Eftir talsvert langa bið var kominn tími á að þruma í eitthvað verkefni. Og í tilefni góðrar veðurspár og þrátt fyrir að Arnar hafi verið erlendis var stefnan tekin á Snæfellsens. Það hefur verið stefnan lengi að klifra Lóndranga aftur, en síðast klifum við sjávarklettinn í byrjun maí árið 2011. Að þessu sinni voru það Bjartmar, Gummi og Óðinn sem fóru í ferðina. Arnar og Gummi reyndu þó í fyrrasumar en voru reknir í burtu af ælandi fýlsungum í miðspönninni.

Við byrjuðum á að stoppa í Borgarnesi að kaupa okkur nesti fyrir daginn og ókum að því loknu á Malarrif. Þar er komin gestastofa frá þjóðgarðinum á Snæfellsnesi þar sem við lögðum bílnum og hittum einn félaga úr svifvængjafluginu, en sá vinnur á gestastofunni.
Eftir klósettpásu og samantekt á klifurdóti röltum við að klettinum. Kringum lóndranga er talsverð umferð ferðamanna sem er greinilega enn heitur reitur um mánaðarmótin september-október. Fólk frá ýmsum heimsins hornum virti okkur fyrir sér og héldu trúlega að við værum eitthvað skrýtnir að taka svona stóra bakpoka í svona stutta göngu.

Þegar að dröngunum var komið tókum við smá pásu og virtum fyrir okkur leiðina. Hún er nokkuð greinileg þegar horft er austan megin á og byrjaði Gummi á fyrsta hlutanum, en við tókum þetta í þremur hlutum (spönnum).
Óðinn tók myndir af göngustígnum á meðan Bjartmar tryggði og komu þeir svo fljótt upp á eftir. Því næst fékk Bjartmar að spreyta sig á mið-spönninni sem er dáldið ævintýraleg þar sem maður skríður hálfpartinn eins og ormur upp sprungu þangað til komið er í nokkurs konar hvelfingu í skarðinu sem klýfur drangann.

Hann hafði klifrað óþarflega langt og þegar Gummi og Óðinn voru komnir upp þurfti hann að lækka sig aðeins til að vera á góðum stað til að tryggja Óðinn upp á topp. Þessi niðurferð var um sprunguna og var skemmtileg upplifun að troða sér í gegnum þrönga sprunguna og má segja að hálfgerð endurfæðing hafi átt sér stað.

Á Lóndröngum

Því næst tók Óðinn síðasta partinn upp á topp með stæl og tók upp Bjartmar og Gumma á eftir sér. Þegar á toppinn var komið var talsverður vindur svo að við tókum á það ráð að Bjartmar seig niður til að taka loftmyndir á meðan Gummi og Óðinn fengu að pósa á toppnum í smá stund.
Eftir þónokkrar mínútur var komið að því að drífa sig niður að fá sér nesti og athuga hvort tími væri fyrir að taka eitthvað á leiðinni heim.

Við vorum komnir niður í bíl upp úr klukkan fjögur, þar var tekið smá nesti og pakkað niður dótinu. Í bílnum biðu léttu vængirnir og höfðum við séð á veðurspánni að norðanvert Snæfellsnesið ætti að vera nokkuð milt. Því tókum við á það ráð að keyra um Grundarfjörð og athuga hvort Kirkjufellið væri fýsilegt þennan dag, en Gumma hafði dreymt um að fljúga niður af því frá því sumarið áður.

Þegar við nálguðumst fjallið var varla þverfóta fyrir bílum og fólki með myndavélar á veginum. Þvílík örtröð, en lagt var um allan vegkantinn við Kirkjufellsfossinn sem er trúlega einn af mest ljósmynduðu fossum heims þessa daganna, enda mjög flottur og með einstakan bakgrunn.
Klukkan var sex og kvöldsólin skein á fjallið. Okkur skildist að sólsetur væri klukkan sjö og myrkur ætti að vera skollið á um hálf átta. Þetta þýddi að við þyrftum að vera nokkuð fljótir ef við ætluðum að gera þetta svo að við drifum okkur svo mikið að við tókum ekki einu sinni mynd af fjallinu áður en við lögðum af stað.

Nokkrir hópar mættu okkur sem voru þá á leiðinni niður af fjallinu, en greinilegur göngustígur hefur myndast eftir ferðamennina sem fjallið laðar að sér upp rætur þess og á milli klettabeltanna. Einn hópurinn hafði á orði við okkur að við þyrftum að vera fljótir því það færi að rökkva, svipurinn sem kom á þau þegar við sögðum þeim að við yrðum trúlega á undan þeim niður þar sem við ætlum ekki að ganga mun gleymast seint enda ekki á hverjum degi sem einhver flýgur af Kirkjufellinu.
Við komum upp á topp um klukkan korter í sjö, vel sveittir og másandi eftir að hafa verið í háa drifinu alla leiðina. Skelltum í eina hóp-selfie og hófumst handa við að breiða úr vængjunum. Fyrstur í loftið var Bjartmar, þvílík öskur heyrðist þegar hann var aðeins búinn að taka örfá skref, kominn í loftið og strax orðið rosalega langt niður. Váááá... strákar þetta er klikkað!

Fljótlega fór svo Gummi af stað, nokkur skref og sama sagan, það var strax orðið helvíti langt niður á fast undir fótunum. Flugið var mjög mjúkt, enda afskaplega mild gola sem var rétt nóg til að blása upp vænginn fyrir flutak (eða aftöku eins og við köllum það gjarnan).
Þegar Gummi var lentur eftir nokkrar mínútur var Óðinn ekki enn kominn í loftið. Þegar Gummi og Bjartmar hittust niðri voru rekin upp öskur, enda þvílíkt "kikk" að fljúga af þessu magnaða fjalli! Þvínæst var að bíða eftir Óðni og þegar við vorum næstum farnir að hafa áhyggjur birtist hann í loftinu.

Á flug af Kirkjufelli

Þegar Óðinn lenti vorum við svo uppi með okkur að það hefði varla verið hægt að tala við okkur. Þvílíkur hlátur, öskur og gleði, en svo kom að því að við þurftum að pakka saman og halda heim á leið, klukkan bara rétt orðin sjö og því vorum við eina klukkustund upp og niður Kirkjufellið.

Þegar við höfðum pakkað var heimafólk komið að skoða hvaða vitleysingar hefðu verið á ferðinni þar sem þau höfðu frétt það að einhverjir höfðu flogið niður af fjallinu þeirra. Eftir gott og létt spjall við þau héldum við heim á leið.
Nú, viku seinna þegar verið er að skrifa ferðasöguna og setja inn myndir er glottið að koma á okkur enn og aftur, enda ógleymanlegur dagur!

Myndir

Stemmning í bílnum á leiðinni.
Bjartmar að versla nesti.
Óðinn og Bjartmar ganga að Lóndröngum
Gummi að græja sig af stað, Bjartmar að tryggja
Gummi lagður af stað
Víðara sjónarhorn
Síðustu hreyfingarnar
Kominn upp fyrstu spönn
Bjartmar lagður af stað
Bjartmar að koma upp
Snæfellsjökull blasir við
Malarrifsviti
Óðinn
Óðinn að koma upp
Bjartmar byrjar á sprungunni
Bjartmar
Skemmtilega furðulegt klifur
Að klára sprunguna
Óðinn tryggir
Óðinn
Útsýnisstaðurinn í austri
Gummi að elta
Óðinn eltir
Fýlarnir hafa gleymt einu eggi
Bjartmar í sprungunni
Bjartmar
Óðinn
Óðinn leggur af stað í síðustu spönn
Óðinn
Óðinn
Óðinn
Gummi að koma upp
Komnir í toppastans
Gummi á toppsteininum
Útsýni til austurs af toppnum
Bjartmar og Gummi
Gummi og Óðinn í baksýn
Á toppnum
Á toppnum
Bjartmar kominn niður
Óðinn sígur
Óðinn
Sigið
Sigið
Snæfellsjökull
Kirkjufell
Á leiðinni á Kirkjufell
Af toppnum
Bjartmar á lokametrunum
Gummi og Bjartmar
Útsýni yfir Kvíabryggju
Hryggurinn á Kirkjufellinu
Sjálfa á toppnum
Bjartmar floginn
Bjartmar flýgur
Flogið við Kirkjufell
Lentir og kátir
Gummi fékk bjór í Borgarnesi þar sem hann var ekki að keyra
Langþráður kvöldverður
Langþráður kvöldverður