Það hefur verið nokkuð ljóst hvert við vorum að stefna með svifvængjaflugið sem hófst með því að við prófðum að vera farþegar í tandem flugi á hvíldardegi okkar í frönsku ölpunum sumarið 2013. Vorið eftir vorum við komnir á námskeið hér á Íslandi og höfum við flogið talsvert til að ná okkur í reynslu síðan. Um síðastliðin jól var flogið af Skessuhorni, nú var loks komið að því að taka vænginn með í klettaklifurferð og fljúga svo niður í bíl á eftir!

Því miður var Óðinn upptekinn í öðru en Arnar, Bjartmar og Gummi ákváðu þegar spáin sýndi mjög væga sunnanátt og nánast áttleysu kringum höfuðborgina að skella sér í slíka ferð og hvaða leið er meira viðeigandi að maður nennir ekki að labba niður en Heljaregg?

Við lögðum reyndar af stað heldur seint, og byrjuðum ekki að klifra fyrren uppúr kl. 14 og gekk klifrið ágætlega. Mikill hiti var í upphafi dags og voru ský efst í klettunum sem við vorum vissir um að myndu hverfa þegar liði á daginn.
Útsýnið úr leiðinni er líka skemmtilegt yfir þjóðveginn, Kjalarnes og Höfuðborgarsvæðið í heild sinni og hurfu skýin fljótlega þegar komið var upp í leiðina.

Settir voru boltar í leiðina fyrir nokkru síðan sem gerir klifrið þægilegra þar sem boltar eru á nokkrum illtryggjanlegum stöðum en við notuðum líka nokkra vini og hnetur til að tryggja í. Nokkur sling eru í boltunum sem hafa etv. verið notuð til að síga niður einhverntíman, okkur datt í hug að skera þau niður en ákváðum að gera það ekki, en hættulegt getur verið að treysta á gamalt dót sem hefur legið úti lengi.

Klifrið tekur sinn tíma, sérstaklega þegar 3 eru að klifra og mynda og tala nú ekki um aðeins þyngri bakpoka þegar hann inniheldur eitt stykki væng til að fljúga niður í. Þetta væri samt ekki hægt nema með sérstökum lightweight/mountain vængjum sem eru á bilinu 2,5-3,5 kg eftir stærð og eiginleikum.
Skyndilega í miðju klifri birtist Óðinn fljúgandi úti fyrir klettunum, hann þurfti ekki að mæta á hinn staðinn alveg strax og ákvað að kíkja á okkur og náði nokkrum loftmyndum af okkur í leiðinni sem var algjör snilld.

Eins og fyrr sagði vorum við heldur seinir og þegar við vorum að koma á turninn í leiðinni, þar sem þarf að síga niður og klifra ~2 spannir í viðbót byrjaði að þykkna upp á okkur.
Við héldum áfram og vorum komnir upp á topp um kl. 20. Þá var komin þoka og gátum við því ekki tekið á loft á brúninni fyrir ofan leiðina eins og ætlunin var. Því þurftum við að ganga áleiðis niður þar sem við sáum niður úr skýjunum og finna þar góðan aftökustað.
Við þrömmuðum af stað þar sem einnig var farið að rökkva dáldið á okkur og vildum við helst ekki lenda í myrkri. Áköfin var svo mikil að við gengum heldur langt framhjá gilinu sem farið er niður sem tafði okkur dáldið og þurftum við að ganga til baka í rétt gil í þokunni.
Þegar komið var í rétt gil lækkuðum við okkur aðeins og skyndilega sáum við niður á þjóðveg, þá vorum við ekki lengi að rífa upp vængina, finna skásta staðinn í öllu grjótinu og reyna að skvera okkur í loftið.

Í gilinu er brak af rauðu fjórhjóli sem hefur greinilega fengið að finna fyrir því og liggur í lækjarfarveginum. Við þennan stað tókum við í loft og var farið að rökkva hressilega sem varð til þess að ekki náðust myndir af fluginu niður. Þó svo að það hafi verið kveikt á gopro vélinni var allt svart á myndinni.
Bjartmar var fyrstur í loftið, svo Addi og loks Gummi eftir að hafa lent í leiðinum við grýttan jarðveginn í gilinu í smá stund. Við lentum við bílinn og vorum fljótir að keyra í bæinn þar sem klukkan var orðin rúmlega 22 og eiginlega bara komið myrkur.

Þetta gekk mjög vel en það þarf að reikna með dálitlum auka tíma í að klifra með stærri og þyngri bakpoka en vanalega fyrir utan hvað þetta er veðurháð, það getur vel gerst að maður þurfti að ganga aftur niður með aukakílóin!

Myndir

Gengið af stað í góðu veðri
Heljareggin er áberandi hryggurinn
Labbi labb
Fyrsta bröltið að byrjun klifursins
Arnar
Gummi virðir fyrir sér útsýnið
Bjarmar
Arnar í fyrstu spönn
Bjartmar kemur upp fyrstu spönn
Bjartmar
Nei, hvað birtist þarna?
Óðinn mættur á vængnum en hvarf svo
Gummi kemur uppí fyrsta stans
Gummi
Bjartmar fylgir í kjölfarið
Gummi lagður af stað í aðra spönn
Flott umhverfi
Óðinn mættur aftur, kominn mun hærra!
Óðinn flýgur yfir okkur
Óðinn
Heljaregginn séð úr lofti
Önnur spönn úr lofti
Frá hinni hliðinni
Frá miðju
Arnar og Bjartmar í fyrsta stans
Vesturbrúnir Esju
Bjartmar í annari spönn
Enn ungar útum allt
Kósí í stans tvö
Arnar í spönn þrjú
Gummi tryggir
Horft niður spönn þrjú
Gummi
Bjartmar nálgast krúxið í þriðju spönn
Gummi klárar þriðju spönn
Bjartmar í krúxinu
Bjartmar
Sælir með spönn þrjú
Arnar tryggir
Gummi í spönn fjögur
Gummi
Arnar klárar fjórðu spönn, Gummi tryggir
Bjartmar á toppi turnsins
Gummi að klára turninn, Arnar tryggir
Gummi
Arnar bendir Bjartmar á síðustu tvær spannirnar
Arnar sígur niður turninn
When in doubt, strike a pose
Bjartmar sígur niður turninn
Gummi byrjar sjöttu spönn, Arnar tryggir
Bjartmar í krúxinu í sjöttu spönn
Gummi tryggir Arnar upp síðustu spönn