Það er löngu kominn tími á að Gummi færi meira en bara dagsferðir og fari að gista í köldum aðstæðum. Langar ferðir hafa alveg verið farnar, en þá hefur annaðhvort verið gist í húsum eða hreinlega verið að í 20+ tíma til að klára ferðina í einum rykk.

Þar sem allir strákarnir hafa ekki komið sér upp langferðabúnaði á borð við utanbrautargönguskíði og púlku til að draga dótið sitt í var frábært að fá Helgu Maríu með í ferðina, enda með áralanga reynslu í alls kyns ferðamennsku og því góður leiðbeinandi til að koma Gumma af stað í þessari ferðamennsku. Til stóð að við yrðum allt að 5 talsins í ferðinni, en vegna veikinda í hópnum enduðu þau bara tvö.
Gummi hefur s.l. ár verið að vinna með henni síðan hann byrjaði að þjálfa hjá Náttúruhlaupum fyrir tæpu ári síðan en hafa þekkst síðan þau sátu saman í stjórn Íslenska alpaklúbbsins fyrir um 12 árum.

Þar sem hlánað hafði hressilega og svo fryst fyrir þessa ferð að þá var fljótt ákveðið að keyra í gegnum hraunið sunnan Sigöldu og framhjá Bjallavaði þangað til komið var í aðeins meiri snjó og vetrarfæri. Þó voru nokkur stór skautasvell sem við skíðuðum yfir, sérstaklega fyrst og gengum við framhjá björgunaraðgerðum þar sem bjarga þurfti snjóbíl uppúr djúpum krapa eftir að hafa lent þar ofaní nóttina áður.

Spáin var búin að vera tvísýn vikuna á undan, en á fimmtudagskvöldi var farið að skýrast að veðrið ætti að verða bara nokkuð gott á svæðinu og kalt en stillt yfir nóttina sem til stóð að gista í Landmannalaugum.
Við lögðum af stað í rólegheitunum á laugardagsmorgni og hittum vini úr HSSK sem voru að taka snjóbíl af við Sigöldu. Þar fréttum við af hinum snjóbílnum í vanda og vorum því kannski óþarflega mikið að drífa okkur í forvitni þar sem þetta var á stað sem við myndum fara yfir.
Þegar þangað var komið voru margar bjargir komnar og voru byrjarðar að saga upp braut í ísinn til að draga hann uppúr.

Eftir smá stopp og spjall við vini okkar á vettvangi héldum við áfram inn í Landmannalaugar, þegar lengra var haldið jókst snjómagnið aðeins en vegna hlákunnar á undan var mjög hart færi og ekki á mörgum stöðum sem markaði hreinlega í snjóinn.
Við komum í laugar eftir nokkurra tíma göngu og hófum að finna tjaldstað. Gummi var með sérvisku og vildi auðvitað tjalda á stað sem kæmi vel út á myndum - frekar nálægt lauginni og við lækjarskurðina. Allt var slétt og hart svo ekki var neitt vandamál við að koma upp tjaldbúðunum, alla vegavinnu höfðu veðurguðirnir gert fyrir okkur, svo vel að ekki var fýsilegt að reyna að moka gryfju í fortjaldið vegna harðfennis.
Nokkrir vélsleðahópar voru á svæðinu sem voru að koma úr ýmsum áttum að njóta svæðisins ásamt jeppafólki.

Þegar í Laugar er komið er varla hægt að gera annað en að skella sér í laugina, sérstaklega á veturna því þá er hún yfirleitt heitari en á sumrin. Þegar við vorum að tjalda var einn jeppahópur að klára að baða sig svo við skelltum okkur á eftir þeim. Á svipuðum tíma var um 30 manna hópur nýliða í Flugbjörgunarsveitinni einnig að koma á skíðum og hluti þeirra komu einnig í laugina.
Þar þekktum við þónokkra og er alltaf gaman að hitta kunningja á fjöllum. Þau höfðu einnig gist í tjöldum kvöldið áður nær Dómadalsleið og voru fegin að komast í Laugar.

Um kvöldið var síðan borðaður kvöldverður, eðal þurrmat sem fljótlegt er að elda ef maður nær að hita vatn. Það gekk ögn hægar en vanalega vegna kuldans, en við vorum með gas en ekki bensín. Bensín hefði kannski verið fýsilegri kostur í svona miklu frosti þar sem gasið virkar ekki eins vel í kuldanum. Allt gekk þetta á endanum og kíktum við inn í skálann á kunningja okkar eftir matinn. Þar var hópurinn að borða grillmat og nutu vel. Við spjölluðum um stund og náðum okkur í heitt vatn til að nota sem tásuhitara um kvöldið. Trikk sem Helga kenndi Gumma í ferðinni og er bæði einfalt og snjallt.
Þegar við komum í tjöldin aftur var vel stjörnubjart en engin norðurljós. Við skelltum okkur í tjöldin okkar og huguðum að því að fara að sofa. Gummi kíkti þá á norðurljósaspána hjá Veðurstofunni og sá að það voru góðar líkur á norðurljósum um kvöldið. Þetta þýddi að hann gat auðvitað ekkert farið að sofa strax svo hann opnaði út úr tjaldinu sínu og fylgdist með himninum.
Það bar árangur því seinna um kvöldið komu fram smá norðurljós og dreif hann sig út að mynda og notaði skíðaskóna sem þrífót til að ná betri myndum.

Nóttin var frekar köld, um -14°c en þó logn. Vatnsbrúsinn heiti hjálpaði við að sofna þó maður hafi vaknað nokkrum sinnum til að hlýja sér í andlitinu. En ofaní svefnpokanum var maður þó kappklæddur, betur en á göngunni.
Ekki var sofið sérstaklega lengi. Við höfðum talað um að ef annað hvort okkar væri vaknað kl. 6 mætti vekja hitt, en við vorum vöknuð kl. 5.40 og heyrðum þruskið milli tjalda svo við ákváðum bara að drífa okkur á fætur og undirbúa brottför. Það tók smá stund að mana sig upp í að fara að ganga frá og koma sér uppúr svefnpokanum, en það var ekki eins erfitt og maður hafði haldið. Um leið og við byrjuðum að ganga frá hætti hrollurinn og vorum við komin nokkuð fljótlega af stað að draga púlkurnar til baka.

Bakaleiðin gekk nokkuð hraðar fyrir sig, enda aðeins kaldara úti eftir nóttina svo það var gengið nokkuð ákveðið til að vinna inn hita. Þó stoppuðum við auðvitað aðeins til að borða, mynda og spjalla.
Gummi hafði náð að búa til marblett neðarlega á söflungnum deginum áður með að hafa nýja skó of vel strekkta svo það var ánægjustund að komast í bílinn og taka af sér skíðin og komast í þægilegri skó.
Á leiðinni í bæinn stoppuðum við hjá foreldrum Gumma og fórum í gufubað sem er alltaf gott til að hreinsa sig eftir átök.

Myndir

Gummi að leggja af stað
Gummi
Helga að preppa
Komin af stað
Gummi
Vorum því miður ekki með skauta i þetta skiptið
Taka bara nóg af dótið með
Helga
Mikið um frosið leysingavatn
Þarna sést glitta í Löðmund í baksýn
Helga að njóta útiverunnar
Gengum fram hjá þessum björgunaraðgerðum
Helga að koma niður að Dómadalsafleggjara
Hér eru gatnamótin, sést vel hve lítill snjór er á svæðinu
Hér þurftum við að hægja á okkur niður í 40
Löðmundur sést víða að á leiðinni, enda hátt og auðþekkjanlegt
Hér erum við að nálgast Frostastaðaháls
Að komast yfir Frostastaðaháls, Stútur er þarna í hrauninu
Þarna erum við komin að veginum við Frostastaðaháls
Skuggamynd
Helga fylgdi veginum hér
Hér erum við að koma að Sólvangi
Skoðuðum okkur aðeins um við Sólvang
Þarna heldur Fjallabaksleið nyrðri áfram
Fundum þessa vetrarferðagildru
Þarna liggur jökuláin úr Jökulgili
Helga ánægð með frábæran dag á fjöllum
Að skoða árfarveginn
Helga
Gummi
Hér horfum við inn í Laugar. Laugahraun og Brennisteinsalda áberandi
Síðasti spölurinn
Bláhnúkur skartaði sínu fegursta þennan dag, fórum þó ekki þangað upp.
Göngubrúin yfir fyrstu ána
Gummi potast yfir
Landmannalaguar
Skurðirnir eru ekki djúpir þessa daganna
Norðurbarmur í kvöldólinni
Gummi fæst sjaldan til að hætta að mynda á fjöllum
Kvöldmatur, það tók smá tíma að ná að hita vatn vegna kuldans
Fengum svo þessi flottu norðurljós um kvöldið
Helga á leiðinni til baka á sunnudeginum
Hér bárum við búnaðinn yfir skamman spöl
Gatnamótin við Sólvang
Helga
Gummi
Suðurnámur
Fórum nánast sömu leið til baka, nema í þessa átt máttum við vera á 60
Nokkrar stuttar brekkur voru á leiðinni
Helga vetrarleg með frosið hár
Veturinn gerir jörðina fallega
Frostmynstur
Frostlist
Helga í einum af síðustu svellbunkunum
Smá steypuskil í leysingavatninu, á samskeytunum var holrými
Frostmynstur