Næsta skíðagönguæfing var tekin um helgina þegar Gummi og Óðinn skelltu sér yfir Langjökul. Gummi hafði farið inn í Laugar nokkrum vikum áður og langaði að fara annan svona æfingatúr áður en fararstjóraseasonið hefst þennan maímánuð.

Gummi var að þjálfa á laugardagsmorgun í Náttúruhlaupunum og komst því ekki af stað fyrren um hádegið. Það passaði alveg við veðrið þar sem það var ansi hvöss norðaustanátt á laugardeginum sem átti að róast um kvöldið og detta niður á sunnudagsmorgun.
Upprunalega planið var að fara upp vestanmegin þar sem langa brekkan er og vera svo mestmegnis niður í móti yfir jökulinn en þar sem áttin var andsnúin því plani og að við vildum ekki taka þetta á einum degi heldur tjalda á jöklinum að þá ákváðum við að snúa þessu við og fara frá Skálpanesi yfir í Jaka.

Jón Helgi, pabbi Gumma var svo góður að skutlast með okkur á laugardeginum og sækja okkur svo aftur á sunnudeginum.
Á laugardeginum komumst við á Skálpanesið sjálft á bíl, og skíðuðum svo niður í dalinn undir jöklinum nálægt innstu-Jarlhettu um klukkan hálf sex. Þar ákváðum við að nýta vindinn aðeins fyrst Óðinn tók snjókætinn með og náðum að láta hann draga okkur upp mestu brekkuna á jökulinn. Svo þegar mesta brekkan var búin pökkuðum við honum niður og hófum gönguna.

Óðinn var ekki á gönguskíðum heldur á fjallaskíðunum svo hann gat dregið Gumma ásamt púlkunni á eftir sér upp. Vindurinn var nógu sterkur þó þetta hafi verið minnsta gerð af kite, aðeins 4 fermetrar. Til samanburðar má geta þess að litlu paragliding vængirnir okkar eru 16 fermetrar.

Þá hófst gangan, eftir að hafa látið vindinn sjá um að draga okkur einhverja 4-5km var komið að því að gera þetta eins og upprunalega var planað og byrja að ganga. Óðinn lét sig bara hafa það að ganga á skinnunum með nokkuð stórann bakpoka meðan Gummi gekk með tóman bakpoka á gönguskíðum með púlkuna í eftirdragi. Drátturinn var mjög léttur, enda mjög hart hjarnfæri með pínulitlum skafsnjó, svona 2-3cm þykkum hér og þar. Smá ský voru sem gerðu sólsetrið og skafrenninginn ennþá fallegri og við nutum þess ganga með kaldann vindinn í bakið, vel dúðaðir.

Þegar klukkan var orðin rúmlega níu ákváðum við að nú væri tími til að fara að koma fyrir tjaldinu þar sem það tæki örugglega nokkurn tíma að búa til skjólvegg, tjalda, hlaða að tjaldinu, elda mat og borða.
Þetta tókst vel til þar sem almennileg trésög var með í för og einfalt að búa til alveg solid hleðsluteninga í skjólvegg, þetta var nánast eins og múrveggur.
Við náðum að elda á gasinu þar sem við vorum með rétta gasblöndu fyrir kuldann, en við ráðgerum að það hafi verið hátt í -10°c þarna um kvöldið. Gummi fékk sér pasta bolognaise og Óðinn með dýrindis rjómalagðan lax með pasta, algjör veisla sem við nutum í botn um klukkan ellefu um kvöldið þegar allt var orðið klárt.

Það var nógu kalt til að ekki kæmi gufubað í tjaldið þegar sólin reis á sunnudagsmorguninn. Við sofnuðum um miðnætti og vöknuðum ekki fyrr en kl. 8:40 sem er alveg met í svona ferðum hjá okkur. Þrátt fyrir að hafa vaknað lítillega yfir nóttina náðum við að sofa fjandi vel og þegar Gummi rumskaði í sólinni snemma um morguninn sótti hann bara sólgleraugun, setti á sig og fór aftur að sofa.
Þegar Óðinn vaknaði var hann hálf hissa og nánast flissandi að sjá Gumma með sólgleraugu í svefnpokanum en skildi þetta vel þegar skýringin kom.
Þessi dagur var greinilega mun hlýrri en laugardagurinn þar sem við fundum ekki fyrir vind og himininn algjörlega heiðskýr. Sólin var farin að skína yfir skjólvegginn svo það hlýnaði lítillega hjá okkur.

Við bræddum snjó og hituðum vatn til að borða meira og affrysta vatnið okkar. Kókflöskurnar sem við tókum með náðu ekki að frjósa þó smá krap hafi verið byrjað að myndast í flöskunni sem hafði verið opnuð. Kókið er gott að því leitinu til að það frýs seint.

Eftir frágang og næringu hófum við gönguna aftur, nú sáum við vel í kringum okkur. Það voru bílar komnir á jökulinn að njóta veðursins og við tókum stefnuna á háa punktinn á vestanverðum jöklinum nálægt Geitlandsjökli. Þó hann hafi litið út fyrir að vera ansi nálægt okkur reyndist vegalengdin vera ansi löng þegar uppi var staðið en á leiðinni nutum við þess að horfa á fjöllin á Suðurlandinu, næst okkur voru Hlöðufell, Högnhöfði og Skjaldbreið. Á tímabili sáum við Þórisjökul og Geitlandsjökul. Þegar lengra dró sáum við þá ekki lengur en þá kom Eiríksjökull í ljós ásamt Bláfelli og Kerlingafjöllum.
Hofsjökull lét aðeins sjá sig líka ásamt Löðmundi, Rauðufossafjöllum, Krakatind, Heklu, Tindfjöllum ásamt neðri hluta Eyjafjallajökuls í suðurátt.

Þegar upp á hæsta punkt ferðarinnar var komið á hábungunni við Geitlandsjökul sem er rétt undir 1400m hár (gps gaf okkur 1393m) blasti Borgarfjörður við okkur. Við sáum Skarðheiðina og Skessuhornið skaga þar framúr, Ok og Strút í nærumhverfinu ásamt Hafrafelli og N-Hádegisfelli sem afmarka dalinn sem keyrt er að jöklinum.
Þá var lítið annað að gera en að skíða niður. Óðinn fékk þá loksins að taka skinnin undan og Gummi skellti prússíkbandi utanum púlkuna svo hún virkaði eins og bremsa á gönguskíðabrun niður brekkuna.
Þetta gekk mjög vel og vorum við skotfljótir niður í Jaka þar sem Jón Helgi sótti okkur svo aftur.

Myndir

Gummi og Óðinn
Óðinn að undirbúa kite
Tuskan tilbúin
Óðinn að græja linurnar
Litli kite hafði það að draga okkur upp
Gummi í eftirdragi
Óðinn pakkar niður
Að græja sig í labbið
Gummi
Óðinn
Gummi
Óðinn
Óðinn
Gummi
Skafrenningur
Óðinn
Gummi
Svona virkar skjól á skafrenning
Gummi
Gummi
Rifskafl í skafrenningi
Hér stoppuðum við til að setja upp tjald
Tjaldið komið upp
Frostið farið af um morguninn
Kátt í eldhúsinu
Sést greinilega hvernig vindáttin hefur verið
Gummi leggur af stað frá skjólveggnum
Gummi, skjólveggurinn í baksýn
Púlkan dregin úr skjólinu
Óðinn
Skjólveggurinn og Bláfell
Óðinn
Óðinn
Óðinn
Gummi
Ok og Skarðsheiði
Gummi þrumar niður með púlkubremsuna
Náði ágætis gönguskíðarennsli niður
Umferð um Geitlandsjökul, enda óhemju flottur dagur
Óðinn við Jaka