Til stóð að fara með hópa á vegum Fjallafélagsins bæði á Hvannadalshnúk og Hrútsfjallstinda laugardaginn 15. maí en eins og gefur að skilja þá getur þurft að hliðra til svona ferðum vegna veðurs. Sú var raunin í þetta skiptið enda var Haraldur Örn búinn spotta góðan veðurglugga fyrir 13. maí eða Uppstigningadag enda spáin slæm fyrir áætlaða dagsetningu. Tekin var ákvörðun snemma á miðvikudagsmorgninum 12. maí að hefja gönguna á miðnætti sama dag. Flestir sem voru bókaðir sáu sér fært að mæta um kvöldið upp í Skaftafell ósofin og til í tuskið.

Óðinn og Erlendur Pálsson(Elli) sáu um leiðsögnina á Hrútsfjallstinda með 12 manna hóp. Upp úr miðnætti voru allir mættir og því haldið rólega af stað inn í nóttina. Þetta leit strax vel út enda nánast heiðskýrt og vindlaust þrátt fyrir snjókomu, rigningu og allan pakkan á leiðinni úr bænnum.

Markmiðið var að fara mjög rólega af stað og stoppa oft og stutt og gekk allt eins og í sögu framan af. Það var ekki fyrr en í bröttum hliðarhalla Hafrafells sem ákveðið var að taka upp brodda enda nýfallinn snjór og talsvert af harðfenni á gönguleiðinni. Nokkuð var um að leigubroddar væru með í för og það var talsvert moð að fá suma þeirra til að tolla lengur en nokkrar mínútur. Þetta tafði aðeins förina en á endanum fóru hjólin að snúast aftur.

Það var aðeins napurt í næturfrostinu en útsýnið frá Sveltiskarði og víðar hélt fólki við efnið og hægt og rólega mjökuðumst við áfram inn í sólarupprásina meðfram Mosvallahryggnum og horfðum á Hvannadalshnúkinn og Hrútsfjallstindana baða sig í fyrstu sólargeislum dagsins. Það gladdi kalda kroppa að sjá sólina vinna sig hærra upp á sjóndeildarhringnum og ljóst að það stefndi í sólríkan dag.

Snjólögin og færðin voru með betra móti, lítið um sólbráð þó sólin hafi skinið sínu skærasta allan daginn. Sprungurnar á jöklinum voru vel fullar af snjó og harðfennið yfir gerði þetta að algjöru drauma færi. Það var ekki annað að sjá en allir hafi vel við unað og brosað sínu breiðasta þegar toppnum var náð, þrátt fyrir lítinn svefn og rúmlega 10-11 tíma göngu. Það voru forrréttindi að fá að að standa á toppnum með þessum flotta hópi og njóta útsýnis sem orð fá vart lýst.

Eftir drykklanga stund á toppnum var ekki annað að gera en að halda heim á leið enda ferðin bara hálfnuð og marga farið að hlakka til að hvíla lúin bein.

Myndir

Fyrsta stopp, séð yfir Skaftafellsjökul
Í hlíðum Hafrafells
Hnúkurinn baðar sig í fyrstu sólargeislum dagsins
Fallegt útsýni úr Sveltiskarði
Flott um að litast í kringum Skaftafell
Nýfallinn snjór í hlíðunum
Skýjum ofar
Það sem koma skal
Margir af flottustu tindum landsins
Mosvallahryggur
Sólin hækkar og fer að hita kalda kroppa
Fyrstu snjóbrekkurnar
Elli brosir sínu breiðasta enda ekki yfir neinu að kvarta
Fleiri flottir tindar í norð-vestur. Skarðatindur, Miðfellstindur, Þumall og fleiri
Norðan við Vesturtind
Vesturtindur
Seinasta brekkan upp á Hátind
Skýin umlykja Vesturtind
Horft yfir Miðtind
Seinustu metrarnir upp á hæsta punkt
Útsýnið gerist ekki mikið betra
það má deila svona á samfélagsmiðlum
Óðinn sáttur með daginn
Öræfajökull í allri sinni dýrð
Seinasti séns að njóta útsýnisins áður en niðurgangan hefst
Haldið af stað niður
Suðurtindur og Miðtindur
Vesturtindur í feluleik í skýjunum
Eitt af mörgum stoppum dagsins
Flott útsýni í allar áttir
Hafrafell
Seinustu brekkurnar