Eftir vel heppnaða dvöl þeirra sem komust klakklaust til Indlands var stefnan sett til Pokhara í Nepal. Það var ekki beinlínis bein leið á áfangastaðinn en framundan var tveggja tíma akstur upp á flugvöllinn í Dharamshala, flug með millilendingu í Delí til Kathmandu þar sem við myndum gistum yfir nótt og svo flug þaðan til Pokhara daginn eftir. Bjartmar hafði reyndar farið kvöldið áður til Delí með næturrútu til að freista þess að ná að innleysa farangurinn sinn úr tollinum eftir mikið streð seinustu daga gegn skriffinsku indverska tollsins.

Samskipti í loftinu án talstöðva

Fluginu okkar frá Dharamshala seinkaði aðeins og því vorum við örlítið á eftir áætlun en töldum að við hefðum nægan tíma til að koma okkur í næsta flug. Þegar við lentum í Delí fengum við þær góðu fréttir að Bjartmar hafði loksins fengið farangurinn sinn eftir rúma viku af pappírsvinnu og óteljandi símtölum og hann var einnig búinn að innrita sig í næsta flug. En á móti góðu fréttunum fengum við þær upplýsingar að við þyrftum að drífa okkur af innanlandsflugvellinum og yfir á alþjóðlega flugvöllinn því við værum að renna út á tíma með að innrita okkur inn í flugið. Í snarreysti hoppuðum við upp í næsta leigubíl sem leit reyndar meira út eins og sardínudós á hjólum en hann rúmaði okkur alla svo við kvörtuðum ekki. Skrjóðurinn þurfti reyndar að stoppa á leiðinni til að bæta lofti í dekkin, okkur til lítillar ánægju en við komumst þó á réttan stað á endanum. Við hlupum eins og við gátum að innrituninni til þess eins að komast að því að við vorum 10 mínútum of seinir, það var búið að loka innrituninni fyrir flugið okkar.

Það var ekki mikla samúð að fá frá flugvallarstarfsmönnunum en orðið "sveigjanleiki" er líklega ekki til í þeirra orðaforða. Við fórum því strax í það að reyna að bóka nýtt flug sem reyndist hægara sagt en gert. Öll flug sem hefðu mögulega getað gagnast okkur voru uppbókuð næstu tvo daga enda mikill ferðahugur í Indverjum þessa dagana vegna svokallaðrar Diwali hátíðar þar sem fjölskyldur sameinast í hátíðarhöldum stærstu trúarhátíðar Hindúismans. Þetta var farið að líta illa út og vorum við meira að segja farnir að skoða ansi vafasamar leiðir til að komast hjá því að dvelja lengur en okkur langaði í Delí en hugmyndir eins og að keyra þangað voru alvarlega ígrundaðar. Það var fegins glampi í augunum á Þorra þegar hann kvaddi okkur, feginn að vera laus við þessa vitleysu en hann hafði öðrum skyldum að gegna og var ekki á leiðinni til Nepal.

Hans og Óðinn við Græna vegginn

Það var ekki fyrr en við töluðum við nepalskt flugfélag á vellinum að vonir okkar jukust um að komast úr dellunni í Delí en okkur var tjáð að þeir gætu skráð okkur á biðlista á fullbókuðu flugi til Kathmandu. Við hefðum líklega verið tilbúnnir til að selja sál ófæddra barna okkar fyrir sæti um borð en sem betur fer kom ekki til þess en biðin borgaði sig. Stuttu fyrir brottför gátum við tekið að brosa á ný þegar okkur var tilkynnt að það yrðu laus sæti fyrir okkur.

Seinna um kvöldið í Kathmandu gátum við loksins skolað niður stressi dagsins með ísköldum Everest bjór og góðri steik á einu af betri hótelum borgarinnar. Flugið til Pokhara daginn eftir gekk svo þrautalaust fyrir sig og loksins vorum við komnir á leiðarenda. Við fengum hlýjar móttökur frá Hansa og Elsu sem höfðu misst af Indlandsævintýrinu vegna klúðurs með vegabréfsáritun en höfðu þess í stað tekið forskot á dvölina í Nepal enda talsvert einfaldari vegabréfsmálin þar. Þau höfðu fundið þetta fína hótel fyrir okkur í hlíðunum fyrir ofan bæinn og við drifum okkur í því að henda dótinu inn á herbergin og draga út vængina. Við vorum snemma á ferðinni svo við höfðum enn tíma til að skoða svæðið úr háloftunum.

Þetta var margt um ólíkt indversku fjöllunum en aðstæðurnar þarna voru talsvert erfiðari til langflugs en við létum það ekki stoppa okkur og héldum strax af stað út í óvissuna með Hansa í fararbroddi sem þekkti svæðið vel enda ekki í fyrsta sinn á þessum stað. Við fylgdum meðvindinum eftir fjallshryggnum til vesturs frá Sarangkot þar sem við fórum í loftið sem gekk vel þangað til við snerum við til að halda til baka. Mótvindurinn tók vel í og reyndist erfitt að fljúga aftur til Pokhara, endaði þetta því með að lenda á ókunnugum slóðum inn í dal sem liggur frá bænnum. Eins og við var að búast á þessu svæði þá komu krakkarnir á nærliggjandi bæum hlaupandi til að skoða þennan framandi flugmann. Eftir að þeir höfðu svalað forvitni sinni gat maður haldið af stað fótgangandi til Pokhara. Veðrið var með besta móti og ákvað ég að ganga af stað og skoða dalinn í staðinn fyrir að bíða eftir næstu rútu en rúmum 10 km og 3 tímum síðar var maður aftur kominn upp á hótel ánægður með daginn.

Umhverfis Pokhara

Næstu daga var helsta markmiðið að fljúga að Greenwall og til baka sem er rúmlega 25 km hringur frá Sarangkot til norðurs. Á þessum tíma árs þegar flugaðstæður eru hinar rólegustu þá getur þetta verið talsvert krefjandi. Hans leiðbeindi okkur eins og hann gat en þrátt fyrir hvað þetta leit auðveldlega út fyrir hann þá áttum við allir í basli og þurftum mismargar tilraunir til að ná þessu. Manni leiddist hins vegar ekkert að taka slaginn þó svo það gæti endað með lendingu á fjarlægum slóðum enda ákveðið ævintýri að ferðast til baka. Ég hafði þetta svo í annari tilraun og úr varð eitt eftirminnilegasta flugið þarna enda fátt skemmtilegra en að ná settum markmiðum.

Eitt af þeim markmiðum sem ég hafði mikinn áhuga á að ná var að komast upp til Korchon annað hvort með jeppum áleiðis og ganga restina eða með þyrlu. Það hefði verið ævintýri að gista í 3200 metra hæð og fljúga svo með svifvængjunum til baka daginn eftir. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til að fá utanaðkomandi aðila til að koma okkur upp eftir þá var tíminn of naumur til að græja svoleiðis ferðalag en það gefur manni bara ástæðu til að koma aftur seinna.

Dagarnir liðu og menn flugu mismikið enda farið að nálgast heimferð aftur á klakan og ekki laust við að fluggreddan væri farin að breytast í flugþreytu. Það var hinsvegar margt í boði annað en flug enda mikill túrismi á svæðinu og miðbærinn iðaði af lífi. Það leiddist engum að fara á miðbæjarrölt, versla, borða góðan mat og fylgjast með mannlífinu en heimamenn voru duglegir að fagna og dansa í tilefni Diwali hátíðarinnar. Þá voru vespurnar sem við vorum með á leigu vel nýttar, t.d. til að keyra upp að friðarhofinu rétt utan við bæinn.

Lending í uppsiglingu

Svona til að setja punktinn yfir i'ið þá komumst við að því seinasta daginn að vinur okkar, forsætisráðherra Indlands væri að koma í heimsókn og því var búið að aflýsa öllu innanlandsflugi eins og við fengum að kynnast í Indlandi. Sem betur fór höfðum við nægan tíma til að redda okkur bílstjóra til að keyra okkur til Kathmandu. Þetta reyndist rúmlega 8 klukkutíma bílferð í staðin fyrir rúmar 45 mínútur í flugvél en það sem skipti mestu var að við komumst á áfangastað og gátum slappað af seinast kvöldið í höfuðborginni. Restin gekk svo snuðrulaust fyrir sig og fyrr en var vorum við komnir heim í rigninguna alsælir með góða ferð í minnisbankanum.

Myndir

Komnir á flugvöllinn í Pokhara
Frumstætt farangursbelti
Á leiðinni af flugvellinum
Flott útsýni frá hótelinu
Drifum okkur af stað til að fljúga
Hans, Dóri og Gísli
Bakkabræður
Komir í loftið
Fylgdum fjallahryggnum frá Sarangkot
Á leiðinni til baka
Sjaldgæft sjónarhorn á Hansa
Dalurinn þar sem ég lenti
Forvitnir krakkar
Gekk eftir dalnum til Pokhara
Hitti fleiri krakka á leiðinni
Fallegur dalur
Krakkarnir alltaf jafn forvitnir
Gera okkur til fyrir næsta flug
Flogið frá Sarangkot
Dalurinn undir Green Wall
Ég og Bjartmar lentum saman í dalnum
Bjartmar að hugsa um ættleiðingu
Yfir Sarangkot
Hans
Fylgi fast á eftir Hansa
Machapuchare eða Fishtail, bakvið skýin
Flottir dalir
Ég og Hans að fljúga frá Green Wall
Útsýnið á leiðinni aftur til Pokhara
Gott glide til baka
Hansi langt á undan
Alveg að komast til baka
Lendingarsvæðið við vatnið
Friðarhofið
Þessi var atvinnumaður í að pakka vængjum
Útsýnið inn dalinn
Það voru danssýningar út um allt
Þetta var á hótelinu okkar
Annapurna fjallgarðurinn í fjarska
Flott útsýni frá friðarhofinu
Veitt við vatnið
Flott vatn við bæinn
Allir tilbúnnir í flug
Flogið meða Annapurna í baksýn
Bjartmar yfir Sarangkot
Machapuchare
Seinasta flugið