Simon Yates kom til landsins í frí ásamt vini sínum, Tom Curtis til að kynna nýja bók sína, the Wild within sem hann hefur nýlega gefið út. Ingvar vinur hans sem fór með honum á Ama Dablam hér um árið fékk Gumma til að koma með í túr til að komast eitthvað út að brölta með kallinum.
Eftir fyrirlestur í FÍ salnum á fimmtudagskvöldinu fórum við úr bænum á föstudagsmorgni. Stefnan var tekin norður og ákveðið að klifra eitthvað á leiðinni þangað til að nýta ferðina sem best.

Til að hafa þetta ánægjulegt frí og ekkert of erfitt ákváðum við að byrja á Bröttubrekku í Single malt leiðunum og sjá hvernig þeim leist á. Við komum að leiðinni og voru þeir félagar mjög kátir með sutta aðkomu og þægilegt klifur.
Við fríklifruðum fyrstu kertin þar til þau voru farin að vera nógu há til að við nenntum að tryggja. Svo þegar leiðin skiptist fóru Gummi og Ingvar upp lykilkafla Single malt on the rocks (miðleiðina) en Simon og Tom fóru til vinstri í Single malt and appelsín. Þegar Gummi og Ingvar voru hinsvegar komnir upp þennan lykilkafla var farið yfir hryggin í Appelsín leiðina til þeirra félaganna og tókum aðra leiðslu þar við hliðiná þeim og því skiptist sú leið eiginlega í tvennt þarna efst.

Á Laugardeginum fórum við svo á Hraundranga. Við vorum í fyrstu aðeins efasemdasamir um veðrið á Akureyri en þegar við vorum komnir í mynni Öxnadals fóru efasemdirnar útum gluggann.
Við vorum komnir á planið á bænum Staðarborg þar sem indælir ábúendurnir höfðu bent okkur á hvar við mættum leggja og vorum að klára að setja búnað í pokana þegar Ingvar uppgvötaði að hann hafði sett klifurbeltið inn í skáp þar sem við héldum til á Akureyri. Hann hélt því til baka að sækja beltið meðan hinir gengu af stað upp brekkuna.
Í brekkunni var talsvert af snjó svo við skiptumst aðeins á að troða leiðina. Efst var orðið skemmtilega þungt svo að við vorum rétt að undirbúa okkur að leggja af stað í klifrið þegar Ingvar var mættur uppí söðul tilbúinn í slaginn, hálf móður eftir að hafa hlaupið upp brekkuna á eftir okkur.

Gummi tók að sér að leiða fyrri part leiðarinnar sem var mjög einkennilegt svona að vetri. Mjög mikið krafs og allir gömlu fleygarnir á kafi í snjó, þó var hægt að finna nokkrar festur, bæði slingaða steininn neðarlega í leiðinni og akkerin tvö sem eru fyrir miðri leið.
Þetta tók smá stund meðan Gummi krafsaði í snjóléttann klettinn og kom sér lokst uppí stans. Næst á eftir komu Simon og Tom upp og þá var plássið fullt. Þá hélt Simon áfram í efri hlutann og kláraði uppá topp. Að vetri er jafnvel betra að sleppa hliðruninni í blálokin og fara beint upp úr sprungunni þar sem dáldið er af frosnum mosa þar fyrir ofan (beint undir akkerinu). Simon fór allavega þá leið en Gummi prófaði hina venjulegu leið sem var mjög skrítin í vetrarklifri.

Þar sem við höfðum lagt af stað heldur seint var sólin að setjast þegar við vorum komnir upp og farnir að huga að niðurferð. Því var sigið niður hið snarasta og komið sér niður i bíl. Það var eiginlega akkúrat að detta í myrkur þegar við komum í bílanna en hefðum trúlegast lent í myrkri ef við hefðum ekki fengið kjöraðstæður fyrir gore-tex rennsli niður.

Um kvöldið eftir að hafa borðað kíktum við í Hlíðarfjall þar sem telemarkfestivalið var haldið, en þegar við komum þangað hafði það nýlega verið stoppað og allir að leið niður í bæ. Því var haldið í bæinn þar sem við kíktum á Götubarinn og hittum nokkra hressa Ísalpfélaga sem höfðu verið að skemmta sér vel á Telemarkfestivalinu.

Næsta dag, á sunnudeginum var meiningin að skella sér í fjallaskíðun í Skíðadal þar sem Jökull Bergmann var að byrja Heli-skiing seasonið og á staðnum voru góðar aðstæður til skíðaiðkunnar. En vegna skýja seinkaði take-offinu aðeins og því þurftu Gummi og Ingvar að fara í bæinn en Simon og Tom skelltu sér seinnipartinn í þyrluskíðun með Adda, Óðni og Siebert sem voru einnig á staðnum og önnur grein er um þá ferð.

Myndir

Tom að koma upp í söðulinn á Hraundranga.
Útsýnið yfir Öxnadalinn.
Gummi lagður af stað, horft niður í söðulinn.
Simon leggur af stað.
Simon kominn í stans.
Fallegt útsýni inn Hörgárdal af toppnum.
Hörgárdalur og Öxnadalur.
Tom að koma upp.
Toppamynd, á myndina vantar Ingvar.
Niðurferðin undirbúin.
Simon leggur af stað niður.
Tom á leið niður.
Tom, Simon og Ingvar.