Jólahefðin heldur áfram og að þessu sinni var farið í 12. jólaferðina á Skessuhornið. Gummi hafði ekki ákveðið hvaða dag skyldi fara en eftir að hafa skoðað veðurspána 29. des fyrir næsta dag var ljós að það yrði bæði bjart og lyngt. En það eru nefnilega bestu ferðirnar þegar maður getur flogið niður í bíl og þannig losnað við niðurganginn.

Aðkoman var í leiðinlegri kantinum þetta árið þó það hafi verið verra, púðursnjór yfir öllu og sumsstaðar skel undir sem brást þegar á hana var stigið. Við hittum annað teymi, Bjarna og Sigga Bjarna, en þeir voru sniðugir og gengu á fjallaskíðum að Skessuhorninu þó þeir hafi rekið skíðin dálítið niður úr snjónum á köflum. Klifrið var hinsvegar með allra besta móti fyrir þennan árstíma þar sem það var bæði ís og frosinn mosi undir smá púðri sem gerði þetta bara býsna þægilegt.

Gummi er að jafna sig eftir rifbeinsbrot svo Arnar fór á undan, og því aðallega rassamyndir þetta árið. En við vorum svo heppnir að Bjarni og Siggi voru með flygildi með sér og náðu frábærum loftmyndum af okkur, bæði í klifrinu og aftökunni á toppnum.

Það var nánast logn alla leiðina og draumurinn um að ná flugi niður varð sterkari og sterkari. Þegar við náðum á toppinn og í ljós kom nánast áttleysa að þá æstumst við alveg upp að komast í loftið en tókum smá nestis- og ljósmyndapásu fyrst. Sólin skein fallega á toppinn svo birtan var mjög flott. Á endanum höfðum við okkur af stað og náðum að fara á nánast sama tíma í loftið sem var geggjað. Gummi var með talsvert af dóti, myndavél, dróna ofl. svo hann var trúlega um 120kg meðan vængurinn er gerður fyrir allt að 108kg. Það getur hinsvegar verið ágætt því þá er hann rosalega stöðugur, hinsvegar verður hann mjög snarpur í öllum hreyfingum þegar hann er svona mikið lestaður. Arnar flaug aðeins styttra en Gummi en annars flugum við nánast að sveitabænum svo gangan í bílinn tók svona u.þ.b. 6 mínútur. Loftið er líka mjög stabílt í svona kulda, en það var líklegast um -10°c, þá verður loftið þykkara svona eins og sýróp og þá er mun minna um ókyrrð í loftinu.

Flott að vera komnir í bæinn um kl. 16 svo við náðum að klára smá innkaup og skella okkur í sund fyrir kvöldmat.

Myndir

Skessuhornið í skammdeginu
Skessuhorn, Siggi og Bjarni sjást þarna vinstra megin
Addi járnar sig
Arnar
Arnar
Bjarni
Arnar í byrjun hryggsins
Siggi
Arnar
Arnar
Siggi og Bjarni
Heiðarhornið var tignarlegt
Siggi og Bjarni
Arnar
Arnar
Siggi
Arnar að feluklifra
Ölver og Hafnarfjall fengu smá D-vítamín
Skorradalsvatn efst
Arnar undir næsta hafti
Flott hér
Kominn upp á brún þar sem sólin tók á móti okkur
Arnar
Rjómablíða og púður á toppnum
Gummi
Gummi
Arnar
Siggi og Bjarni að koma upp
Bjarni
Siggi
Skarðshorn og Heiðarhorn fengu sólina í bakið
Arnar og Gummi
Bjarni og Siggi
Varð að kíkja á hrygginn flotta
Toppakollurinn leti líka vel út
Síðasta mynd fyrir flug