Nú er sumarið að ganga í garð og úti farið að vora, fuglasöngur að herast og sólin farin að skýna. Í tilefni þess og að Gummi var á milli prófa og verklegrar lotu í skólanum, var ákveðið að fara í ævintýraferð.

Hvert sú ferð átti að vera var hinsvegar ekki ákveðið fyrren á sunnudagsmorgninum sjálfum, rétt fyrir brottför að fara heldur á Heklu en að halda vestur á Snæfellsnes þar sem veðurspáin var örlítið hagstæðari þar.
Þar sem þetta átti að vera ævintýraferð var gert ráð fyrir einhverju tvennu, klifur og flug eða skíði og flug. Klifrið hefði getð verið ís-/alpa- eða klettaklifur og var þetta mest spurning um veður og staðsetningu.
Við lögðum af stað um kl. 8:30, upp í Þjórsárdal og yfir í Dómadalsleið við Búrfellið. Færið þar er alveg prýðilegt, sé ekki farið nema langleiðina að Rauðuskál, en snjór er þar meðfram hrauninu enn. Mörg sleðaför eru einmitt þarna líka og nota þeir þennan stað til að komast inn á fjallabak.

Á aftökustað
Við vorum búnir að græja okkur af stað með fjallaskíðin og vængina um kl. 11 og þrömmuðum við af stað. Skinnin virkuðu vel á uppleiðinni og þurftum við aldrei að sikksakka upp til að renna ekki afturábak þar sem færið var frekar hart og var hægt að þræða framhjá þeim ís sem var þarna.
Mest alla leiðina upp var algjört logn. Eins og sannir íslendingar vorum við að sjálfsögðu ekki með sólarvörn í fyrstu sólarferð ársins, heldur létum sólina baka okkur heldur hressilega. Þar sem vindurinn var nánast enginn framanaf vorum við orðnir mjög spenntir fyrir því að fá að taka á loft af toppnum. Hinsvegar þegar við komum upp á toppinn eftir um 3klst mældum við milli 14-15 m/s í vindstyrk.
Á toppnum var hinsvegar alveg magnað útsýni og sáum við m.a. Þórisjökul, Geitlandsjökul, Langjökul, Bláfell, Hrútfell, Kerlingarfjöll, Hofsjökul og Hásteina, Tungafellsjökul, Hágöngur, Bárðabungu, Vatnajökul, Öræfajökul, Torfajökul, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og Tindfjallajökul svo eitthvað sé nefnt.
Á flugi

En það tekur enginn á loft í svona miklum vindi og erfitt að gera það þó hann sé helmingi lægri þegar maður bæði stendur á skíðum og með auka búnað með sér. Því fengum við að skíða neðar í fjallið til að finna hentugri aftökustað. Hann fundum við talsvert neðar þar sem vindurinn hafði greinilega aukist á meðan við gengum upp fjallið og gátum við tekið í loft í um ~1100m hæð eftir að hafa skíðað tæplega 400 hæðarmetra sem var líka mjög skemmtilegt og fjölbreytt færi, en við fengum að prófa rifskafla, klaka, hjarn og fleiri stuðsnjó sem fjallið býður upp á.
Í þessum 1100m var nánast alveg logn og við dreifðum úr vængjunum. Óðinn og Gummi flugu niður í hraun en náðu mjög stutt þar sem vindurinn var farinn að koma úr austri og því mikið niðurstreymi þar sem við vorum. Arnar náði hinsvegar ekki að fljúga niður og eftir að hafa óvart prófað að stýra vængnum með skíðastöfunum ákvað hann að pakka niður og skíða alla leiðina. Nánast enginn vindur var á aftökustað og því var erfitt að taka í loftið.

Lending
Arnar var þó fljótari í bílinn heldur en Gummi og Óðinn þar sem hann gat náð mun betri skíðaferð niður þar sem þeir lentu niður við hraunið og því búnir að brenna mestallri hæðinni. Hefði vindurinn verið vestanastæður eins og spáin gerði ráð fyrir hefðu þeir samt náð mun lengra en bíllinn og getað leikið sér í loftinu við að komast niður að bílnum. Við gerum það vonandi næst.

Þessi dagur var ansi magnaður þrátt fyrir að við höfum ekki getað flogið frá toppnum, mjög gaman var að skíða niður og sólin merkti okkur alla vel og var farið nánast beint í apótek þegar í bæinn var komið til að kaupa bæði aftersun og sólarvörn fyrir næstu ferð, hvenær sem hún verður.

Myndir