Gummi hefur stefnt á auka-hálendishlaup í sumar af einhverju tagi og var með nokkra staði í huga og beið góðrar veðurspár. Sunnudagurinn 29. september var einmitt slíkur dagur.

Eftir að hafa nú hlaupið í 18 mánuði er fullt af hlaupafélögum sem hægt er að fá með í svona ferðir til að fara ekki einn þó Arnar og Óðinn voru erlendis þegar þessi ferð var farin. Því slógust Anna Sigga, Birkir Már og Sigríður Sara með í för og fylltum við því bílinn, en Jón Helgi sá um aksturinn þar sem ekki er endað á sama stað og hlaupið byrjar.

Anna Sigga er á seinnihluta undirbúnings fyrir Ultra trail Lago d'Orta á Ítalíu þar sem hún stefnir á að klára 100km ofurhlaup með yfir 6200m hækkun. Með þessari ferð um Kjalveg setti hún æfingar vikunnar í yfir 100km samanlagt, en hápunktur æfingaálags stóð þá yfir, og eftir ansi margar Esjur daganna á undan var þetta kallað "30km hvíldarhlaup" eða "recovery hlaup".

Við ákváðum að stytta leiðina aðeins með að keyra upp að Þjófadölum og taka því um 32km hlaup í stað heils maraþons, eða ~41km. Þetta passaði vel í æfingaáætlun Önnu og einnig sem Gumma fannst alveg nóg að hlaupa 30km eftir ágætis hvildartímabil eftir Laugavegshlaupið þó svo að mjög lítil hækkun sé á þessari leið.

Við komum fyrst við á Hveravöllum, fengum okkur mat og skoðuðum háhitasvæðið. Þarna var 0-1°c og smá norðanátt sem gerði heldur napurt og var aðeins bætt við í fötin sem við ætluðum að hlaupa í. Gummi fór t.d. í Thermal buxurnar í stað þeirra venjulegu.
Eftir smá rölt á Hveravöllum var haldið áfram að Þjófadölum og þá var maturinn búinn að jafna sig aðeins svo hægt var að hlaupa af stað eftir stutta upphitun.

Fyrst er hlaupið niður brekku í Þjófadali og blasir þar skáli FÍ undir Rauðkolli við. Nokkrir lækir eru þarna til að stökkva yfir og hægt að ná sér í vatn.
Hlaupið er suður Þjófadali og í skarð milli Þverfells og Þjófafells. Þegar komið er í gegnum skarðið blasa Kerlingafjöllin og Kjalfellið við þegar haldið er áleiðis meðfram Fúlukvísl og Fremra-Sandafells. Lítil brú, yfir um meters breitt gil þar sem Fúlakvísl rennur var næsti staður sem við þurftum að komast á til að taka þessa einu hækkun sem er á leiðinni, en hægt er að fara framhjá henni og sleppa Þverbrekknamúla (eða taka hann sem útúrdúr).

Við tókum góða pásu við skála FÍ við Þverbrekknamúla og héldum pylsuveislu þar sem Gummi var með pólskar pylsur sem nesti, en þær eru sérlega góðar sem nesti í svona ferðir þegar maður þarf orku til að halda hlaupunum áfram.
Þegar komið er aftur inn á leiðina eins og ef við hefðum ekki farið hjá Þverbrekknamúlanum er farið yfir háa göngubrú og er saga hennar rakin á skilti við austurenda hennar. Þar má lesa að nokkrar tilraunir þurfti til að koma upp brú sem stæði af sér leysingar og vetur.

Eftir að á leiðina var aftur komið var nokkuð bein braut að Hvítárnesi. Leiðin er þekkt þjóðleið og greinilega talsvert farin á hestum svo það eru margir samsíða stígar, eins og þeir hafi verið lagðir með risastórri hrífu. Smá votlendi eru þarna og nokkrir gamlir grýttir en uppþornaðir árfarvegir eru seinfarnir þó stuttir séu. Eina á þarf að fara yfir, en við náðum að stikkla á steinum þar svo við blotnuðum ekki. Við Hvítárnes beið Jón eftir okkur með heitt á brúsa og var mjög gott að komast þangað eftir um 5 tíma á ferðinni.
Já, þið lásuð rétt, við tókum okkur 5 tíma í að fara þetta þar sem talsvert er stoppað til að taka myndir, virða fyrir sér landslaginu og því sem fyrir augum ber á svona flottum svæðum. Það er vel hægt að fara þetta hraðar en þá eru ekki teknar myndir og eins góðar minningar með heim.
Skálann Hvítárnes er vart talað um án þess að minnast á draug sem þar er talinn halda sig og má finna um margar sögur, en þrátt fyrir að hafa stuttlega kíkt þar við urðum við hans ekki vör, en margir segja að maður þurfi að reyna að sofa þar til að það gerist.

Þónokkrar sambærilegar leiðir eru eftir á listanum hjá Gumma, en þetta var ein þeirra. Eftir Langasjóshlaupið í fyrra var greinilegt að fleiri þekktar gönguleiðir þarf að hlaupa, enda búum við á einu af flottustu löndum heims hvað útivist varðar og þess ber að njóta.

Myndir

Hópurinn við gamla skálann á Hveravöllum
Gamli skálinn og minnisvarðinn um Fjalla-Eyvind
Lækurinn við heita pottinn
Tókum smá hring um hverasvæðið fyrir hlaup
Gamli gamli skálinn
Bláhver
Sigga og Anna koma úr torfhúsinu
Hér hófst hlaupið við enda slóðans að Þjófadölum
Hlaupið niður í Þjófadali
Hópurinn að koma niður í Þjófadal
Anna, Sigga, Gummi og Birkir
Gummi og Birkir með Rauðkoll í baksýn
Þjófadalir
Þjófadalir
Nokkrir þjófalækir á leið okkar
Anna og Birkir stökkva yfir á
Birkir
Að koma að skálanum í Þjófadölum
Hér er nýbúið að merkja leiðina rækilega
Haldið áfram frá Þjófadalaskála
Það eru mis margir slóðar samhliða á leiðinni
Anna að undirbúa að stökkva yfir ána
Þeger komið er út milli Þjófafells og Þverfells sjást Kjalfell og Kerlingafjöll
Horft til baka í Þjófadali, Rauðkollur gnæfir þar yfir
Birkir
Anna
Sigga
Gummi
Gamall vegvísir, og bannað að fara með rekstur í Þjófadali
Nokkir svona stuttir kaflar af grjóti eru á leiðinni
Margar vörður eru á leiðinni og sjást yfirleitt vel
Langjökull í baksýn, fremra-Sandfell til vinstri
Hér er hlaupið á storkuðu flekahrauni
Gaman að sjá móbergsgljúfrið
Birkir, Anna og Sigga
Sigga og Anna hlaupa í hrauninu
Hrútfell
Gummi
Vegvísir að litlu brúnni
Skemmtileg brú, hægt væri að stökkva yfir án hennar, þó óöruggt sé
Horft til baka yfir Fúlukvísl
Og annað skilti
Hér erum við að koma í Þverbrekknamúla, skála á miðri leið
Jarðtenging að hætti Gunnars
Stóra göngubrúin á Fúlukvísl
Horft eftir Fúlukvísl, Kjalfell í baksýn
Birkir skoðar hlaupandi haustliti á Kili. Kerlingafjöll í baksýn
Kjalvegur
Stutt eftir, eða 9,7km
Takmarkið að nálgast
Hvítárvatn sést þarna  í fjarska
Hér var hægt að tippla yfir ána
Anna og Birkir á lokakaflanum
Síðasta grjóturðin
Að lenda í Hvítárnesi
Komin i Hvítárnes, Hofsjökull vinstra megin og Kerlingafjöll hægra megin.
Klárað að draugaskálanum fræga
Hópurinn að loknum 32km hlaupi
Við Hvítárnesskála FÍ