Það hlaut að koma að því að Gummi sem er búinn að fara hvað oftast á Skessuhorn af öllum fjöllum landsins færi að klára þennan norðurvegg sem hann hefur langað að klifra í mörg ár.
Það var þó ekki á dagskrá þessa helgi, en þegar Haraldur Örn sá myndir og lýsingu um góðar aðstæður í veggnum frá Ágústi og Palla Sveins seinnipart laugardags kviknaði aldeilis áhugi á að drífa í þessu enda spáin góð. Þar sem Gummi var búinn að hlaupa rúmt hálfmaraþon utanvega á laugardagsmorgun í undirbúningi fyrir laugavegshlaupið í sumar var smá efasemd í honum ásamt því að á dagskránni var að fara í fermingarveislu hjá frænda sínum þegar hann fékk skilaboðin. Eftir smá umhugsun ákvað Gummi að láta vaða enda búinn að hugsa um þennan vegg í þónokkur ár og í fyrra var reynt án árangurs þar sem við lögðum allt of seint af stað og lentum því í hruni þegar sólin var farin að skína á vegginn fyrir ofan okkur.

Það var ákveðið að taka alpastart á þetta og leggja af stað úr bænum kl. 6 á sunnudagsmorgun. Það var frábært veður þegar við lögðum af stað og sólin var farin að skína á Skarðsheiðina þegar við keyrðum framhjá Akrafjalli þannig að tindarnir virtust glóa.
Við lögðum af stað rétt uppúr kl. 7 í átt að fjallinu með nóg af klifurdóti og uppsöfnuðum spenningi. Greinileg voru förin eftir Ágúst og Palla frá laugardeginum og fórum við nánast sömu leið, nema að við fórum fyrr yfir til hægri í aðal línuna til að ná einu góðu íshafti sem er þar.

Klifrið gekk vel enda frábærar klifuraðstæður, alltaf festust ísaxirnar vel þó ekki hafi verið eins þægilegt að tryggja í ísinn og notuðum við klettatrygginar talsvert eins og Ágúst og Palli höfðu sagt okkur.
Veðrið lék við okkur og þó við værum í skugganum var okkur aldrei kalt og var yfirleitt verið á flíspeysunni með bæði skelina og dúnúlpuna í bakpokanum. Meiraaðsegja lappirnar á Gumma virkuðu að mestu upp vegginn þrátt fyrir "smá" þreytu eftir æfingu laugardagsins.

Stóra myndavélin fékk að vera heima þennan dag og eru því eingöngu símamyndir boði, en það var til að spara vigt og einnig er ekki eins mikil tækifæri til myndatöku þegar aðeins tveir eru að klifra.
Ferðin tók átta og hálfan tíma frá bíl í bíl sem er bara ágætis tími til að njóta leiðarinnar. Á toppnum var svo gott veður að það var tekið sólbað í smá stund áður en haldið var niður. Færið var hart alla leið svo broddarnir voru notaðir alveg niður úr skálinni.
Þakkir fara til Ágústs og Palla að senda myndir af þessu á laugardaginn og afsökunin til fjölskyldu Gumma að hafa ekki komið í ferminguna, það var bara of erfitt að hafna svona góðu tækifæri.

Myndir

Lagt af stað
Hér sést leiðin vel, vinstra megin við Rifið
Gummi
Haraldur í íshafti
Haraldur í íshafti
Haraldur í íshafti
Allir glaðir
Hér var aðallega notast við klettadót
Tryggt í veggnum
Haraldur kemur upp
Í stansi
Haraldur hliðrar út á Rifið efst
Smá selfie áður en haldið var upp á topp
Haraldur með Skarðshorn og Heiðarhorn í baksýn
Gummi í síðustu spönn, takið eftir að þar sem lítill ís er var tryggt í ísöxina
Flottur staður á Skessuhorni efst í Rifinu
Horft til vesturs að Skarðs- og Heiðarhorni
Lítið eftir þegar hingað er komið, ein smá klettaspönn
Síðasti spölurinn, hér var kærkominn fleygur notaður
Smá pepp fyrir síðasta múvið
Haraldur
Þessi fleygur er nýlegur en var á góðum stað
Síðustu metrarnir
Haraldur
Haraldur
Kominn upp á brún, Haraldur fyrir neðan
Haraldur
Tryggingin í stansinum
Haraldur kemur upp á brún
Þetta er svo góð tilfinning að komast upp á brún
Smá toppamynd
Svo var alveg nauðsynlegt að taka smá sólbað
Svo var haldið niður
Hryggurinn sem tengir Skessuhorn við Skarðsheiðina er alltaf jafn flottur
Gummi
Hér sést í vegginn vinstra megin, leiðin sem við fórum er í skugganum vinstra megin við Rifið
Snjómyndanir eru oft flottar
Alveg funheitt, enda blankalogn
Hér sést svo vel í vegginn