Vetrarleikföngin voru dregin fram þessa helgi enda veðurguðirnir í óvenju góðu skapi og viðraði vel til útivistar. Við slógum tvær flugur í einu höggi en á laugardeginum var stefnan tekin á svifvængjaflug og á sunnudeginum fórum við í ísbíltúr í leit að klifranlegum ís.

Helgina áður höfðu Bjartmar og Óðinn tekið ágætis vetrarflug við Nesjavelli og því var búið að kveikja aðeins í öðrum flugmönnum að koma út og endurtaka leikinn. Það var því fjölmennur hópur sem tók stefnuna á Bláfjöllin um morguninn. Þegar þangað var komið var heldur hvasst og lágskýjað og því ákveðið að leita uppi eitthvað betra svæði. Ekki þurftum við að leita langt en hlíðarnar norðan megin við Þríhnúka lofuðu góðu. Uppgangan var ekki mjög löng en við fundum ágætis aflíðandi brekku sem sneri í vest-norð-vestur eða beint á ríkjandi vindátt. Þegar við höfðum fundið góðan aftökustað var farið að meta aðstæður sem voru í hvassara lagi og sjálfstraustið aðeins farið að dala.

Bjartmar reið hinsvegar á vaðið með sinn nýja og litla UFO væng og tók fínan sleða niður sem jók aðeins sjálfstraustið hjá hinum með stærri vængina. Eftir smá hik fóru svo hinir í loftið og úr varð glimmrandi gott flug en við héngum allir uppi í rúmar 40 mínútur í þægilegum og stöðugum vindi. Vindin lægði aðeins á meðan við vorum í loftinu en það var hinsvegar ekki ástæðan fyrir að við tókum stefnuna niður, þess þá frekar kaldir puttar og fullnægð fluggredda. Brosandi út að eyrum héldum við aftur upp í Bláfjöll í von um meira flug en skilyrðin enn þá ekki álitleg og því brunað aftur í bæinn sáttir með daginn.

Sunnudagurinn var svo brennimerktur fyrir ísklifur en við höfðum heyrt af góðum aðstæðum úr Villingadalnum deginum áður og vorum því vongóðir um klifranlegan ís í hæfilegum radíus frá bænum. Ferðinni var heitið í Kjósina með Hvalfjörðin og Villingadal sem plan b. Það var smá væta á leiðinni úr bænnum og hitatölur ásamt slæmu skyggni sem jók ekki á bjartsýnina en við vorum ekki á því að snúa við fyrr en á hólminn væri komið. Við höfðum allir áhuga á að kíkja á Áslák og úr fjarska leit hann nokkuð vel út. Það var því ákveðið að gíra sig upp og þramma af stað.

Þegar nær dró varð augljóst að aðstæður væru ekki upp á sitt besta enda ísinn mjög opinn í topinn og mikill vatnsflaumur spýttist yfir hægri hliðina. Frekari skoðun leiddi betur í ljós vafasamar aðstæður, tengingin við klettinn var glufótt og ansi kertaður og blautur ís kveikti veika von um að eitthvað yrði úr þessari ferð. Þegar ákvörðun hafði verið tekin um að snúa við reið Óðinn á vaðið og bauðst til að klifra upp vinstra hliðina á fossinum sem leit út fyrir að vera öruggasta línan upp. Úr varð hið besta klifur í þægilegum ís en þegar komið var hálfa leiðina upp benti Gummi á, sem hafði góða yfirsýn að ofan, að líklega væri best að láta staðar numið því ísinn væri þunnur og ekki vel tengdur við klettinn fyrir ofan. Það varð niðurstaðan og setti Óðinn því upp megintryggingu sem var svo notuð í nokkrar ofanvaðsferðir. Þegar allir voru orðnir sáttir þá var pakkað saman og haldið heim á leið. Eitt stóð þó upp úr sem vert er að nefna en það vildi svo skemmtilega til að það voru litlar flugur á ísnum sem fylgdu manni upp og ekki ráku menn minni í að það hafi komið fyrir áður í ísklifri.

Flugferill

Myndir

Bjartmar tekur vænginn upp
Bjratmar tekur á loft
Óðinn
Endaði á smá gröndli
Gengið upp við Þríhnjúka daginn eftir
Spáð í spilin
Arnar að pósa
Jón í góðum gír
Þríhnjúkar
Arnar og Ingvar að tékka á vindinum
Bjartmar gerir sig til
Bjartmar kominn í loftið
Halldór
Halldór
Halldór
Cloud base
Arnar kominn í loftið
Arnar
Óðinn kominn í loftið
Horft niður á Arnar
Proximity flying
Daginn eftir í gilinu hjá Áslák
Arnar spáir í spilinn
Línan gerð upp
Óðinn tekur af stað
Óðinn
Gummi kemur svo
Arnar
Gummi tekur annað rönn