Eftir góðan dag á Þverártindsegg hjá Gumma og Tómasi var ferðinni daginn eftir haldið á næsta tind með hóp Ferðafélags Íslands á Birnudalstind við Skálafellsjökul þar sem fleiri góðir fararstjórar bættust í hópinn. Þar sem um fjallaskíðaferð var að ræða var keyrt upp frá Smyrlabjargavirkjun, langleiðina upp að Jöklaseli, vegurinn var þó á kafi í snjó þegar komið var rétt upp fyrir brúna og byrjuðum við ferðina þar.
Mjög gaman var fyrir Gumma að hitta marga ferðafélaga áranna fyrir skólavist eins og Mammút systur, en það hefur verið dálítil pása hjá honum meðan á náminu stendur og getur hann varla beðið eftir að klára næsta vor og komast aftur í fleiri krefjandi ferðir.
Smá tíma tók að þramma á skíðunum upp að Jöklaseli sem var enn í talverðum vetrarbúning og engin starfsemi hafin í skálanum, ferðaþjónustan notast við leið neðar í jöklinum meðan svo mikill vetur er þarna uppi.

Við skálann er jökulröndin og tókum við pásu þar og settum okkur í línur. Þaðan er gengið upp Skálafellsjökulinn fyrir fyrstu tindanna og um 4km leið að Birnudalstindinum sjálfum. Undir honum er skarð sem hægt er að skjóta sér yfir í dalinn suðaustan við tindinn.
Í þessu gili voru skinn og broddar teknir af skíðunum og smá nestispása tekin. Talsverð norðanátt var ríkjandi og skóf dáldið vel inn skarðið þar sem það sneri alveg norður-suður á meðan skjól var þegar komið var fyrir hornið sunnanvert tindinum.
Eftir smá pásu og gott útsýni yfir Birnudalinn sem átti að skíða var skíðað þvert yfir nokkuð bratta brekku undir tindinum sjálfum út á hrygg sem leiðir í suðaustur, þar voru skíðin tekin af og settir á mannbroddar til að þramma upp hjarnið upp á tindinn sjálfann sem var rétt fyrir ofan okkur.

Á tindinum var flott útsýni yfir Kálfafellsdalinn, en tindurinn liggur einmitt á hryggnum sem skilur að Skálafellsjökulinn og Kálfafellsdalinn að austanverðu.
Á toppnum var tekin góð pása, margar myndir teknar, spjallað og spáð í nærliggjandi fjöllum. Eftir að allir voru komnir með fiðring í magann með að fá að skíða niður var lagt af stað niður brekkuna og niður í Birnudalinn. Í leiðinni pakkaði Gummi niður myndavélinni þar sem hann er ekki orðinn nógu góður á skíðum til að þora að vera með vélina lausa framan á sér og vantar því alveg myndir af skíðuninni. Hinsvegar bætti Óli upp fyrir það og má sjá flottar myndir á www.fifl.is

Við skíðuðum alveg niður að snjórönd í um 200m hæð myndi ég giska á. Þaðan gengum við niður í nokkra bíla sem voru skildir eftir

Leiðin niður var skemmtilega fjölbreytt, fyrsti og lengsti hlutinn var frekar hart færi en þegar neðar dró mýktist færið talsvert og var á endanum orðið ansi blautt og djúpt. Þar kom reynsluleysi Gumma á skíðum vel í ljós en það var gaman að prófa þetta aðeins.
Daginn eftir var keyrt í bæinn og var komið við og farið í stutt rölt meðfram Fjarðárgljúfri að austanverðu þar sem voru skoðaðir sögufrægir staðir Justin Biebers og fylgst með sundspretti tveggja aðila innst í gljúfrinu.

Myndir