af skafrenningi og spindrifti sem gekk reglulega yfir okkur á meðan klifrinu stóð var þetta prýðilegur dagur og bíðum við spenntir eftir að sjá hvort það frysti ekki eitthvað aftur á næstunni.

Myndir