Það var spennandi tilhugsun að vera á leiðinni í frí með fjölskyldunni til Klettafjalla Kanada en á sama tíma erfitt fyrir fjallaklifrara að horfa aðeins á fjöllin neðan frá og fá ekki að prófa sig aðeins á þessu draumaklifursvæði. Það var því fljótlega farið í það að skipuleggja einn klifurdag frá fjölskyldunni. Ljóst var að erfitt myndi reynast að finna klifurfélaga enda ekki gengið að því að finna góðan félaga sem væri til í langan dag á fjöllum með ókunnugum manni.

Eftir smá umhugsun datt mér í hug að hafa samband við klifurgoðið Will Gadd og vildi svo heppilega til að hann var akkúrat laus þennan eina tíma og þurfti ekki mikla sannfæringu til að ráða hann sem einkaleiðsögumann. Við negldum niður tíman og þá var bara að bíða og vona að veðrið myndi standa undir sínu.

Mánuði síðar þegar á staðinn var komið vildi svo skemmtilega til að veðurspáinn lofaði besta veðrinu þennan tiltekna klifurdag. Þar sem við gistum í flottum fjallaskála beint undir fjalli sem heitir Castle Mountain þá var það einföld ákvörðun að velja það fjall sem markmið dagsins.

Við mældum okkur mót eldsnemma um morguninn enda ljóst að þetta myndi verða langur dagur. Ekki er óalgengt að menn noti tvo klifurdaga á þessu svæði enda er pínulítill fjallakofi á stalli í miðju fjallinu sem tekur 4-6 manns í gistingu og er rekinn af Kanadíska alpaklúbbinum.

Við Will hittumst í myrkrinu og ákváðum strax af tveimur valmöguleikum að taka lengri og erfiðari leiðina í ljósi þess hve aðstæður væru góðar. Gengum við strax af stað enda algjör óþarfi að slóra þegar svona langur dagur er framundan. Án þess að hafa hitt Will áður þá fann ég mjög fljótt að hann var viðkunnanlegur og náðum við fljótt vel saman. Hann styrktist með hverju skrefinu og samtalinu um að við hefðum tekið rétta ákvörðun með lengri leiðinni enda var hann ekkert að fela það að hann var að mæla mig út og sjá hversu áreiðanlegur ég yrði.

Eftir um klukkutíma göngu gegnum skóginn vorum við komnir nálægt fyrsta klettabröltinu en þá var einmitt orðið nógu bjart til að taka hausljósin niður og jú við sáum loksins almennilega sméttið á hvor öðrum ekki bara raddir í myrkrinu. Fyrstu sólargeislarnir voru að gera vart við sig og ljóst var að spáin virtist ætla að standa og úr yfði fallegur dagur.

Fyrsta langa klettahaftið upp að stallinum undir aðalklifurveggnum var tiltölulega létt brölt en þurftum samt að tryggja á einum stað og allt gert á sem öruggastan hátt. Við vorum fljótir að þessu og komnir upp að litla fjallakofanum á góðum tíma. Þar hittum við fyrir annað klifurteymi sem hafði gist yfir nóttina í kofanum. Það kom okkur ekki á óvart að við yrðum ekki einir á fjallinu á svona góðum degi en við vorum fegnir að heyra að þeir ætluðu að klifra hina leiðina sem heitir Eisenhower Tower en okkar leið heitir Brewer Buttress.

Eftir stutt nestis stopp og nóg af spjalli um klifur og svifvængjaflug var haldið í fyrstu klifurspönnina af þrettán. Bergið var laust í sér til að byrja með en eftir fyrstu tvær spannirnar varð bergið traust eins og stál og þá byrjaði fjörið fyrir alvöru. Það skein brosið af okkur báðum með þennan frábæra dag, Will var ekki síður spenntur að klára þessa leið enda hafði hann áður þurft að snúa við tvisvar í miðri leið vegna veðurs og hafði ekki klárað hana ennþá.

Klifrið gekk smurt fyrir sig, erfiðleikastigið var þægilegt með nokkrum tæknilegum köflum sem gerði þetta ennþá skemmtilegra ásamt því hversu langur veggurinn var. Á miðri leið þegar við sáum hversu vel gekk, ákváðum við að taka langa Red Bull pásu og njóta aðeins umhverfisins enda benti allt til þess að við myndum ná niður vel fyrir myrkur svo stressið með tíman var löngu horfið.

Það var nægan fróðleik að sleikja upp úr reynslubanka Gaddarans og ekki voru sögurnar af verri endanum. Gaman að heyra frá Íslandsreysu kappans fyrir einum 15 árum síðan og hann útilokaði heldur ekki fleiri heimsóknir í framtíðinni. Okkur var farið að finnast þetta ganga grunsamlega vel og byrjaðir að grínast með að það hlyti eitthvað óvænt að bíða okkar. En aldeilis ekki, við náðum toppinum áfallalaust um 1 eftir hádegi og vorum byrjaðir að dóla okkur í rólegheitum niður í flotta útsýninu að sjálfsögðu eftir gott myndastopp.

Við tókum góða kaffipásu í fjallakofanum á leiðinni niður og bölvuðum því að hafa ekki haft vit á því að taka með okkur svifvæng og skilið hann eftir hjá kofanum enda komnar þessar glimrandi flugaðstæður. En fyrir þá sem ekki vita þá er Will ekki aðeins heimsklassa klifrari heldur með þeim fremstu í svifvængjaflugi og hefur tvisvar átt fluglengdarmetið í því sporti.

Þrátt fyrir að fljúga ekki niður þá var ekki leiðinlegt að fara sömu leið til baka og sjá þetta í dagsljósi. Á leiðinni niður rákumst við á 2 stelpur í fjallajóga og virtust þær fara aðeins hjá sér þegar við birtumst óvænt innan úr trjánnum en ekki vorum við síður hissa.

Í lok ferðar var bjórinn farinn að kitla en létum ekki sprungið dekk hægja á okkur og tókum formúlu 1 dekkjaskipti og drifum okkur í fjallasjoppuna og hittum fyrir hitt klifurteymið og tókum einn kaldan með þeim. Ekki skemmdi svo fyrir að komast í heita pottinn með fjölskyldunni í lok dags og horfa á seinustu sólargeislana lýsa upp Kastalafjallið fagra.

Frábær dagur á fjöllum.

Myndir

Castle Mountain 2 dögum fyrir klifrið
Bow Valley í sólarupprásinni
Stanley Peak
Næstum komnir að fyrsta bröltinu
Gera okkur tilbúnna fyrir frysta klettahaftið
Will Gadd
Morgunsólin skín sínu skærasta
Auðvelt brölt til að byrja með
Morgunkaffistopp
Flott útsýni með nestinu
Smá bensín á tankinn
Nánast komnir að fyrsta klifrinu
Fyrstu spannirnar voru fljótlegar
Ein af mörgum spönnum eða 13 talsins
Gera sig tilbúinn fyrir klifrið
Næstum kominn
Nóg eftir
Skemmtilegt og fjölbreytt klifur
Gengur vel
Banff 2014 pósan
Ekki annað hægt en að brosa á svona degi
Auðvitað kom Will með Red Bull fyrir kaffipásuna
Ánægðir með daginn
Ég fékk meira að segja einn
Eisenhower leiðin er hinu megin við hryggin
Það var nóg brosað þennan daginn
Bívak skálinn sést þarna niðri ef vel er gáð undir 400 metra háu stálinu
Ennþá nóg eftir
Þrettánda spönnin
Seinasta spönnin var með þeim skemmtilegri
Næstum komnir upp
Kominn upp á topp
Klássískt sjálfsmynd
Will Gadd á toppnum
Rockbound Lake
Finna leiðina niður
Komnir í rétta gilið
Tókum góða kaffipásu í skýlinu
Útsýnið frá skýlinu
Komnir niður úr neðri klettunum
Hefði verið fínt að fá smá jóga kennslu þarna eftir allt klifrið
Á leiðinni niður dalinn
tókum formula 1 stopp á dekkinu, vorum orðnir bjórþyrstir á þessum tímapunkti
Við hittum hitt klifurteymið í sjoppunni og tókum einn kaldan með þeim
Útsýnið úr fjarska