Gummi er búinn að vera að tuða um það í nokkur ár og meiraaðsegja fyrir gos að klifra upp Gígjökul, það varð loks að veruleika nú þegar Hálfdán veðurfræðingur lofaði góðu veðri fyrir laugardaginn. Þar sem Arnar og Óðinn voru báðir uppteknir var gerð hálfgerð stjórnarferð Ísalp út úr dæminu þar sem Árni Stefán Haldorsen og Heiða Jónsdóttir komu í þeirra stað.

Fyrsta krúx dagsins er ávallt að koma sér fram úr rúminu og getur það tekið toll að leggja af stað kl. 6 úr bænum en það tókst næstum því í þetta skiptið og vorum við komin inn að Gígjökli rúmlega 8 og vorum því á fínum tíma í björtu.
Jökullinn fer alveg að hætta að ná alla leið niður svo það fer hver að vera síðastur að fara þessa leið án þess að fara í einhverjar móbergs klettaklifur æfingar við iðjuna.
Leiðin byrjar strax á 4punkta klifri þar sem maður er ekki búinn að ganga nema í 2-300 metra þegar maður fer í broddanna og byrjar á léttu ísklifri.
Leiðin lá upp rétt hægra megin við íshellinn og liggur upp svona 50-60° ísbrekku með nokkrum serac brölthöftum inná milli. Flottar myndanir eru í svona falljökli og voru allskonar göt og syllur í boði til að skoða.

Innan skamms vorum við hinsvegar komin uppá brún á bratta jöklinum sem sést frá gamla lónstæðinu, og þar tekur við 20-40° ísbrekka fulla af jökuldrýlum sem leiðir mann á stóru gígbrúnina. Á þessari leið flaug þyrla Norðurflugs niður jökulinn en vorum við nokkuð viss um að þau höfðu ekki séð okkur innan um öll jökuldrýlin þar sem jökullinn er nokkuð breiður á þessum stað.

Þegar brúnin nálgast fara skemmtilegar sprungurnar að koma í ljós þar sem þarna er jökullinn að brotna fram af brúninni niður í Gígjökulinn. Við vorum í miklu fjöri að finna leið í gegnum sprungurnar og fórum við yfir ansi margar snjóbrýr og tókum þónokkra króka til að komast upp í gíginn sjálfann. Þegar við vorum svo komin þangað birtist þyrlan aftur og var greinilega að svífa yfir nýja gígnum sem gaus árið 2010. Eftir það flaug hún svo niður í átt að Gígjökli og í þetta skiptið urðu þau greinilega vör við okkur og vinkuðu okkur. Gætum vel trúað að það væri gaman að sjá þetta alltsaman úr lofti líka en ekki eins mikil upplifun og að koma sér upp gegnum sprungusvæðin.

Þegar við komum á gígbrúnina úr gosinu var heitur jarðvegur sem við notuðum svo til að hita okkur pylsur en þær voru gagngert teknar með þar sem Gummi hélt því stíft fram að þarna hlyti nú einhversstaðar að finnast jarðhiti eftir allt sem á gekk þarna fyrir 3 árum. Það er auðvitað sérstök tilfinning að vera í tæplega 1600m hæð á jökli að hita sér pylsur í jarðhita en upplifunin er bara góð.

Áfram héldum við í suðurátt og komum fljótlega fram á suðurbrún gígsins og Vestmannaeyjar blöstu við okkur þar sem sólin var að lækka á lofti. Þá ákváðum við að drífa okkur beint niður á Seljavelli þar sem við vorum svo sótt um kvöldið og skutlað aftur í bílinn við Gígjökul.
Það kom okkur helst á óvart að nánast enginn snjór var á jöklinum, broddafæri var allan tímann og meiraaðsegja við steinanna í 1600m hæð var glerhart færi. Smá snjór greinlega en sá var alveg gaddfrosinn og það var því ekki fyrren við komum niður á jökulsporð sem við gátum tekið af okkur broddana.
Þar kom í ljós að jökulsporðurinn að sunnanverðu er ansi sprunginn og úfinn og hefur þá greinilega breyst mikið við gosárið 2010 þar sem árið áður, 2009 þegar Gummi fór síðast á jökulinn var hann allur meira og minna sléttur þó að í suðurhlíðinni leyndust nokkrar sprungur.

Myndir

Krúx nr. 2 þennan dag.
Heiða
Að byrja á leiðinni.
Árni
Notuðum spottann mjög lítið í þessari ferð.
Heiða
Heiða í sprungu.
Hér byrjuðum við að nota línu, enda langt að detta niður þarna af þessu stykki.
Heiða
Árni
Gummi
Heiða lætur skítuga brúnina finna fyrir því á leiðinni upp.
Heiða tryggir Árna.
Árni í jöklastuði.
Heiða eltir upp.
Hverjum hefði dottið í hug að leiðin liggur þarna upp.
Heiða
Gummi krafsar í næstu spönn.
Frábær ísbrekka uppá brún bratta kaflans.
Ísbrekkan
Módelstörf á Gígjökli.
Ofanverður Gígjökull er skemmtilega óhugnalegur.
Árni
Heiða
Að komast upp í sprungusvæðið.
Varð leiður á því að taka svarthvítar myndir í lit og setti eina í svarthvítt.
Sprungusvæði
Heiða að klofa yfir sprungu.
Glæsilegt umhverfi, upplifunin var eins og að vera á annari plánetu.
Hvert svo?
Árni að koma uppúr sprungu.
Heiða að koma uppúr sprungu.
Hmm.. hægri eða vinstri?
Vinstri
Hægri lítur betur út.
Andlitsmyndanir finnast líka í jöklum.
Heiða gengur eftir sprunguflóðinu.
Heiða að niðurklifra í sprungu.
Eins og álfur útúr hól?
Þyrlan heilsar uppá okkur í annað skiptið þennan dag.
Við nýja gíginn.
Árni Ísalphetja
Gosgígurinn
Gummi við gíginn.
Gummi að hita pylsur.
Sjálfsmynd
Vestmannaeyjar
Smá ský mynduðust um stund á leið niður.
Árni
Heiða
Gummi
Suðurhlíðar Eyjafjallajökuls