Gummi ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum Neyðarlínunnar ásamt fylgifiskum gekk Laugaveginn 27.-29. júlí. Farið var með rútu frá Hellu daginn fyrir og gist í Landmannalaugum til að geta byrjað að ganga strax um morguninn.
Kvöldið áður fóru hinsvegar Gummi og Einar Valur upp á Bláhnúk í algjöru logni að taka myndir og kanna með flugaðstæður. Hlýtt og gott var þarna uppi og fátt fólk þar sem kominn var kvöldmatartími. Gummi tók nokkrar loftmyndir og fékk svo Einar til að hjálpa sér í loftið á vængnum þar sem enginn vindur var til að blása hann upp.
Bláhnjúkur er ekkert sérstaklega góður aftökustaður þar sem mjög grýtt er þarna uppi ásamt því að þetta er dáldið mikill hryggur frá austri til vesturs. Af og til komu smá gustir úr ýmsum áttum og náði Gummi að grípa einn slíkan í 2. tilraun þegar hann kom frá norðri til að fljúga niður á tjaldsvæðið.

Eftir góða kvöldgöngu og kvöldflug hitti Gummi Halla bróður sinn og aðra félaga sem voru á hálendisvakt, nýkominn af Heklu og búinn að sækja sjúkling upp að Brennisteinsöldu. Þar var spjallað og hlaðin batterý til að geta tekið meira efni á leiðinni.
Svefninn var góður og var lagt af stað um kl. 9.

Fyrsta daginn var gengið niður í Álftavatn í gegnum Hrafntinnuskerið, til að komast í betra tjaldsvæði, einnig sem kalt var þennan dag í Skerinu og sáust nokkur snjókorn.
Í Álftavatni var talsverður vindur og var því ákveðið að gista inni þessa nótt. Loftið hefði trúlegast verið betra í tjaldinu, en að þurfa ekki að tjalda í þessu roki var samt ansi þægilegt og voru því allir saman í skála.

Næsta dag var farið smá afbrigði af leiðinni, en í stað þess að þramma yfir sandinn var haldið áfram meðfram Álftavatni austanverðu, fram hjá Torfavatni og þar yfir hálsinn í átt suðurfyrir Stórusúlu niður Klámbrekkur þar sem eina vaðið á þessu afbrigði er að finna. Þar eru kvíslarnar komnar saman í eina í Kaldaklofskvíslinni þar sem Bláfjallakvíslin hefur runnið í hana. Þetta er aðeins meira vað en á venjulegu leiðinni, en þessi leið er mun flottari og var hún því strax fyrir valinu.

Eftir að komið er fram hjá Stórusúlu er stutt eftir í brúna yfir Emstruá og því næst er haldið niður í Emstruskála þar sem næsta nótt var tekin. Þar tjölduðu flestir í hópnum og hvíldust fyrir lokakafla leiðarinnar.
Gott var að sofna í tjaldinu eftir frábæran kjúklingarétt úr þurrmatspokanum og spjall við skálaverði og leiðsögumenn á svæðinu.

Síðasta daginn er farið niður með Markarfljótsgljúfri og þarf að fara yfir Fremri-Emstruá á brú sem er flottur staður. Um morguninn voru fregnir um að vegna jarðskjálfta á Kötlusvæðinu hafi hún verið sett á "Gult ljós" til öryggis. Þegar við vorum komin yfir ána fórum við að sjá mikinn mökk í norðaustri sem virtist stefna á okkur. Þetta reyndist vera heilmikið sandfok þar sem hvasst var í loftinu þennan dag og náði sandrokið alveg niður að Gígjökli í suðri.

Þegar niður í Þórsmörk var komið var hópurinn ferjaður yfir í Bása þar sem við tjölduðum síðustu nóttina og grilluðum saman eftir ferðina. Í Básum er frábær aðstaða, til að grilla, borða tjalda eða fara í sturtu sem var kærkomin eftir allt labbið á Laugaveginum.
Flestir fóru heim morguninn eftir, en þrjár flottar konur héldu áfram og kláruðu Fimmvörðuháls í leiðinni.

Myndir