Það kom að því að við tækjum aftur að okkur fararstjórn eftir að Gummi kláraði námið í fyrravor. Hjalti Björnsson heyrði í Gumma snemma í vor hvort við værum ekki til í að taka einn túr með sér í byrjun júní. Það vildi svo til að Gummi og Arnar sátu saman að borða ís þegar hann hringdi svo játandi svarið kom nánast strax.

Þetta var í fyrsta skipti sem Arnar fer á tindinn en í þriðja skipti hjá Gumma en í fyrsta skipti sem hann fer þessa leið. Fyrst fór hann á tindinn upp/niður Birnudalinn sjálfan, því næst í fjallaskíðaferð með FÍ fyrir 2 árum og var þá farið upp Skálafellsjökulinn og svo skíðað niður Birnudal.
Leiðin sem var nú farin liggur upp frá Kálfafellsstaðakirkju, upp að Kálfafellstind og eggjunum fylgt upp að efri brún sunnan Birnudals við Miðbotnstind. Þaðan liggur hryggur upp að Birnudalstind sem fylgt er ýmist á honum sjálfum eða í jaðri hans. Í þessari ferð voru í heildina 27 ferðalangar og þar af vorum við 5 sem sinntum fararstjórn.

Uppgangan gekk ágætlega, en fara þarf yfir nokkra varhugaverða staði með hliðarhalla ásamt því að þurfa að fara upp grjótskriður og þess háttar fjör þar sem fara þarf varlega.
Við gengum af stað í þoku rétt upp úr kl. 2 en strax í um 400m hæð komumst við upp úr skýjunum og sólin fór síðan fljótlega að skína þegar leið á morguninn.
Snjórinn lét ekki sjá sig fyrr en við vorum komin í milli 7 og 800 metra hæð og hefur greinilega verið mikil bráðnun undanfarið þar sem maímánuður var mjög úrkomusamur og kaldur í ár. Þrátt fyrir það voru not fyrir snjóþrúgurnar sem við tókum með okkur, en við skiptumst aðeins á að nota þær og mannbroddana, allt eftir færi.
Það er aðeins að aukast notkun á snjóþrúgum hérlendis, enda geta þær hjálpað mikið þegar snjóbráðin er mikil. Í þessari ferð voru þær kannski ekki nauðsynlegar þar sem mesta snjóbráðin var um 20cm og því ekki alveg upp að hnjám, en þær hjálpuðu klárlega til á köflum auk þess að æfa fólk í göngu á snjóþrúgum, en það getur verið talsvert öðruvísi en að ganga á öðrum göngustoðbúnaði, t.d. mannbroddum.

Þegar við komum upp að Miðbotnstind, í 1000m hæð, sáum við tindinn blasa við og hvítan Birnudalinn fyrir neðan okkur. Þegar við lögðum af stað fór að koma og fara þoka upp dalinn og var enn þoka niðri á láglendi. Taka þarf nokkra lækkun til að komast hrygginn á Birnudalstindinn sjálfann, og var heildarhækkun í ferðinni rúmlega 1700m, nokkuð meiri en hæð tindsins sjálfs sem er tæpir 1400m.

Við náðum toppnum um kl. 14 eftir um 12 tíma gang. Á toppnum var flott útsýni og sást vel í Öræfajökulinn þar sem Eystri-hnappur, Sveinsgnýpa og Sveinstindur, Hvannadalshnúkur og Mikill sáust vel. Tindarnir í vestanverðum Kálfafellsdal, Þverártindsegg og Snæfell syðra létu sjá sig, og orðnir nánast snjólausir. Snæfell syðra er nú yfirleitt snjólaust á þessum tíma, en Gumma fannst Þverártindsegg óvenjulega snjólétt miðað við árstíma.
Í norðri sást vel í Kverkfjöll vestast og Snæfell og Goðahnjúkar sáust í norðri og norðaustri stingast upp úr skýjunum. Þetta er einn af þeim stöðum landsins þar sem bæði Snæfellin sjást vel.

Nánast algjört logn var alla leiðina, smá andvari kom af og til á hryggjum og sólskin í þokkabót. Þetta þýddi auðvitað að megnið af fötum var í bakpoka allan daginn og svitnuðu allir mikið, enda var hálfgerður stofuhiti megnið af leiðinni.
Þetta gerir auðvitað það að verkum að flestir voru að klára vatnsbirgðirnar sínar þegar á toppinn var komið. Enda þegar komið var að fyrstu ánni þar sem vatnið rann undan snjónum myndaðist skemmtileg stemmning í að fá fyllt á vatnsbrúsa, enda hitinn ennþá talsverður þrátt fyrir að við vorum komin niður í þokuna - enda enginn vindur.

Eftir að hafa vaðið eina hressandi á neðst í dalnum, komum við niður úr Birnudalnum og gengum aftur í átt að kirkjunni þar sem veginum inn dalinn hefur verið lokað og voru allir komnir þangað rétt fyrir kl. 20, tæpum 18 tímum eftir að lagt var af stað. Því má segja að við vorum aðeins lengur en áætlað var, enda mikill hiti uppi ásamt smá sólbráð.

Við viljum þakka öllum þátttakendum fyrir daginn, enda alltaf gaman að fara með góðu fólki á fjöll - njóta útsýnisins, útiverunar og æfingunni sem því fylgir að fara svona ferðir.

Myndir

Jökulsárlón var ansi flott í þokunni
Hliðið frá kirkjunni
Fyrsta áskorun ferðarinnar var að komast undir vírinn
Á leið upp Kálfafellið
Gengið í þoku
Þoka
Hér er þokan að þynnast
Hér var fyrsta útsýnið til vesturs
Útsýnið
Ein af grjótskriðunum sem við þurftum að fara
Sólin lét sjá sig snemma
Hjalti fararstjóri
Gaman að sjá mastrið á Borgarhafnarfjalli stingast upp úr skýjunum
Brött hlíð þveruð
Komin yfir í Birnudal
Það voru alltaf ský á láglendinu
Landsliðstreygjan var tekin með og notuð þegar toppurinn var í nánd
Farin að nálgast, þarna vorum við á broddum venga hliðarhalla
Toppamyndin
Það var hlýtt á toppnum eins og sést
Foss í Birnudal
Vaða þurfti eina á á niðurleiðinni