Þetta er 7. árið í röð sem Gummi fer NA-hrygg Skessuhorns á jólunum og að þessu sinni voru það Arnar Jónsson og Ágúst Kristján Steinarrsson sem brugðu sér með honum á fjallið. Gummi lenti þó í rifbeinsbroti fyrir rúmum mánuði og er loksins farinn að geta beitt sér eitthvað, en fyrir vikið missti hann af öllu ísklifri í desember.
Færið var heldur þungt á heiðinni undir fjallinu og var mikill foksnjór í sköflum og brekkum sem gerði þetta að prýðilegri æfingu um leið. Sniðugt hefði reyndar verið að taka snjóþrúgurnar með, en það eiga ekki allir slíkar græjur svo það yrði heldur ójafn hraði ef einhverjir eru með þær en aðrir ekki.

Við lögðum af stað úr bænum um kl. 8:30-9 eftir að hafa komið við í Mosfellsbakaríi þar sem morgunmatur og nesti var verslað, ásamt morgunkaffibolla sem virðist vera nauðsynlegur fyrir þá sem eru orðnir nógu stórir í slíkt.
Ágætis færð var á leiðinni að Horni, og þegar við komum þangað var ljóst að nokkrir sem við höfðum heyrt af væru lagðir af stað á fjallið eitthvað á undan okkur.
Veðrið var býsna gott miðað við margar ferðir síðustu ára og sást fjallið mestallan daginn. Aðstæður til brölts á hryggnum voru prýðilega góðar þar sem hlákurnar sem hafa gengið yfir hafa greinilega brætt eitthvað af snjónum sem hefur safnast þarna í haust og myndað einhvern ís sem er hægt að klifra ásamt því að mosinn var í sérstaklega góðum aðstæðum :)
Rétt undir hryggnum hittum við svo hinn hópinn og áttum gott spjall við þau áður en við héldum áfram. Hryggurinn var í skemmtilegum aðstæðum, en oft á þessum árstíma er enginn ís farinn að myndast og verður þetta því hálfgerð þurrtólun. Það var ekki þannig þetta árið þar sem mikið var af ís milli steina og allur mosi mjög meðtækilegur á axirnar. Fyrir vikið klifruðum við óvenjulega mikið í klettunum þar sem þeir eru sem hæstir til að njóta þessara aðstæðna.

Norðurveggurinn er hinsvegar ekki tilbúinn, við náðum að kíkja frá einni góðri syllu á hryggnum inná vegginn sem er frekar þurr ennþá þó svo að einhver ís sé farinn að myndast, og gæti komið í aðstæður eftir nokkur hlákuskot í viðbót til að bræða þann snjó sem í honum er.
Smá snjókoma kom á okkur ofarlega í hryggnum og þegar upp var komið fengum við góðan vind frá vestri í hliðina þegar gengið var eftir hryggnum í átt að niðurgangs skálinni þar sem gönguleiðin liggur og við fórum niður.
Það er líka gott að eiga GPS punkt á fyrsta stað sem hægt er að komast niður án þess að fara lengst inn í skálina, sérstaklega þegar lélegt skyggni er á fjallinu.

Við vorum komnir niður í bíl rétt þegar það var að skella á myrkur svo að við höfum verið svona ca. 7 tíma að þessu. Það voru þónokkrar myndir teknar á hryggnum sjálfum en Gummi var að prófa nýja myndavélafestingu sem festir myndavélina bera á bakpokaólina og það svínvirkar og maður er fljótur að grípa hana upp og skjóta myndir, en hún er frekar berskjölduð en mjög gott að vera með hana svona tilbúna þar sem maður tekur ekki mikið af myndum ef maður þarf að sækja allan 2kg hlunkinn niður í poka fyrir hverja mynd!

Myndir

Að komast uppað hryggnum.
Addi í byrjun Hryggsins.
Addi í mosaklifri.
Ágúst
Annar hópur stendur á rótum hryggsins.
Ágúst
Ágúst
Arnar
Ágúst
Arnar og Ágúst
Arnar og Ágúst
Gummi
Gummi
Gummi og Ágúst
Gummi og Ágúst
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar
Ágúst í hliðrun
Ágúst og Gummi í hliðrun.
Ágúst á hryggnum
Ágúst og Arnar
Ágúst í einu af lokahöftunum.
Arnar
Flott birta yfir Hafnarfjalli.
Á leið niður.
Skemmtileg brekka og nóg af snjó.