Það er fátt betra en að flýja íslenska haustveðrið og leita uppi sól og ævintýri á fjarlægum slóðum. Það var einmitt raunin hjá mér(Óðni) og fimm öðrum íslenskum svifængjaflugmönnum núna í október og nóvember. Ferðinni var heitið í Himalayafjöllin, fyrst þau indversku og síðar þau nepölsku.

Það er ekki þrautalaust að leggja í svona ferðalag en 2 úr hópnum lentu í að vera vísað frá flugi til Indlands vegna klúðri með vegabréfsáritanir og annar úr hópnum fékk ekki farangurinn sinn sem var sendur aftur heim til Íslands og komst ekki til skila fyrr en rúmri viku seinna. Flugævintýrið byrjaði því fyrr fyrir þá sem komust þrautalaust til Indlands.

Umferðin á Indlandi

Tveir úr hópnum höfðu farið viku á undan út og voru búnnir að hita upp fyrir komu hinna með því að fljúga um, skoða svæðið og taka frá gistingu. Við nutum góðs af því að hafa þá á svæðinu því þeim tókst að finna bílstjóra til að pikka okkur upp í Delí sem sparaði okkur langa bið í menguninni sem umlykur borgina. En þetta reyndist vera ein svakalegasta upplifnu ferðarinnar. Rúmum 600 kílómetrum og 12 tímum síðar mættum við á áfangastað ánægðir með að vera í heilu lagi eftir ringulreið og hætturnar sem fylgja því að keyra um á vegum Indlands. Mikil umferð, hraðakstur, Þröngir vegir og framúrakstur með dýr og fólk á alla vegu er ekki fyrir hjartveika.

Áfangastaðurinn í Indlandi heitir Bir og er hálfgerð Mekka svifvængjaflugmanna. Bærinn er lítill á indverskan mælikvarða eða um 10 þúsund manns og þar af margir tíbeskir munkar sem halda til á svæðinu en það var gert að friðlendu snemma á sjöunda áratugnum eftir útlegð Dalai Lama og annara frá Tíbet.

Heita uppsprettan

Daginn eftir komumst við að því að lofthelginni hafði verið lokað vegna komu forsætisráðherra Indlands á svæðið og því varð fyrsta flugið að bíða og úr varð að fara í könnunarleiðangur upp í fjöllin og leita uppi heita fjallalaug sem við höfðum heyrt af. Við fengum bílstjóra úr bænnum til að keyra okkur áleiðis gegnum skóginn og upp áhugaverðan fjallaslóða. Við tók svo um klukkutíma gangur lengra upp í fjöllin þar sem við blasti svo fallegur dalur með hlaðinni laug og heitri á sem hægt var að baða sig í. Þetta kom okkur öllum á óvart enda ekki að búast við svona baðstað í yfir 2000 metra hæð í Himalayafjöllunum.

Seinna um kvöldið hittum við svo óvænt fylgdarlið forsætisráðherrans á hótelinu og voru þeir mjög áhugasamir að skála með okkur og spyrja okkur spjörunum úr hvað við værum að þvælast hérna upp í fjöllunum. Eftir þessa samkomu vorum við komnir með sambönd langt inn í leyniþjónustu Indlands og vorum vel settir ef við þyrftum að losna úr vandræðum seinna meir.

Flogið með Þorra

Morguninn eftir var svo lofthelgin aftur opin og ekki annað að gera en að gíra sig upp í fyrsta flugið á svæðinu. Við höfðum verið að grínast með það kvöldið áður að taka strax almennilegt langflug og ná að fljúga okkar fyrsta 100 km flug. Við vorum fullir fluggreddu og fljótlega eftir að við tókum á loft var stefnan strax sett á Dharamsala sem er í rúmlega 45 km fjarlægð frá Bir. Ég áttaði mig ekki alveg á þessu strax og dróst því aftur úr hinum en ákvað að láta slag standa og fylgja á eftir. Ekki óraði mann fyrir að 5 tímum síðar vorum við allir búnnir að bæta langflugsmetin okkar. Ég fór um 84 km sem var rúmlega helmingi lengra en mitt fyrra met en hinir fóru allir rétt yfir 100 km sem er stór þröskuldur í svifvængjafluginu og var því við hæfi að taka góða skál um kvöldið og fagna góðri byrjun á flugævintýrinu.

Fluggreddan var ekki eins mikil næstu daga en þó skelltum við í eitt 65 km flug daginn eftir sem á venjulegum degi hefði þótt ansi gott en eftir árangur fyrra flugs var þetta skref niður á við. Engu að síður frábært flug þrátt fyrir eina brotlendingu í okkar hópi sem fór betur en á horfðist þegar hann missti stjórn á vængnum lágt yfir fjallahrygg og kastaði varafallhlíf sem náði ekki að opnast í tæka tíð. Eftir að hann lét vita í talstöðinni að hann væri í lagi og fólk af næstu bæjum myndi hjálpa honum að komast til byggða var ákveðið að hittast aftur í Bir. Seinna um kvöldið var farið yfir áfall dagsins og reynt að draga lærdóm af þeirri reynslu. Menn flugu svo mismikið og mislangt næstu daga, sem betur fer áfallalaust að frátöldum nokkrum samföllum á svifvængjum sem er ekki ýkja óeðlilegt í þessu sporti og yfirleitt hættulaust ef menn bregðast rétt við.

Skýjabotnar

Næsti stóri áfangi var að ná hæðarmeti en þann daginn var ákveðið að fara í samfloti með reyndum Svisslendingi yfir í hærri fjöllin bakvið aðalfjallahryggin sem flestir fljúga eftir. Það getur verið snúið að komast aftur til baka úr svona flugi og því gott að fara með reyndari mönnum. Farið var snemma af stað þegar aðstæður voru frekar daufar og krefjandi, því náðu aðeins tveir úr hópnum að vinna sig nægjanlega vel upp til að taka stökkið yfir í stóru fjöllin og náðu hæðst að fara upp í 4800 metra hæð.

Flugin hrönnuðust upp og menn tóku vart út vængina fyrir minna en tveggja tíma flug en undir lokinn var ég farinn að finna gredduna til að komast í 100 km klúbbinn og á seinasta flugdeginum í Indlandi setti ég mér það sem lokatakmark ferðarinnar. Hinir strákarnir ætluðu að slá til og fljúga með mér en það grynnti aðeins á hópnum og á endanum vorum við tveir sem héldum þessu markmiði til streitu. Þetta gekk nánast eins og í sögu fyrir utan að pissublaðran mín var farin að kvarta eftir rúman klukkutíma í loftinu. Eftir því sem tíminn leið þá fóru óþægindin að aukast en þetta var seinasti séns og því var ekki annað í stöðunni en að þrauka þetta eða pissa í buxurnar. Seinustu metrarnir voru sársaukafullir og hver beygja þrýsti á þvagblöðruna, það var því mikil ánægja þegar maður sá á flugtækinu að 100 kílómetramúrinn væri rofinn og maður gæti drifið sig inn til lendingar. Ég hef eflaust sett heimsmet í að rífa af mér flugbúnaðinn eftir lendingu og drífa félagann út til að vökva blómin en rúmum 10 mínútum og 20 lítrum síðar gat maður fyllilega tekið að brosa á ný.

Stórum markmiðum hafði verið náð og því var ekki annað eftir en að kveðja Bir og búa sig undir næsta áfangastað, Nepal. Nánar um það í næstu grein.

Myndir

Gatan okkar í Bir
Umferðarteppa
Fjárhundurinn að reyna að vinna vinnuna sína
Dóri
Bílstjórinn fór með okkur að náttúrulauginni.
Frá vinstri, Óðinn, Gísli, Dóri og Þorri
Á leiðinni upp fjallið
Náttúrulaugin í yfir 2000 metra hæð
Áin var mjög passleg
Dalurinn sem við gengum eftir
Gísli
Sólsetrið yfir dalnum
Á leiðinni niður
Að nálgast flatlendið
Að meta aðstæður fyrir fyrsta flug
Komnir af stað í fyrsta langflugið
Ánægður með aðstæður
Eðal flugaðstæður þarna
Aðalgatan í Bir
Ekki oft sem maður sér ofan á Þorra
Þorri
Flogið meðfram flottum fjallahryggjum
Fjallahryggir út í eitt
Dóri
Dóri á skjaldbökuvængnum sínum
Dóri og Þorri
Við urðum að prófa indverskan rakstur
Eitt af hofunum í Bir
Choukling Monastery
Enn einn flugdagur
Bir
Slakað á eftir flug
Dóri og Þorri
Stóru kallanir að spjalla saman
Útsýnið bakvið megin fjallahrygginn
kanski ekki svo sjaldgæf sjón :p
En hratt flýgur hann
Fallegt útsýni
Þorri í essinu sínu
Fengum sérbakað Apfelstrudel
Spjallað á aðalgötunni
Margmenni yfir takeoff
Dóri
Palpung Sherabling Monastery
Skordýrin laðast að litskrúðugum vængnum
Mikið af öpum þarna í skógunum
Prayer flags
Bara að skoða útsýnið