Í alpaferðinni 2011 stefndum við á að taka Dent du Géant sem aðal takmark ferðarinnar en þurftum frá því markmiði að hverfa vegna veðurs, og þá að eftir að aðlögun var lokið kom vont veður inn sem stóð yfir að lokum ferðarinnar. Nú 2 árum seinna vorum við staðráðnir í að láta það ekki gerast aftur og láta vaða í tönnina ef færi gæfist.

Þessi alpaferð byrjaði vel, þó fórum við ekki í mikil háfjallaverkefni og vorum við aðeins búnir að fara Cosmiques arete í hæð áður en við þrumuðum í tönnina þar sem vont veður var í aðsigi og við ákváðum að lenda ekki aftur í sömu veðurklípunni og fyrir 2 árum og því létum við til skarar skríða snemma í ferðinni án þess að vera búnir að aðlagast nógu vel.

Eftir skoðun á veðurspá þegar við vorum búnir að taka Cosmiques og LeBrevent komumst við að því að við ættum 2-3 daga áður en veðrið myndi skella á. Þá ákváðum við að taka einn hvíldardag og fara svo á Dent.
Hvíldardagurinn var haldinn heilagur og fórum við í paragliding, fengum okkur vel að borða á Poco Loco hamborgarastaðnum góða á göngugötunni og vorum sallarólegir þangað til við ákváðum að halda upp í fjöllin, nánar tiltekið í Torino hut sem er staðsettur á milli La tour Ronde og Grandes Jorasses-Rochefort hryggnum sem endar á Dent du Géant vestanmegin.
Þegar við komum í kláfstöðina í Chamonix þurftum við að kaupa miða yfir til Ítalíu með Helbronner kláfnum sem er aðallega útsýniskláfur en alpafólk getur notað hann til að komast fljótt yfir valleé blanche. Þegar við mættum hinsvegar seinnipartinn komumst við að því að við mundum ekki ná síðasta Helbronner kláfnum frá Midi þar sem massa röð myndast í kláfastöðina í Chamonix á þessum tíma of fólki er bara hleypt inn í hollum. Þarna kom smá hik á okkur en ákváðum þrátt fyrir það að drífa okkur bara upp og þramma yfir til Ítalíu. Eftir talsverða bið eftir kláfnum lögðum við af stað uppúr kl. 17 frá Midi í gegnum Vallée Blanc og náðum í kvöldmat í Torino hut uppúr kl. 19 dauðfegnir en einnig örlítið áhyggjufullir að hafa sóað seinnipart hvíldardagsins í að þramma í hálfgerðu stressi frá Frakklandi til Ítalíu.

Í Torino hut stóðu yfir framkvæmdir, en Ítalir eru að vinna í að byggja upp flottan háfjallaskála þar með almennilegum kláf fyrir ferðamenn, enda hafa þeir verið talsvert eftirá hvað þetta varðar miðað við Frakkanna. Í skálanum er boðið uppá 3 rétta máltíð, morgumat og kojur ásamt kodda og teppi svo ekki þarf að þvælast með svefnpoka í þessar ferðir. Einnig vorum við mjög ánægðir með að fá afslátt af skálagjöldum með að vera með Ísalp skírteinin okkar.

Við rifum okkur upp kl. 4, fengum okkur morgunmat að hætti alpaklifrara (te/kaffi og morgunkorn ásamt brauði) og héldum svo í átt að tönninni. Gangan þangað tók aðeins lengri tíma en við reiknuðum með, enda leiðinda gönguland upp grjótskriðu og var orðið vel bjart þegar þangað var komið og á leiðinni var flott að sjá morgunsólina byrja að skína á Mt. Blanc, Maudit og Tacul enda var mjög fallegur dagur í uppsiglingu.
Undir tönninni fór að bera á öðrum hópum og fengum við okkur góða pásu, borðuðum og geymdum dót fyrir neðan sem við ætluðum ekki að taka með okkur upp. Þvínæst fórum við að koma okkur af stað þar sem hóparnir virtust streyma að fjallinu, enda ekkert smá flottur áfangastaður.

Gummi var æstur í að fá að byrja og tók hann því fyrstu spönn, hún byrjar á hliðrun sem breytist svo í auðvelt klifur upp vesturhrygg Dent du Géant ef hrygg mætti kalla. Þar komst hann í áhugavert akkeri úr steypustyrktarjárnum sem virðast einkenna leiðina sumsstaðar þar sem hann tók Adda og Óðinn upp.
Eftir aðra spönn sem Addi tók vildi svo heppilega til að góð sylla var þar því engir kamrar eru á leiðinni og fékk Frakklandshlíðin að finna fyrir þeirri aðgerð en Óðinn rauk fram úr Gumma til að komast í stans til að geta létt á sér þar sem um skyndiárás var að ræða.
Í öllum spönnum eru toppakkeri og svo er misjafnt hversu mikið er af tilbúnum tryggingum þar á milli og notuðum við dáldið af vinum og hnetum. Einnig er fixaður þykkur kaðall upp stórann hluta leiðarinnar og notfærðum við okkur hann stundum til að tryggja í, til þess voru notaðir lengjanlegir tvistar og þeir settir utanum spottann með prússíkhnút til að spara tíma í dótapælingar.

Leiðin á Dent du Géant

Lengd leiðarinnar leynir á sér og þegar maður gerir allt "rétt", þar að segja tryggja alla stöðugt neðan og ofanfrá að þá tekur þetta talsverðan tíma ásamt því að talsverð orka fer í að klifra í svona mikilli hæð. Þar sem við höfðum nánast ekkert aðlagað okkur fór Gummi að finna fyrir slappleika strax í annari spönn. Óðinn var hvað hressastur og tók því að sér að vaða í leiðslurnar sem á eftir komu.
Eftir aðra spönn þar sem syllan er tekur við langt slab með alveg hreint ótrúlegu útsýni og exposure, þaðan kemur flott þröng rás sem leiðir mann svo á toppahrygginn. Ágætt að hafa fixuðu línuna þarna til að maður rataði örugglega réttu leiðina þrátt fyrir að lítil hætta sé á að villast þarna.

Það voru ca.2 spannir sem við héldum að væri sú síðasta uppá brún, við vorum nánast hættir að telja spannirnar sem við höfðum klifið og vorum algjörlega að fíla okkur í svona skemmtilegu exposure-i þrátt fyrir slappleika hjá sumum. Óðinn var æstur að fá að draga línuna og náði svo toppnum þar sem Maríulíkneskið er. Þar þarf maður að fara yfir hrygg sem tengir 2 tinda Tannarinnar saman og er skemmtilega exposed. Meðan Óðinn fór yfir hrygginn voru Gummi og Addi í stansinum að hugsa um hvort Óðinn væri kominn eða að komast þar sem hann virtist stoppa af og til.
Ferðin yfir þennan tengihrygg var skemmtileg, mikil loft í kringum okkur og ein lækkun niður nef með engum fótfestum gaf okkur nettann fiðring í magann áður en eingögu einn 5m hár lokaveggur er á milli manns og toppsins.

Það að komast á topp Dent du Géant var einstök upplifun, við vorum búnir að hugsa mikið um tindinn frá fyrri ferð okkar 2011 þar sem við komumst ekki á hann vegna veðurs og hafði Gummi verið að hugsa um tindinn frá árinu 2005 þegar hann sá hann fyst á leið sinni á Mt. Blanc.
Toppurinn kom skemmtilega á óvart. Þar er sæmilegt pláss til að sitja, þar er lítil gryfja í miðjunni og er því hægt að sitja sitthvoru megin hryggsins við hlið styttunnar og nutum við útsýnisins í góða stund, borðuðum smá nesti og fengum okkur whiskey til að fagna sigrinum og tókum myndir.

Niðurferðin var mjög áhugaverð þar sem sigið er niður um 150 metra sem er lóðrétt og sumstaðar yfirhangandi og þrátt fyrir góð akkeri tekur þetta smá toll og voru sumir algjörlega með kúkinn í buxunum yfir þessum hluta ferðarinnar. Fyrst hentum við línunum utanum styttuna og sigum niður á henni niður í söðulinn milli tindanna. Þar tekur við smá hliðrun að boltuðu sigakkeri þar sem við héldum að nú yrði þetta bara leikur einn.
Samkvæmt leiðarvísinum sem við fundum bara á frönsku eru þetta 3-6 sig og ekki flókið að rata eða svo við héldum. Við sigum beint niður ca.30m í annað akkeri litlu neðar. Þaðan hélt Gummi neðar og mjög fljótlega var hann í lausu lofti talsverða vegalengd og endaði á syllu með örlítið eftir af línu en þar var ekkert akkeri og aðeins hálfnaður niður! Þetta var heldur óþægileg staða þar sem hann náði heldur engu sambandi við strákana ofar til að láta vita af vandræðunum og voru þeir reglulega að kippa í línuna til að athuga hvort Gummi væri ekki kominn í stans.
Eftir smá skoðun á aðstæðum sá Gummi akkerið svona 10m frá sér, talsvert ofar og til vinstri. Það var ekki um neitt annað að ræða en að andskotast einhvernvegin í þetta akkeri sem var í sjónmáli og tók hann þá upp 2 stk Tibloc úr topphólfinu, dauðfegin að vera enn ávallt með það meðferðis til að geta reddað sér úr svona klúðri og smellti því á línurnar, karabínu í gegn og tengdi við sig. Með þessu náði hann að tryggja sjálfan sig upp lóðrétt fingraklifur á passlega öruggan hátt.
Hvaða bjáni hafði sett upp þessa sigleið hugsaði hann en svo komu aðrir ferðalangar sem sigu beint niður á akkerið og höfðu þeir ekki farið í sama akkeri nr. 2 og við.

Þegar Addi og Óðinn komu loks niður eftir um 45mín bið í stansinum fyrir ofan þurfti Gummi að toga þá til sín svo þeir kæmust hliðrunina í akkerið þar sem þessi partur afsiginu var yfirhangandi, voru þeir auðvitað hissa á þessum bjánalegu sigstönsum. Eftir þetta var aðeins 1 langt sig eftir sem gekk mun betur fyrir sig og við lendingarstaðinn var þessi líka myndarlegi skítur sem einhver í bráðri þörf hafði greinilega skilið eftir.

Niðurgangurinn gekk svo hægt fyrir sig í grjótskriðunni og komum við ekki svo löngu fyrir kvöldmat aftur niður í skála frekar þreyttir og ævintýrasaddir eftir ógleymanlegan dag.

Í skálanum fengum við aftur 3 rétta máltíð og þar er einnig bar þar sem við fengum okkur bjór í verðlaun fyrir daginn og var hann mjög vel þeginn! Um nóttina sváfum við eins og börn og þar sem við vorum búnir með verkefnið sváfum við alveg til rúmlega 9 um morguninn og voru þá að sjálfsögðu allir farnir úr skálanum svo við gátum tekið okkur saman í rólegheitunum og að þessi sinni tókum við Helbronner aftur yfir til Frakklands og úr honum er frábært útsýni yfir dalinn Hvíta (Valee Blanche) og er þessi kláfur aðallega notaður til útsýnisferða og hefur ekki mikla flutningsgetu.

Eftir þetta kom óveður yfir háfjöllin og við stungum af til Ítalíu í klettaklifur í nokkra daga.

Að lokum smá upplýsingar til þeirra sem hyggja á þessar slóðir að til að lenda ekki í þessu sama veseni með sigið og við gerðum að þá er best að taka þetta í þremur 50m sigum. Semsagt ekki fara í fyrsta milliakkeri sem sést beint í úr fyrsta sigakkerinu fyrir neðan eins og við gerðum heldur halda beint áfram í akkeri 2 sem er aðeins til vinstri þegar maður snýr að veggnum og síðan annað hvort í næsta akkeri undir (ef þú ert með 2x60m línur) eða bara í næsta undir því.

Myndir

Gengið frá Fraklandi til Ítalíu. Dent Du Geant í bakgrunni.
Grand Capucin vinstra meginn við sólina
Dent Du Geant séður frá skálanum.
Gummi og Arnar slefa yfir risa tönninni.
Fyrstu sólargeislar dagsins snerta top Mont Blanc
Gummi og Arnar
Óðinn að brölta upp Rochefort brekkuna.
Hin alræmda Rochefort brekka.
Í brekkunni
Að koma upp undir Tönnina
Öxlinn undir Dentinum
Gummi leiðir fyrstu spönn, Arnar tryggir.
Óðinn í risa slabbinu í 3 spönn
Gummi og Arnar í 3 spönn sem er hreint mögnuð.
Gummi kemur upp rennuna í 4 spönn, enginn skortur á lofti þar
Arnar og Gummi koma uppá öxlina í 5 spönn
Magnað útsýni
Arnar í síðasta stansinum fyrir toppinn
Óðinn leggur af stað í síðustu spönn
Óðinn að komast uppá fyrri tindinn
Arnar á toppi fyrri tindsins. Mont Blanc í baksýn
Gummi kemur upp
Exposure!
Arnar klifrar síðustu metrana á topinn
Arnar
Maríulíkneskið á toppnum. Grand Jorassesn bakgrunni.
Eitt stikki klassísk toppa mynd
Gummi í sigi númer 2, áður en fjörið byrjaði
Arnar að klára sigið
Þreyttir en sáttir komnir í skálann
Vallée blanche. Magnað útsýni úr kláfinum til baka.