Ég fór í ferð til Nepal sem var mikil upplifun, sem mig langar að segja aðeins frá. Ég hef verið viðloðandi Fjalla-teymið frá upphafi en síðustu ár þegar strákarnir fóru á flug skildu svolítið leiðir.

Hinn 6. mars var flogið til London, þaðan til Deli og Kathmandu. Ég fór með Vilborgu Örnu sem var fararstjóri í ferðinni, ásamt Dendi Serpa sem var serpinn okkar. Í Kathmandu var stoppað í 2 daga, það var ótrúlegt að upplifa borgina, umferðina, mannlífið, veitingastaði, fataframleiðslu, útfararsiði og fl. og fl.

Síðan var flogið til Lukla sem er hallandi flugvöllur neðst í Khumbu dalnum í um 2800m hæð og byrjaði gangan þar. Gengið var til Phakding og þaðan til Namche Bazaar sem er í 3440 m. Þessir bæir eru yfirleitt litlir, maður borðar og gistir í svokölluðum tehúsum sem eru oftast snyrtileg, maturinn er góður en svolítið einhæfur til lengdar.
Ekki er kynding í húsum nema taðofn sem kyntur er í 2 til 3 tíma á kvöldi með uxataði. Á þessum tíma var mjög kalt, frá frostmarki og niður í -15 gráður. Því næst var haldið til Deboche og Dingboche sem er í 4200 m. Farið er rólega upp dalinn og fundum við aðeins fyrir hæðarveiki á leiðinni, þó ekki alvarlegri.

Efst í dalnum eru Lobuche og Gorak Shep sem er í 5170 m og þaðan en gengið í Everest base camp (EBC) sem er í 5364 m. Ekki var mikið um að vera í EBC á þessum árstíma, þó einhverjir væru að mæta á svæðið fyrir komandi Everest tímabil. Magnað var að sjá ísfallið og þessar grófu aðstæður, ekki sést til Everest þaðan en við gengum einnig á Kala Patthar sem er í 5600 m. hæð og þaðan sést ágætlega á topp Everest. Eftir heimsókn í EBC var gengið til baka til Dingboche og áfram til Chhukung í hitt verkefni ferðarinnar sem var Island peak (um 6200m).

Í Dingboche biðum við eftir betra veðri á Island Peak. Þegar veður varð hagstætt gengum upp í Island Peak BC. Lagt var á fjallið upp úr miðnætti og gengið upp um nóttina og fram á næsta dag. Á Island peak var útsýnið alveg magnað, veðrið hefði ekki getað verið betra. Myndir voru teknar, nesti borðað og að lokum haldið niður. Á bakaleiðinni var aðeins stoppað í BC en haldið áfram niður í Chhukung og gist þar. Þetta var langur og strembinn dagur, en afar ánægjulegur.

Sökum þess að við vorum orðin heldur sein að ganga niður Kumbodalinn, fengum við far með þyrlu niður í Lukla, flugum þaðan til Kathmandu og stoppuðum þar í tvo daga áður en við flugum aftur heim.
Þetta var ógleymanleg ferð með góðum ferðafélögum, Vilborgu, Serpunum og uxum sem báru dótið okkar. Allt sem maður sér í svona ferð og upplifun að koma á þessa staði á borð við Kala Pattar, EBC og jú auðivtað að toppa Island Peak, öll ferðin eitt ævintýri út í gegn, ævintýri sem gleymist ekki.

Jón Helgi Guðmundsson

Myndir

Gott að versla í Kathmandu
Útför
Útför
Mannlíf
Umferðin
Flugvöllurinn í Lukla
Gengið af stað frá Lukla
Farangur og burðardýr
Gististaður
Krakkar í Khumbu dalnum vekja athygli
Jón við hengibrýr neðarlega í dalnum
WC
Hengibrú
Uxaflutningar
Snjókoma í Namche Bazaar
Namche Bazaar
Ama Dablam
Tollahlið vegagerðarinnar
Ama Dablam
Island peak vinstra megin við miðju
Ama Dablam í baksýn
Undirbúningur fyrir Everest tímabilið
Alveg að lenda í EBC
Kvöldsól í Gorakh
Tindur Everest frá Kala Patthar
Everest
Tindur Kala Patthar, 5600m
Everest, base camp er við jökulinn vinstra megin
Jarðskjálftarústir
Burðarmenn með allt að 100Kg á bakinu!
Á leið til Island peak
Base camp Island peak
Í birtinu á leið á Island peak, broddastopp
Ama dablam er auðþekkjanlegur tindur
Á leið á Island peak
Júmm upp klettanna
Rétt að ná toppnum
Setið á toppnum
Niðurleiðin
Sherparnir
Í þyrlunni á leið niður dalinn
Á heimleið, kominn til Lukla