Klukkan var 6 um morgun þann 27. feb þegar Armas og Bjartmar lögðu að stað úr bænum. Eftir að hafa litið á veðurspána kvöldið áður var ákveðið að reyna við hike and fly verkefni. Stefnan var tekin á Eyjafjallajökul, ganga upp Suðurhlíðina frá Seljavöllum og fljúga svo niður. Þetta var 3. tilraun Bjartmars við jökulinn en sú fyrsta hjá Armas.

Lagt var að stað frá nýju Seljavallalaug kl 8 um morgun. Sólin nýkomin upp og himinn var heiðskýr, allt stefndi í frábæran dag. Einu áhyggjur voru að það væri mikil bleyta í jarðveginum eftir miklar rigningar dagana á undan. Varlega var farið í blautum jarðvegi en allt gekk vel. Mikið frost var enn í jörðu og reynt var að ganga eftir þurrum slóðum. Stutt ganga var að snjólínu og þar tók við harður, pakkaður snjór.

Eftir fyrstu kaffipásu voru menn mjög bjartsýnir á að markmiðið næðist. Gangan gekk vel og snjórinn hélt vel þótt þungir menn færu yfir. Þegar komið var að fyrstu alvöru brekkunni var ákveðið að fara í brodda og línu. Kvöldið áður fóru menn yfir sprungukort af jöklinum og rætt við aðila sem stunda ferðir á jökulinum. Allt benti til að jökulinn væri vel fær upp á topp og litið um sprungusvæði. Hart færi á jökli og góðir mannbroddar gerðu ferðina mjög fljótfæra og ekki var hægt að kvarta yfir auðum himni, glampandi sól og fínum hita.

Þegar nálgast var toppinn var kominn léttur andvari frá vestri sem var gott til að taka á loft í. 4 tímum eftir að lagt var að stað frá bílnum var toppi Eyjafjallajökuls náð. Þar tók við flott útsýni í allar áttir og vindur frá vestri. Ákveðið var að finna góðan aftökustað í mýkri snjó en að taka af stað í frostnu harðfenni á toppnum.

Þegar réttur staður var fundinn var allt gert klárt fyrir flug niður. Léttur vindur af suðvestri gerði aftökuna auðvelda og við tók svif niður í bíl, úr ca. 1600 m hæð næstum niður á sjávarmál. Flugið niður var ógleymanlegt. Svifið var yfir sprungusvæði, meðfram hryggjum og niður með gljúfri. Flugið niður tók um 15 mínútur og lentum við hjá bílnum. Pakkað saman og keyrt til baka í bæinn með stórt bros eftir frábæran dag.

Myndir

Toppurinn
Armas að símast
Gegnið í línu
Armas
Topp selfie
Bjartmar að gera sig kláran
Bjartmar flýgur útí sólina
Jökulsprungur
Lágflug
Seljarvallalaug séð úr lofti