Vaskur fjallaflokkur verkfræðikennara við Háskóla Íslands skelltu sér á Þverártindsegg þann 20. maí og var spennan orðin mikil í suðursveitinni að kvöldi fimmtudagsins þegar veðurspáin hafði verið að rokka dáldið hressilega gegnum vikuna og virtist ætla að gefa okkur glugga á tindinn. Gummi og Tómas Guðbjartsson, sem er einnig kennir við skólann, tóku að sér að leiða þennan flotta hóp upp á eggina og var spenningurinn mikill þar sem síðasta tilraun á fjallið tókst ekki hjá hópnum vegna snjóflóðahættu. Eitthvað sem allir geta lent í og þá verður að snúa við.

Um morguninn gerði skúrir, sem við biðum af okkur og lögðum því ekki af stað eldsnemma eins og upphaflega var áætlað. Skúrirnar gengu þó fljótt yfir og vorum við komnir inn í dal og eggin blasti við okkur.
Brókarjökullinn rétt nær niður og er greinilega að hopa talsvert þessi árin, enda fellur hann úr um 1000m hæð af jökulsléttunni niður í dalsbotninn sem er í um 200m hæð.

Í Eggjardal var snjór alveg niður í bíl, eitthvað sem við höfum ekki séð áður á ferðum okkar þangað og áberandi eru gömul snjóflóð þar sem skálarnar í dölunum hafa hreinsað sig niður. Uppgangan hófst því nánast strax á snjó, þó að hryggirnir sjálfir hafi aðeins náð uppúr fyrstu metrana.
Mikill og mjúkur snjór var alla leið upp á Skrekk sem tafði för talsvert þegar hann var troðinn og náði hann sumsstaðar vel uppfyrir hné þar sem verst var. Þetta var einnig sumsstaðar í talverðum bratta sem gerði þetta einkum áhugavert.

Leiðin upp frá Skrekk var bara í ágætis aðstæðum þar sem snjórinn var harðari og gengum við upp í falljökulinn sem leiðir upp á eggina sjálfa. Við fórum ekki strax upp á hrygginn, heldur fórum við aðeins utaní ísfallið sem var skemmtilegt, enda nokkrar sprungur áberandi og fengum við að ganga stutt í gegnum ísborg.

Að lokum komum við upp í söðulinn og var þá pínu skýjað vestan megin sem byrgði okkur sýn yfir Breiðamerkurjökul og sandinn þó við sáum aðeins glitta í Esjufjöllin, Svöludal og Mávabyggðir. Nestispása og myndir voru teknar eins og reglur kveða á um. Þarna var klukkan orðin 19 þegar við fórum að huga að niðurferð og hugsaði Gummi mikið um fjallavænginn sem var í skottinu á bílnum þar sem nánast logn var uppi og sá litli vindur sem var kom úr réttri átt. Það er klárlega málið að fljúga einhverntíman niður af egginni og taka loftmyndir á leiðinni niður.

Talsverðan tíma tók að vaða snjóinn til baka þegar komið var niður fyrir Skrekkssléttuna, þó svo að hægt væri að renna sér sumsstaðar og voru það mjög blautir rassar sem komu niður í bílanna seinna um kvöldið.
Loks skiluðum við okkur til byggða undir miðnætti og voru ferðafélagarnir í næstu ferð daginn eftir farnir að undrast um okkur.
En þegar komið var í hús var hafist handa við að útbúa kvöldmat, enda allir svangir eftir snjótroðninga og þveranir jökulsprungna yfir daginn. Um kl. 2 fóru Gummi og Tómas hinsvegar yfir á Hala þar sem komið var að því að safna smá kröftum fyrir næstu ferð morguninn eftir sem mun koma í sér grein

Myndir