Eftir uppgang í gögnuskíðaleiðöngrum hjá Gumma í fyrra langaði honum að stíga aðeins stærra skref í þennan heim og þá lá beint við að fara yfir landið.
Fyrsta hugmyndin var að ganga frá norðurlandi alla leið á suðurlandið, helst yfir Mýrdalsjökul. Þannig vorum við búnir að teikna upp 270km leið sem hófst á Öxnadalsheiðinni. Hugmyndin var svo borin undir teymið og úr varð að Bjartmar og Óðinn myndu skella sér með og að Bjartmar myndi hætta við Þórisvatn og Arnar koma inn í hans stað.

Undirbúningurinn var talsverður, eitthvað vantaði okkur af búnaði ofl. en við komumst ekki í margar æfingaferðir þó að við höfum tekið smá útilegu sem Bjartmar og Gummi tóku í Bláfjöllum á kaldri febrúarnóttu. Það dugði til að kveikja aðeins í okkur og koma okkur í gírinn fyrir það sem koma skyldi.

Annar bíllinn á heimili Gumma þurfti að komast á verkstæði og það fékkst tími fyrir hann á góðu verkstæði á Akureyri svo upplagt var að fara með bílinn norður og labba svo til baka á suðurlandið.

Úr varð að við lögðum af stað norður eftir vinnu miðvikudaginn 2. mars. Hentum bílnum á verkstæðið og fengum svo kærkomið skutl frá góðum lögreglumanni á frívakt til að komast á Öxnadalsheiðina. Við lögðum af stað við mastrið um kl. 11 eftir leiðinni upp Kaldbaksdalinn og upp á Nýjabæjarfjall. Þessi kafli leiðarinnar var erfiðastur þar sem þungt er að draga púlkurnar upp úr dalnum. Þetta var hækkun úr 540 metrum í rúmlega 1100 svo þetta tók smá toll af annars ferskum fótum sem voru tilbúnir í langferð.
Þennan fyrsta dag var veðrið mjög gott, sól og hægur vindur. Við pössuðum okkur að ganga mjög hægt og taka talsvert af pásum í brekkunum til að brenna ekki of mikla orku. Á endanum komumst við upp á sunnanverðan Tröllaskagann og tókum stefnu suður eftir hásléttunni. Eftir nokkra tíma komum við að góðum sléttum stað og ákváðum að segja þetta gott og koma upp tjaldinu, enda að koma kvöldmatartími. Í svona ferðalagi munar um að gera góðan tjaldstað þar sem ánægja dvalarinnar getur haldist í hendur við hversu vel er að uppsetningunni staðið.

Við vorum ekki að byggja skjólveggi við tjaldið nema eina nótt, en mokuðum alltaf vel yfir snjóskarirnar. Notuðum Ísaxirnar, skíðin og snjóhælanna til að festa tjaldið niður og stöguðum það vel. Við vorum alltaf í fínum snjó til að nota snjóhæla svo það var aldrei vesen að koma tjaldinu vel fyrir.
Inni í fortjaldinu mokuðum við alltaf gryfju, eða skurð, svona 40cm djúpann. Þetta var bæði til að það sé gott að sitja við eldamennskuna og matnum en einnig mjög hentugt á morgnanna þegar þetta var nýtt sem kamar, rétt áður en við tókum niður tjaldið sjálft.
Í svefnpokunum vorum við með silkipoka fyrir köldu næturnar, ásamt því að við sváfum í einhverjum fötum. Mikilvægt er að halda hita á sér áður en maður fer í svefnpokann því það getur tekið smá stund að ná upp hita þar ef maður kólnar of mikið.

Bensínprímusinn er líka skemmtilegt verkfæri og allt öðruvísi en gasbræður sínir því það þarf að láta þá loga talsvert til að hita þá í upphafi. Því er mikilvægt að passa að ekkert sé nálægt eða fyrir ofan hann þegar hann er hitaður. Þegar tjaldinu er lokað er hitinn fljótur að hækka inni þegar tjaldið er svona vel lokað með snjóskörunum. Þá þarf einnig að passa smá loftstreymi, sérstaklega þegar verið er að elda. Einnig opnuðum við út þegar suða kom upp til að það fylltist ekki allt af gufu með tilheyrandi raka.
Þar sem við vorum þrír í tjaldinu voru alltaf svefnpokarnir dálítið mikið utaní ytri veggjum tjaldsins. Það þýðir að það kemur raki í þá. Best er ef það eru bara 2 í tjaldi því þá er nægt pláss til að þetta gerist ekki, en þar sem við vorum að fara að gista eitthvað inni höfðum við minni áhyggjur af þessu því við gætum þá þurrkað þetta þar.

Á degi 2 hafði veðrið versnað aðeins. Það var búið að skafa aðeins yfir búnaðinn og töskurnar úti og talsverð ísing, sérstaklega á skíðunum ásamt því að það var komin mikil þoka. Útsýnið var alveg svona 5-10 metrar ef það var eitthvað dökkt til að horfa á. Annars rann allt saman í eina mikla snjóblindu ef ekkert dökkt var í augnsýn. Eftir góðan morgunmat pökkuðum við saman og lögðum af stað. Við vorum að skoða veðrið og fá upplýsingar úr bænum þegar í ljós kom að næsti sólarhringur yrði stormasamur þar sem enn ein myndarlega lægðin var að koma inn. Þá ákváðum við að drífa okkur í skálann Bergland sem við ætluðum annars að sleppa og halda beint í Laugafell með einu tjaldstoppi. Leiðin að Berglandi var rúmir 20km og það í algjörri snjóblindu. Það var mjög spennandi að byrja allt í einu að renna niður og ganga upp brekku til skiptis án þess að sjá nokkuð hvaða landslag maður var að ferðast um. Bara allt í einu byrjaði maður að renna niður og þá reyndum við að fara bara ekki of hratt. Ferillinn sem við vorum búnir að teikna fannst okkur traustvekjandi svo það var ekkert annað að gera en að halda bara áfram, sérstaklega með storm á leiðinni.
Ekki löngu áður en við komum að Berglandi birti aðeins til um stund. Þá sáum við að þetta var bara svona týpískt íslenskt öldótt landslag sem við vorum að ganga í. Einnig sáum við smá dal fyrir framan okkur sem við tókum stefnuna í til að lágmarka það að fara upp og niður brekkur. Þetta jók aðeins hraðann á okkur á meðan við sáum í kringum okkur. Eftir góðan göngudag komum við að skálanum góða, komum okkur fyrir, borðuðum kvöldmat og fórum svo að hafa samband til að kanna framhald veðurs.
Ekkert farsímasamband er við Bergland en það var samband á talstöðinni í glugganum bakvið gashelluborðið. Með því gátum við hlustað á fréttir og talað við bæði Arnar og Jón, pabba Gumma sem voru að skoða veður fyrir okkur meðan við vorum ekki í netsambandi.

Veðrið

Niðurstaðan var að næsti dagur væri ekki fýsilegur til ferðalags og að við skyldum sofa þarna í 2 nætur og halda svo áfram því þá væri komið skikkanlegt veður. Í Berglandi er góður olíuofn svo hægt var að kynda vel og þurrka allt sem var blautt. Sem dæmi var tjaldið vel blautt þegar það kom inn úr frostinu þar sem það var vel ísað eftir kalda nóttina áður. Í skálanum voru skemmtilegar sögur til að lesa og við spiluðum aðeins. Eftir seinni nóttina var veðrið orðið alveg sæmilegt svo við héldum áfram í Laugafell. Einhverjar fregnir voru að það væri bara gluggi í einn dag því næsta lægð væri alveg að skella á. Leiðin að Laugafelli var bara skemmtileg. Nokkrar ár sem við fórum yfir á snjóbrúm þar sem við gengum í smá sveig í austur til að vera á sem mestri sléttu, ef bein lína er tekin lendir maður í giljum með tilheyrandi sulli sem er gott að hafa á bakvið eyrað þegar maður er að þvælast þarna um.

Í Laugafelli var bara flott veður. Aðstaðan er mjög góð og vorum við í gamla skála Ferðafélags Akureyrar sem er upphitaður og skelltum við okkur auðvitað í laugina sjálfa. Hún var svona 37-39° sem slapp alveg. Aðeins misheitt í henni vatnið og góðir snjóbakkar sitthvoru megin sem voru þó ekki nema tæpur metri á hæð. Þarna var líka lítill peli tekin fram og gætt sér á góðu viskýi.

Spáin breyttist líka aðeins meða við vorum í Laugafelli. Um morguninn hafði spáin skánað nógu mikið til að við ákváðum að láta vaða áfram með stefnuna á Sprengisand. Við vorum dauðfegnir þar sem við vorum þegar búnir að eyða einum degi í bið í Berglandi og nú búnir að eyða 3 nóttum í skála og aðeins tjaldað einu sinni. Við héldum af stað frá Laugafelli um 10 leitið og gengum í suður milli Laugafells og Laugafellshnúks þar sem vegurinn liggur. Við fylgdum honum nokkuð um stund eða þangað til það kemur kröpp beygja á hann í austur á móts við Fjórðungsöldu. Þar héldum við beint áfram yfir Sprengisand og tókum stefnuna á Skrokköldu sem er ekki langt frá Syðri-Hágöngum. Þarna vorum við komnir á Sprengisand milli jöklanna og nutum þess að sjá fjöllin í kringum okkur. Nokkrar kvíslar eru á Sprengisandi og fórum við yfir þær á snjóbrúm. Nokkrar þeirra voru talsvert opnar en ekki þurftum við að leita langt til að finna snjóbrýr og sáum við á ánum að ekki var nema tæplega meters snjódýpt á Sprengisandi að jafnaði og á öldutoppunum stóðu steinarnir yfirleitt upp úr.

Frá Laugafelli á Skrokköldu voru þrjár dagleiðir og gistum við því tvær nætur í tjaldinu. Fyrri nóttina var hæglætis veður en þó seinna kvöldið hafi verið fallegt var talsverður skafrenningur morguninn eftir og þar sem við vissum af því byggðum við ágætis skjólvegg fyrir þeirri átt sem við vissum að vindurinn átti að koma. Kvöldið áður var björgunaraðgerð undir Sylgjujökli þar sem tveimur mönnum var bjargað eftir að hafa lent í vatni og blotnað. Við urðum varir við þyrluhljóð og vorum í sambandi við svæðisstjórn og gátum gefið upplýsingar um veður og færð á okkar svæði en við vorum um 30km frá vettvangnum.

Síðasta dagleiðin á Skrokköldu var aðeins styttri, en við tók svo brekkan upp á Skrokkölduna sjálfa. Þarna um kvöldið átti að hvessa duglega og því vorum við að flýta okkur upp á fjallið þar sem vinnan hans Gumma er með fjarskiptastað og ákváðum við að gista þar og bíða af okkur veðrið ásamt því að þurfa að sinna staðnum aðeins. Um nóttina fór húsið að hristast allmikið og hélt áfram fram á næsta dag. Við nánari skoðun var okkur litið á vindmælinn á Ásgarðsfjalli, en Kerlingafjöllin blöstu við okkur daginn áður, en þar voru nú 53m/s í hviðum. Það var varla stætt úti og vorum við bara sem mest inni á meðan veðrið var svona. Við nánari veðurskoðun kom í ljós að næsta dag myndi veðrið lítið skána. Með þessu var einnig hiti svo ekki bara að það væri duglegur vindur heldur var einnig hláka í 2 daga.

Við vorum því á Skrokköldu í 3 nætur þó við höfðum geta farið um kaffileiti síðasta daginn að þá ákváðum við að fara frekar fyrr að sofa og vakna extra snemma til að ná góðum degi en mikil heimþrá var komin í Bjartmar sem var nú á síðasta áætlaða degi sínum aðeins kominn á Skrokköldu.

Það var hugur í Gumma og Óðni að klára ferðina yfir á suður-undirlendið, en þegar við skoðuðum veðurspána betur sáum við í Atlantshafsspánni að mjög stór lægð var að ná landi og náði hún alveg frá Reykjanesi að austurströnd Bandaríkjanna. Þessi lægt var að koma og hefði stoppað okkur af í enn fleiri daga með tilheyrandi bið og sundlaugum í öllum dölum. Þegar þetta lág fyrir ákváðum við að þetta væri bara komið gott, enda vorum við að taka sumarfrísdaga í þetta verkefni og var ekki mikill spenningur fyrir að lengja sumarfríið til muna, eingöngu til að bíða af sér óveður í tjaldi eða fjallaskála í marga daga í viðbót.

Daginn eftir vöknuðum við klukkan hálf sex og vorum við þá lagðir af stað fyrir klukkan 8 til að ná löngum degi á móti bílnum þar sem Jón, pabbi Gumma var að sækja okkur. Þennan dag var mjög gott veður, sól og stillt, en mikið var um krapapytti núna þar sem hlýindin höfðu aldeilis látið finna fyrir sér með rokinu síðustu 2 daganna. Í byrjun dags sökk Gummi uppað hnjám í krapapytt og datt við það framfyrir sig, en náði að koma sér fljótt upp svo ekki var mikið blautt. Sem betur fer voru buxurnar þétt strekktar yfir skóna svo ekki kom vatn í þá, aðeins vettlingar og buxurnar blotnuðu svo þá var skipt um vetlinga og buxurnar þornuðu við líkamshitann og sólina.

Við náðum engu að síður rúmlega 30km þennan dag og vorum svo sóttir við Þórisvatn eftir 150km göngu yfir Sprengisand. Þrátt fyrir að hafa viljað halda áfram ákváðum við að þetta hafi verið orðið gott af því að bíða af sér veður því það var bara að fara að versna ef eitthvað var. Því héldum við til byggða og byrjuðum á að fara í gufu og sturtu í bústaðnum hjá Jóni ásamt því að fá okkur góða kjötsúpu. Þó að við höfðum ekki mikið af aukafötum til skiptanna að þá var engu að síður mjög gott að fara í bað og skola af sér mestu hrútalyktina eftir ævintýri síðustu 10 daga.

Í morgunmat í ferðinni var Óðinn með múslí sem hann setti heitt vatn útá ásamt hunangi. Bjartmar og Gummi skipust á að borða kjötsúpu, frukt- eða chokolademuesli frá Real turmat. Yfir daginn vorum við að stoppa á 1-3 tíma fresti til að borða nesti. Í það vorum við með hafrakökur, kex, súkkulaði, smurt rúgbrauð eða brauð með hnetusmjöri yfir. Þá vorum við einnig með heitt á brúsa til að drekka með kaffipásunum, ýmist heitt súkkulaði, kaffi eða te. Mikilvægt er að vera með nóg af slíkum efnivið því það er mjög gott að fá heitt að drekka – og nóg af því þegar kalt er í veðri. Gummi tók t.d. með sér einn kassa af Swiss miss bréfum, en það hefðu alveg mátt vera 2 kassar.

Við vorum með basic viðgerðasett, duct tape rúllu, prússíkbönd, teygjur, leatherman, vax – bæði sprey og glidevax kubb og viðlíka búnað. Mikilvægt er að vera með bætur fyrir loftdýnur því það vill enginn sofa dýnulaus á snjó. Vorum líka með auka dýnu sem við þurftum ekki að nota. Við vorum ekki með vara skíði, en vorum með vara stafi sem við þurftum ekki að nota.
Þess utan vorum við með eina 40m línu sem við þurftum ekki að nota en var til öryggis. Þó vorum við ekki með klifurbelti, en við vorum þó með smá hýfingarbúnað, karabínur og tibloc ef við hefðum þurft að fara í einhverjar slíkar æfingar. Snjóhæll var notaður til að festa púlkurnar við á nóttunni, sérstaklega þegar mikill vindur var. Skíðastafirnir voru settir meðfram tjaldinu alla saman svo þeir finnist auðveldlega þó það hafi skafið yfir. Auka sokkar eru mikilvægir í svona ferðum því það er alveg mösst að fara í þurra sokka á morgnanna. Því vorum við með nokkra slíka og var nánast ekkert um nein fótaeymsli á borð við nudd eða slíkt. Það sem við klikkuðum á var að vera með svamp eða klút sérstaklega til að þurrka úr tjaldinu, en við notuðum smá pappír í það þess í stað. Við höfðum líka ofreiknað bensínið talsvert svo það er nóg til af slíku fyrir næstu leiðangra, og það nú bensín með reynslu.

Í matarpásum yfir daginn settum við á okkur dúnúlpu ef veðrið var gott, ef það var hvasst grófum við smá holu fyrir lappirnar, settumst í hring og settum yfir okkur neyðarskýli til að verða ekki kalt á meðan við borðuðum. Þessi skýli eru algjör snilld, líka ef eitthvað óvænt kemur upp og bregða þarf skjóli yfir okkur.

Myndir

Að leggja af stað á Öxnadalsheiði
Í Kaldbaksdal
Bjartmar í Kaldbaksdal
Ofar í Kaldbaksdal
Bjartmar
Bjartmar og Óðinn norðarlega á Nýjabæjarfjalli
Smá pása við vörðuna
Á Nýjabæjarfjalli
Á Nýjabæjarfjalli
Stór slétta á sunnanverðum Tröllaskaganum
Fyrstu tjaldbúðir, Bjartmar grefur gryfju og Gummi mokar snjó yfir skarirnar
Inni í tjaldinu
Morgunin eftir var kuldalegt
Smá skaf yfir því sem fékk að bíða úti
2. dagurinn var í snjóblindu
Bjartmar í hvíta heiminum
Gummi að ná í neyðarskýlið fyrir nestispásu
Bergland
Óðinn í Berglandi
Bjartmar í Berglandi
Komnir af stað aftur eftir að hafa beðið af okkur veður í einn dag
Gummi og Bjartmar
Gummi
Sunnarlega á Nýjabæjarafrétt
Farnir að nálgast Laugafell
Gummi
Óðinn
Gummi að skoða ána eftir að hafa farið yfir snjóbrú
Fallegt er það
Óðinn teymir púlkuna um hliðarhalla
Á snjóbrú
Óðinn og Bjartmar að fara yfir snjóbrú
Hressir og alveg að koma í Laugafell
Skíði
Skálar við Laugafell
Laugafell
Laugin var kærkomin
Fórum extra varlega hér!
Vegvísar, við vorum samt ekki að stefna á neitt af þessum örnefnum
Haldið frá Laugafelli
Í skarðinu milli Laugafells og Laugafellshnúks
Miklafell stendur tignarlega fram úr austanverðum Hofsjökli
Það voru misjafnar aðferðirnar við að fara niður brekkur
Nestispása undirbúin, hola fyrir fætur og neyðarskýli yfir
Að velja snjóbrú
Skemmtilegt landslag
Óðinn í hliðarhalla
Bjartmar og Gummi að velja snjóbrú
Að koma á Sprengisand
Sprengisandur er stór og Sléttur
Næstu tjaldbúðir
Ekki var þykkur snjór á Sprengisandi, en nóg til að komast yfir
Enn ein snjóbrúin
Brekka við árbakka
Bjartmar
Tjaldbúðir þegar spáin segir að það eigi að hvessa hressilega um nóttina
Daginn eftir hafði skafið talsvert
Arnarfellin í fallegri morgunsól. Kerlingafjöll til vinstri
Tjaldbúðirnar
Þó maður haldi að Sprengisandur sé þurr eyðimörk er talsvert um vatnsföll
Kerlingafjöllin fengu að njóta sín
Óðinn gengur hér með Syrði-Hágöngur í baksýn
Bjartmar
Að nálgast Skrokköldu
á Leið niður af Skrokköldu eftir langa óveðursdvöl
Allt á hreinu hér
Hér sökk Gummi í krapa, fór sem betur fer vel
Bjartmar og Óðinn komust lukkulega þurrir yfir, en stór pyttur var einnit vinstra megin við myndina
Horft til baka
Gummi
Bjartmar
Gummi
Kerlingafjöll byrjaði fljótt að safna skýjum
Að nálgast Hnöttóttuöldu
Óðinn
Falleg morgunbirta
Óðinn
Óðinn
Óðinn og Bjartmar
Bjartmar í snjókomu
Vorum svo sóttir við Þórisvatn
Það þarf að passa sig á skurðunum sem eru á Sprengisandi