Gummi dróg Arnar með sér í árlegu Skessuhornsferðina í dag, þriðjudaginn 3. janúar 2017. Þessari reglu Gumma að fara á Skessuhornið öll jól hefur nú verið framfylgt 8. árið í röð!

Veðurspáin fyrir daginn var svo góð að við tókum frí í vinnunni og tókum með okkur vængina til að geta tekið flug af toppnum niður í bíl. Vindurinn átti að ná lágmarki um kl. 15 og þá væri upplagt að taka á loft.
Klifrið gekk bara ágætlega, fórum rólega upp heiðina sem var í þægilegum aðstæðum núna þar sem frosið grasið og harðfenni skipti með sér svæðum. En þegar Arnar hafði orð á því að það væri svo lítill snjór hafði hann varla sleppt orðinu þegar hann pompaði niður í gegnum eina skaflinn innan 10m radíus og lenti með annan fótinn í vatni. Það kom þó ekki að sök og vorum við komnir upp á öxlina undir hryggnum kl. 12 og tókum þar hádegismat samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna.

Hryggurinn sjálfur var í dáldið skemmtilegum aðstæðum þessi jól, þunnur klaki og ísing yfir nánast öllu og allur snjór frosinn þó að á stöku stað var bara púður undir skelinni og brotnuðu sumsstaðar upp matardiskar (e. dinner plates) sem er ekki gaman að fá í smettið þegar maður eltir upp leiðina. Mikið var notaður frosinn mosi til að klifra í, en hann getur verið alveg ótrúlega þægilegur. Það er mjög misjafnt hvað það eru þægilegar aðstæður á jólunum í þessari leið, en því minni snjór/ís þá verður þetta erfiðara. Þessi jól voru dáldið yfir meðallagi hvað þægilegheit varðar en lang þægilegast er að fara þetta kringum apríl þegar nægur snjór er yfir öllu svo maður sér vart klettanna.
Við slepptum alveg að taka með línur og belti þar sem við erum farnir að þekkja leiðina ágætlega eftir allar þessar ferðir og nokkuð vanir. Þetta sparaði einnig vigt þar sem við vorum jú einnig með sitthvora flugvélina á bakinu. Svona alpavængur er þó ekki nema 2-3,5 Kg að þyngd, en það munar samt um að spara línur og belti.

Við náðum toppnum um kl. 14 eftir þægilegt brölt upp ísilögð klettahöftin og fórum strax að skoða vindaðstæður til að finna góðan aftökustað þar sem við vorum staðráðnir í að losna alveg við niðurganginn.
Það var svolítill strekkingur upp norðurvegginn þegar við komum upp á topp og fórum við að ganga aðeins inn á hrygginn þangað til hann fer að lækka og fundum við einn stað þar með mjög sléttum snjó og léttri golu. Við gengum aðeins um og fundum að það var mestmegnis rótor vindur frá hinni brúninni sem var að heilsa upp á okkur en hann var það veikur að hann ætti a.m.k. ekki að hindra okkur í að komast í loftið, sérstaklega þar sem frekar bratt er af fjallinu í báðar áttir og því smá svigrúm til að taka smá sink eftir takeoff.

Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir hjá Gumma við að koma vængnum almennilega í loftið vegna vindlesis og rotors náði Arnar að komast í loftið og flaug af stað niður í vesturátt, beygði svo hjá Skessuhorninu og alveg niður að bíl.
Þar sem vindurinn var ekki samstarfsfús fór Gummi aftur þessa 50m upp á toppinn og þar var komið mun skaplegri vindur. Þar náði hann strax í loftið og flaug austan megin fram af tindinum. Á leiðinni reyndi hann að taka nokkrar myndir af norðurveggnum sem vantar talsvert upp á svo hann sé í ísaðstæðum. Fljótlega fór að fara í taugarnar á honum hvað vængurinn virtist vera vinstrisinnaður og tók eftir að vinstri vængendinn var flæktur í línu sem orsakaði það. Ekki dugaði að kippa í línurnar né bremsurnar og ákvað hann að athafnast ekki frekar til að missa ekki hæðina heldur fljúga bara eins langt niður að bíl og hann gat. Hann lenti svo rétt við hestagirðinguna og þurfti að ganga í heilar 10 mínútur (mesti tíminn fór þó í að hanga í símanum til að láta alheim vita strax).

Þetta er ansi þægilegur ferðamáti við að komast niður af fjöllum. Það að sleppa við 2 klst. niðurgang með að bera um 3 kg svifvæng er alveg þess virði (ef maður er svo heppinn að fá veður).

Myndir

Skessuhorn í dögun
Skessuhorn
Arnar
Enn hvasst um morguninn
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar
Arnar klifrar
Arnar
Ísaxir
Arnar
Heiðarhorn
Rauðahnúkafjall og Hafnarfjall
Norðurveggurinn og Heiðarhorn
Addi að kíkja upp
Á toppi Skessuhorns, horft á Skarðshorn og Heiðarhorn
Arnar
Gummi fékk eina mynd af sér
Norðurveggurinn úr lofti
Lappirnar á Gumma
Önnur loftmynd af horninu
Vængurinn hans Gumma á flugi, sést í brotið vinstra megin
Loka loftmyndin
Kvöldroðinn kominn