Hafragrautnum (punktlendinga- og búningakeppni íslenskra svifvængjaflugmanna) var að ljúka í Hafrafelli. Nóg var eftir af deginum og ekkert plan komið fyrir næsta dag. Arnar tróð símanum í vasan eftir að hafa skoðað veðurspánna og snéri sér að Bjartmari og Óðni sem voru að berjast við mýið á lendingarsvæðinu og spurði þá álits. Góð spá var fyrir landið og því úr nægu að velja. Menn klæjaði í fingurna að fara eitthvað stórt og í skyndi var ákveðið að bruna austur í Skaftafell og freista þess að gera eitthvað spennandi.

Á leiðinni var mikið spáð í hvernig best væri að nýta daginn. Hægur vindur var á svæðinu og ákveðið var að reyna að fljúga af Hnúknum. Við komum að Sandfellinu rétt eftir miðnætti og eftir smá kaffi og með því var gengið af stað. Arnar var eitthvað æstur að koma sér upp og setti hraðan stíganda í byrjun og brunuðum við upp á leið. Geggjað veður var yfir nóttina og menn mjög bjartsýnir á að það myndi ganga upp að fljúga ofan af toppnum. Þegar við vorum að koma upp á sléttuna tókum við þó eftir að mörg ský voru farin að myndast á láglendinu og líklegt að þetta myndi lokast fljótlega. Hnjúkurinn blasti við hinum meginn við sléttuna og kallaði til okkar. Við ákváðum að freista þess að ná upp áður en þetta myndi lokast og fjúga niður. Þegar við vorum komnir langleiðina upp á Hnúkinn sjálfan sáum við að skýinn höfðu algjörlega lokast yfir láglendinu og yrðum við því að fljúga inn í skýin ef við ætluðum þá leiðina niður. Þreyttir eftir hraða göngu upp tókum við vængina upp úr bakpokanum á toppnum og stefndum á að fljúga á vit ævintýranna niður Virkisjökulinn. Fljótt varð okkur ljóst eftir að hafa slegist aðeins við vængina á toppnum, fullir af fluggreddu að þar væri orðið of hvasst og efri skýjalögin voru byrjuð að byrgja sýn svo betra var að taka skynsemina á þetta. Því pökkuðum við niður vængjunum og lögðum af stað niður, í leit að betri stað til að fljúga af. Ekki gekk það, kannski sem betur fer þar sem þreytan var klárlega að spila með dómsgreindina og var því ákveðið að nóg væri nóg og niður skyldum við halda.

Einhvern veginn er bakaleiðin alltaf lengri þegar gengið er á svona stór fjöll og leið tíminn hægt á leiðinni niður í algjöru whiteouti. Þegar við vorum komnir langleiðina niður snjóbrekkuna löngu birti aðeins til og var tekin sú ákvörðun að reyna að fljúga þaðan og lenda aðeins neðar. Vindurinn var ekki beint hagstæður og náðu Arnar og Bjartmar ekki á flug en Óðinn einhvernveginn skoppaði á loft. Jökullinn var óvenju sprunginn og leist Óðni ekkert á að lenda þar í miðri hlíðinni og tók stefnuna að það sem hann hélt að væri Sandfellsleiðin, en stundum er erfitt að átta sig á hlutunum úr lofti og fór hann of mikið til suðurs þar sem hann flaug inn í ský. Nokkrum óþægilegum andartökum síðar fann hann glufu í skýjunum og lenti á fyrsta stað sem hann fann. Reyndist það vera hátt upp í brattri hlíð og eftir smá ævintýri á leiðinni niður komst hann loksins að þjóðveginum. Á sama tíma gengu Bjartmar og Arnar niður í gegnum skýin sem reyndist mun betri ákvörðun.

Efst uppí dalnum fyrir ofan Sandfellið var skýjalaust og fínn hægur andvari beint upp hlíðina. Þar sem að ganga alla leið niður var ekki fýsilegur valkostur tóku Arnar og Bjartmar á loft og flugu síðustu metrana niður að bílnum og lentu þar. Eftir smá hvíld var farið að leita af Óðni og fannst hann á gangi meðfram þjóveginum aðeins sunnar. Skrautlegur og ævintýra mikill dagur á fjöllum sem reyndist mjög lærdómsríkur um hvað skal gera og hvað skal ekki gera.

Myndir

Bjartmar í góðum gír
Matarpása
Flott útsýni
Komnir af stað upp snjóbrekkuna löngu
Veðrið var frábært
Nálgumst sléttuna
Mjög mikið var um sprungur þennan dag
Á sléttunni
Hnjúkurinn alveg mega sprunginn
Bjartmar hnikklar vöðvanna, en hvað er Arnar að gera?
Loka metrarnir
Skýjateppið komið neðst
Bjartmar kemur inn til lendingar
Bjartmar